Landsfundur Flokks fólksins
8. -9. september 2018

Ályktun allsherjarnefndar

Sjávarbyggðir og stjórn fiskveiða

Sjávarútvegurinn er undirstaða fyrir blómlega byggð um allt land.

Flokkur fólksins styður sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindanna.

Afar mikilvægt er að tryggja að nýtingarréttur á fiskimiðunum glatist ekki frá sjávarbyggðum umfram það sem orðið er. Hlúa ber að þessum byggðum. Sjávarauðlindirnar eru í eigu þjóðarinnar og hún á að njóta afraksturs af fiskimiðunum.

Herða skal viðurlög við brottkasti á fiski. Flokkur fólksins vill að settur verði á fót samráðshópur sjómanna og útgerðarmanna sem hafi það verkefni að finna og eyða út ónauðsynlegum hvötum sem leiða til brottkasts. Skoða ber sérstaklega að flot fiskineta séu þannig úr garði að ógni ekki lífríki sjávar. Friða ber í auknum mæli hrygningarstöðvar þorsks.

Flokkur fólksins vill stuðla að auknu frelsi til strandveiða með því að eigandi báts að 6 tonnum hafi rétt til óheftar handfæraveiða frá 1. maí til 1. september. Jafnframt verði grunnslóðin að 12 mílum veiðafærastýrð með tilliti til lífríki sjávarbotnsins.

Landbúnaðarmál

Flokkur fólksins leggur áherslu á fjölbreyttan og öflugan landbúnað á Íslandi. Landbúnaður er mikilvægur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og viðhalda byggð í landinu. Hreinleiki íslenskra landbúnaðarafurða eru aðalsmerki hennar og skal leitast við að kynna þær sem slíkar.

Innflutningur erlendra landbúnaðarafurða getur verið nauðsynlegur til að uppfylla þarfir markaðarins og til að veita íslenskum bændum heilbrigða samkeppni. Sérstakan varhug skal leggja við innflutningi á hráum kjötafurðum. Hafa skal í huga að víða eru erlendar afurðir niðurgreiddar eða styrktar af stjórnvöldum og flutningur þeirra hefur í för með sér mengandi starfsemi.

Flokkur fólksins vill leitast við að sætta framleiðendur íslenskra matvæla og neytenda þannig að báðir búi við góðan hag. Stuðlað verði að fjölbreyttari markaðssetningu afurða beint frá bændum til neytenda, t.d. með að ná fram löggiltri heimaslátrun. Aðsteðjandi fjárhagsvandi sauðfjárbænda er tímabundið vandamál sem brýnt er að leysa.

Orkumál

Orkuauðlindir þjóðarinnar skulu vera á forræði íslensku þjóðarinnar með áherslu á hagkvæma nýtingu og að almenningur hafi ávallt aðgang að ódýrum orkugjöfum.

Flokkur fólksins mun standa gegn öllum tillögum sem skert geta fullveldisrétt Íslendinga yfir auðlindum sínum.

Ferðaþjónusta

Flokkur fólksins telur ríka nauðsyn bera til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og niðurstöður verði notaðar sem hornsteinn stefnumótunar. Í ferðaþjónustu ber að leggja áherslu á sjálfbærni og þolmörk ferðamannastaða, að greinin verði arðsöm og skilji sem fæst fótspor eftir í náttúrunni.

Flokkur fólksins telur að komugjöld í ferðaþjónustu þurfi meðal annars að byggjast á nauðsyn þess að byggja upp innviði vegna umferðar á ferðamannastöðum.

Mikilvægt er að samræma alla gjaldtöku í formi þjónustu- og bílastæðagjalda í þjóðgörðum á Íslandi.

Skógrækt

Flokkur fólksins leggur áherslu á eflingu skógræktar og styðja þannig við atvinnuuppbyggingu til framtíðar úti á landi. Stefnt verði að því að gróðursett verði 12 milljón tré árlega innan 5 ára.

Landsbyggðin

Kappkostað verði að tryggja byggð um allt landið.

Flokkur fólksins leggur áherslu á þróttmikla atvinnustarfsemi um allt land í landbúnaði, iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Til þess að byggð haldist í landinu öllu er brýnt að starfsemi hins opinbera úti á landi verði í fullu samræmi við þarfir íbúanna, fjölda þeirra og samgöngur á viðkomandi svæði. Leitast skal við að koma stofnunum ríkisins fyrir úti á landi til jafns við á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta hins opinbera við íbúa hvers byggðarlags skal vera sem næst notendum hennar. Stjórn opinberra stofananna skal komið fyrir úti á landi eins og framast er unnt.

Flokkur fólksins leggur áherslu á að komið verði í veg fyrir að stórir hlutar lands færist í hendur erlendra aðila, t.d. með því að gera búsetu á Íslandi sem skilyrði fyrir eignarhaldi.

Samgöngur

Flokkur fólksins vill að án tafar verði farið í að tryggja umferðaröryggi á þjóðvegum landsins með því að aðskilja akstursleiðir á helstu þjóðvegum út úr höfuðborginni. Gerð verði áætlun til fimm ára um að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1. Mikilvægt er að ráðast sem fyrst í gerð Sundabrautar, brúa Ölfusá norðan Selfoss og gera ný göng undir Hvalfjörð. Jafnframt þessu verði gert átak í viðhaldi og breikkun þjóðvega landsins.

