Landsfundur Flokks fólksins 8.-9. september 2018

Fundargerð

Laugardagur 8. september

Landsfundur Flokks fólksins var haldinn á Center Hotel Plaza við Aðalstræti 4, 101 Reykjavík. 155 manns skráðu sig á fundinn. Fundurinn hófst klukkan 13:00 og var öllum opinn þar til klukkan 14:00 en þá var landsfundurinn formlega settur. Inga Sæland (IS) formaður flokksins bauð alla velkomna og ræddi síðan þann pólitíska árangur sem flokkurinn hefði náð allt frá stofnun flokksins. Eftir ræðu formanns tóku til máls alþingismenn flokksins, varaformaður Guðmundur Ingi Kristinsson (GIK), formaður þingflokksins Ólafur Ísleifsson (ÓÍ), Karl Gauti Hjaltason (KGH) og borgarfulltrúi flokksins, Kolbrún Baldursdóttir. Að ræðum loknum tóku framsögumenn við fyrirspurnum úr sal.

Fundarsetning

Klukkan 14:00 setti formaður flokksins, IS, landsfundinn og gerði að tillögu sinni að Halldór Gunnarsson (HG) og Magnús Þór Hafsteinsson (MÞH) yrðu kjörnir fundarstjórar. Var það samþykkt. Einnig lagði hún til að Sigurjón Arnórsson (SA) og Svanberg Hreinsson (SH) yrðu kjörnir ritarar. Var það samþykkt.

HG óskaði eftir staðfestingu á lögmæti landsfundarins. Það var samþykkt. Því  næst kynnti HG dagskrá fundarins.[1] Enn fremur kynnti hann tillögu stjórnar um skipan laganefndar (HG (formaður), SA og SH) og kjörnefndar (Ásgerður Jóna Flosadóttir(ÁJF) (formaður), Halldór Svanbergsson(HS) og Þráinn Óskarsson(ÞÓ)).  Óskaði HG eftir að fundurinn samþykkti skipan þeirra sem var gert.

Skýrsla stjórnar

Formaður, IS, flutti skýrslu stjórnar flokksins.[2] Skýrslan var send án umræðu til umfjöllunar hjá Efnahags- og utanríkisnefnd fundarins.

Tillaga til lagabreytinga

HG, formaður laganefndar, kynnti tillögu til breytinga á lögum flokksins. IS og KGH voru þau einu sem skiluðu inn gildum breytingatillögum. HG skýrði frá því að laganefnd stjórnar hefði unnið með IS og KGH til þess að samrýma og sameina tillögur þeirra í eina breytingatillögu sem gekk ágætlega. Flutningsmenn mæltu fyrir breytingatillögum sínum og rökstuddu þær. Eftir umræður var sérstaklega kosið um tvær tillögur. Annars vegar að breyta ákvæði 4.2 og hins vegar að innleiða nýtt ákvæði, 2.6. Niðurstöðurnar urðu þær að ákvæði 4.2 stóð óbreytt og að innleiðing ákvæðis 2.6 var samþykkt. Síðan var breytingatillagan borin upp í heild og samþykkt samhljóða. Einnig var samþykkt að breytingarnar skyldu taka gildi samstundis.[3]

Almenn umræða

Fundarmenn skiluðu inn stjórnmálatillögum til fundarins og ræddu um áhersluatriði sín: Rúnar Sigurjónsson (RS) skilaði inn tillögu um skattlagningu bifreiða.[4] Guðbjörn Jónsson ræddi um verðtrygginguna. Ragnheiður Hrefna Gunnarsdóttir ræddi um bílastyrki til aldraðra.

Drög að nefndaályktunum

KGH kynnti drög að nefndaráliti Allsherjarnefndar, ÓÍ kynnti drög að nefndaráliti Efnahags- og utanríkisnefndar og GIK kynnti drög að nefndaráliti Velferðarnefndar.

  • Hlé

 Nefndastörf hófust um 16:20 og stóðu yfir til 18:30 þegar fundi var  frestað til næsta morguns.

Sunnudagur 9. september

 Nefndastörf hófust á ný um 09:00. Að þeim loknum hófust formleg landsfundarstörf að nýju klukkan 13:10.

