Landsfundur Flokks fólksins
8. -9. september 2018

Ályktun Efnahags- og utanríkisnefndar

Flokkur fólksins leggur áherslu á þróttmikið atvinnulíf sem aflvél verðmætasköpunar og tekjumyndunar í samfélaginu. Flokkur fólksins leggur því áherslu á að atvinnuvegum landsmanna séu búin góð starfsskilyrði um leið og heimilum er tryggð örugg afkoma. Hagstjórn sé rekin með ábyrgum hætti í samræmi við þessar grundvallarforsendur

Ríkisfjármál

Á sviði ríkisfjármála leggur Flokkur fólksins áherslu á lög um opinber fjármál sem nýja umgjörð um ákvarðanir um búskap ríkissjóðs og stefnumörkun á hverjum tíma. Mikilvægt er að stjórnvöld virði á hverjum tíma ákvæði þessara laga og beiti þeim af ábyrgð og með jafnvægi í þjóðarbúskapnum fyrir augum. Flokkurinn leggur áherslu á gagnsæi í ríkisfjármálum og skilvirka birtingu upplýsinga um búskap ríkissjóðs. Flokkkurinn leggur áherslu á 40. grein stjórnarskrárinnar þess efnis að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Flokkurinn leggur áherslu á að skattlagning á einstaklinga og fyrirtæki sé með skilvirkum hætti og stillt í hóf. Flokkur fólksins krefst þess að tekjur einstaklinga sem ekki duga fyrir framfærslu samkvæmt opinberum viðmiðmum verði gerðar skattlausar.

Á útgjaldahlið ríkisfjármála vill Flokkur fólksins gæta aðhalds og varast að ríkisbúskapurinn bólgni út eins og þróunin hefur verið allt of lengi. Flokkurinn leggur áherslu á að við stefnumótun í ríkisfjármálum á hverjum tíma sé lýst skýrum markmiðum með fjárveitingum og að árangur verði mældur með raunhæfum hætti. Grípa ber þau tækifæri sem gefast til sparnaðar með sameiningu stofnana og eftir atvikum með því að færa verkefni í hendur einkageirans.

Peningamál, vextir og verðtrygging

Flokkur fólksins vill endurskoðun á þeirri stefnu í peningamálum sem kallað hefur ofurvexti yfir heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna. ,. Fjármagnskostnaður hér á landi hefur reynst margfaldur og ósambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndunum. Þessi stefna hefur lagt þungar byrðar á einstaklinga, heimili og atvinnufyrirtæki. Stefnan hefur þannig skekkt samkeppnisstöðu íslenskra atvinnufyrirtækja í samkeppni við erlenda keppinauta og rýrt lífskjör fólksins í landinu. Slík stefna fær ekki staðist að dómi flokksins.

Verðtryggingin hefur grafið um sig og hefur sýnt sig hafa eyðingarmátt gagnvart heimilum landsmanna og atvinnufyrirtækjum. Öll áhætta vegna verðhækkana er felld á veikari aðila lánasamnings. Hin víðtæka ábyrgð sem lántaki er látinn gangast undir og ófyrirsjáanleiki um greiðslur í framtíðinn er slík að stappar nærri að lántaki sé sviptur fjárforræði á lánstímanum. Óbeinir skattar rata beina leið inn í afborganir og greiðslur og hækka þær ef minnsta tilefni er til. Varnarleysi lántaka sem eru einstaklingar og heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna er algjört eins og dæmin sýna. Flokkur fólksins krefst þess að þetta verðtryggingarkerfi verði afnumið.

Flokkur fólksins bendir á að verðtryggða krónan á ekkert sameiginlegt með krónunni nema nafnið og er eins og hver önnur erlend mynt. Talin er ástæða til að banna lántökur í erlendri mynt og Flokkur fólksins telur að sama ætti að eiga við um verðtryggðu krónuna. Engar reikniformúlur hafa verið gefnar um hvernig beri að reikna verðtryggð lán af hálfu opinberra aðila og eftirlit með þessum hluta markaðarins hefur reynst í skötulíki. Flokkur fólksins vill færa Ísland í hóp nágrannaríkja á Vesturlöndum og taka upp sams konar háttu og þau við fjármögnun ibúðarhúsnæðis.

Breytt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn

Flokkur fólksins vill ná fram breyttu lífeyriskerfi í þágu launafólks þar sem tryggð verði aðkoma þeirra að stjórnun sjóðanna.  Kannaðir verði kostir þess að sjóðir verði sameinaðir í einn sjóð með A og B deild. B-deild sjái um útgreiðslu lífeyris miðað við áunninn réttindi við gildistöku laga. Allir greiði í A-deild frá og með þeirri gildistöku þar sem helmingur af greiðslu hlutaðeigandi greiðist í sérsjóð einstaklingsins. Hann ákveði ávöxtunarleið og á rétt á þeim fjármunum við útgreiðslu ásamt maka og afkomendum eftir hans dag. Hinn helmingurinn rennur í sameignarsjóð. Flokkur fólksins krefst þess að réttindi launafólks í lífeyrissjóðum séu ekki gerð upptæk með skerðingum á bótum almannatrygginga.

Utanríkismál

Flokkur fólksins styður helstu hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu sem eru aðild að Sameinuðu þjóðunum, virk þátttaka í norrænu samstarfi og aðild Íslands að NATO. Flokkur fólksins er fylgjandi EES-samningnum og styður frumkvæði þingmanna flokksins um athugun á kostum og göllum þess samstarfs. Flokkur fólksins hafnar aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flokkur fólksins styður að gerði verði úttekt á Schengensamkomulaginu. Flokkur fólksins leggur áherslu á örugg landamæri með hertu landamæraeftirliti.

Flokkur fólksins bendir á að kostnaður Íslendinga af þátttöku í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi hefur reynst tiltölulega mun meiri en annarra ríkja og að fyrirsjáanlega geti teygst á tímalengd viðskiptaþvingana miðað við skilyrði í alþjóðamálum. Flokkur fólksins telur því ástæðu til að hætta þátttöku Íslands í viðskiptabanninu.

Flokkur fólksins vill að á sviði þróunarhjálpar verði eftir föngum lögð áhersla á stuðning í formi vöru framleiddrar á Íslandi.

Close Menu