Reglur um umferð á þjóðvegum með mengandi og hættuleg efni verði hertar og sérstökum takmörkunum slíkrar umferðar verði komið á í grennd við vatnsverndarsvæði.

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni verði áfram miðstöð samgangna og sjúkraflutninga í lofti fyrir alla landsmenn.

Löggæslumál

Flokkur fólksins vill stórefla lögregluna í landinu og að unnið verði að því markvisst að búa lögreglunni viðunandi starfsskilyrði með nægum mannafla, tækjum og búnaði.

Skipulagðir glæpir, aukin netvæðing afbrota, fjölgun ferðamanna og mikið aðstreymi fólks til landsins kallar á nýjar áskoranir í lögreglunni. Til þess að gera lögreglunni kleift að takast á við þennan nýja veruleika þarf að styrkja lögregluna með því að fjölga lögreglumönnum svo þeir verði a.m.k. 1,8 lögreglumenn á hverja þúsund íbúa innan fimm ára.

Þar verður sérstaklega litið til þess að sýnileg og almenn löggæsla verði aukin. Mikilvægt er að lögreglan hafi ávallt á að skipa nægum mannafla til þess að meðferð og rannsóknir alvarlegra mála taki sem skemmstan tíma.

Landamæri

Flokkur fólksins leggur áherslu á skilvirka afgreiðslu hælisumsókna og haldið verði í skefjum þeim kostnaði sem komið hefur fram að keyrt hafi úr hófi vegna tilhæfulausra umsókna. Þá telur flokkurinn að afgreiða eigi slíkar umsóknir innan 48 stunda eins og gert í nágrannalöndum. Flokkurinn leggur áherslu á að innflytendur eigi greiða leið að aðlögun að íslensku samfélagi með þátttöku á vinnumarkaði og færni til að sjá sér farborða, tækifærum til menntunar og til að tileinka sér kunnáttu í íslensku.

Norðurslóðir

Íslendingar eiga að vinna með öðrum þjóðum sem liggja að norðurhöfum að því að sporna gegn mengun í hafinu og að nýting svæðisins verði umhverfisvæn. Þá taki Ísland þátt í að tryggja siglingaöryggi á svæðinu.

Umhverfismál

Auka ber vernd íslenskrar náttúru, fara með gát í virkjanamálum og láta náttúruna ætíð njóta vafans.

Flokkur fólksins vill að miðhálendi Íslands og hálendi Vestfjarða verði vernduð til samræmis við hvílíkar náttúruperlur hér um ræðir á alþjóðlegan mælikvarða.

Víðernin eru meðal helstu auðlinda Íslands og þær ber að vernda. Gæta ber þess að vega- og línulögnum á hálendinu verði stillt í hóf.

Flokkur fólksins telur að fara eigi sér hægt í frekari virkjunum fallvatna. Búa þarf umhverfisvænan lagaramma um virkjun vindorku og sjávarfallaorku.

Vistkerfinu stendur ógn af sívaxandi mengun í hafinu og stefnt skal að því að minnka plastnotkun með öllum ráðum, auka endurvinnslu og velja endurnýjanlegt hráefni í auknum mæli.

Málefni þjóðkirkjunnar

Flokkur fólksins styður þjóðkirkjuna til að standa vörð um gildi kristinnar trúar og íslenska menningu. Áhersla verði lögð á kennslu í kristnum fræðum og almennum trúarbragðafræðum í grunnskólum landsins.

Beint lýðræði og kosningar

Flokkur fólksins vill að fólk fái aukin áhrif á ákvarðanir í landsmálum með beinu lýðræði. Hraðað verði endurskoðun kosningalaga, þ.á.m. að tekin verði upp rafræn kjörskrá og atkvæðisréttur jafnaður. Réttur almennings til upplýsinga um málefni stjórnsýslunnar verði tryggður í samræmi við gagnsæiskröfu samtímans.

Fangelsismál

Flokkur fólksins er hlynntur mildari úrræðum í stað refsivistar þar sem slíkt á við og telur að auka beri hlut rafræns eftirlits. Betrun á að vera markmið refsinga og gefa föngum kost á því að vinna og stunda nám meðan á afplánun stendur. Styðja ber sérstaklega við unga fanga eftir að þeir ljúka refsivist svo þeir leiti síður út á afbrotabraut að nýju.

Mikilvægt er að bið eftir afplánun verði stytt.

Fíkniefni

Neysla ólöglegra fíkniefna og misnotkun lyfseðilskyldra ópíumóða er alvarlegt vandamál sem bitnar helst á ungu fólki og ber að berjast gegn þessum vágesti með öllum ráðum. Styðja ber dyggilega við bakið á þeim meðferðaraðilum sem starfa við að hjálpa þessum hópi. Styðja skal einnig við bakið á sjálfssprottnum meðferðaraðilum sem vinna til hliðar við heilbrigðiskerfið og ná oft undraverðum árangri.

Flokkur fólksins er andvígur lögleiðingu kannabisefna, en styður mildari refsingar gagnvart neyslu slíkra efna.

Close Menu