KGH kynnti nefndarstörf og ályktun Allsherjarnefndar. KGH fór yfir skriflegar tillögur sem upp voru bornar. Nokkrir tóku til máls.  Var ályktunin síðan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.[5]

ÓÍ kynnti nefndarstörf og ályktun Efnahags- og utanríkisnefndar.  Hann ræddi skýrslu stjórnar og endurskoðaðan ársreikning 2017 frá löggiltum endurskoðanda sem var til umfjöllunar í nefndinni. Síðan lagði ÓÍ til að skýrslan ásamt reikningnum yrði samþykkt sem var gert. Umræða fór fram með breytingatillögum. Var afgreiðslu frestað.

Baldvin Örn Ólason (BÖÓ) kynnti nýja heimasíðu flokksins sem væri í undirbúningi.

Formannskjör

 Formaður kjörnefndar ÁJF kynnti kosningu til formanns. Ekkert mótframboð barst gegn sitjandi formanni IS, sem var einróma kosin við lófaklapp fundarins. ÍS þakkaði það traust sem henni hefði verið sýnt með þessari kosningu. 

Í framhaldi fór fram kjör til varaformanns. Í framboði voru sitjandi varaformaður GIK og HG sem kynntu áherslur sýnar fyrir framboðið. Síðan var gengið til kosninga um embætti varaformanns. Fundi framhaldið eftir að landsfundarmenn höfðu greitt atkvæði sín í varaformannskjöri.

GIK kynnti niðurstöðu Velferðarnefndar. Hann fór yfir þær breytingar sem gerðar voru í umfjöllun nefndarinnar.[6] Ályktunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Varaformannskjör

Formaður kjörnefndar ÁJF sagði að fram hefðu komið athugasemdir um framkvæmd kosninganna. Hún lýsti málsatvikum og óskaði þess að fundarmenn fundarins staðfestu til kjörnefndar að kjörseðlarnir með greiddum atkvæðum yrðu teknir gildir af fundarmönnum. Var það samþykkt að atkvæðin væru gild. Kynnti hún síðan niðurstöðu varaformannskjörsins. Niðurstaðan var sú að GIK hlaut kosningu til varaformanns. GIK hélt ræðu og þakkaði fundargestum traustið.

Í framhaldi fór fram kjör til aðalstjórnar. Átján frambjóðendur kynntu í stuttum ræðum áherslur sínar fyrir framboðið. Síðan var gengið til kosninga.

Fundi framhaldið eftir að fundarmenn höfðu greitt atkvæði til kosninga í aðalstjórn. ÓÍ kynnti breytingar á ályktun Efnahags- og utanríkisnefndar sem hann hafði unnið í samvinnu við tillögumenn um breytingar. Var ályktunin síðan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.[6]

Stjórmálaályktun fundarins

 ÓÍ kynnti stjórnmálaályktun Flokks fólksins sem var unnin út frá ályktunum nefndanna í samráði við formann flokksins og borgarfulltrúa flokksins í Reykjavík. Ályktunin var samþykkt einróma án umræðu. [7]

Aðalstjórnarkjör

Formaður kjörnefndar ÁJF kynnti niðurstöðu stjórnarkjörs. Eftirtaldir stjórnarmenn náðu kjöri og eru hér taldir upp eftir röð frá fjölda atkvæða sem hver og einn hlaut og er sá með flest atkvæði nefndur fyrstur:

Karl Gauti Hjaltason, Jónína Björk Óskarsdóttir, Halldór Gunnarsson, Sigurjón Arnórsson, Svanberg Hreinsson, Kolbrún Baldursdóttir og Birgir Jóhann Birgisson.

Nokkrir nýkjörinna stjórnarmanna héldu stutt ávörp og þökkuðu fyrir það  traust sem þeim væri sýnt  kosningunni.

Önnur mál

Almenn umræða um ýmis mál ásamt fyrirspurnum til trúnaðarmanna flokksins, þingmanna og borgarfulltrúa sem var svarað úr ræðustól af viðkomandi eftir því sem heyrði til hvers og eins.

Í framhaldi fór fram kjör til varastjórnar. Þrír af alls fjórum frambjóðendum til setu sem varamenn í stjórn flokksins kynntu áherslur sínar fyrir framboðið. Síðan var gengið til kosninga.

Varastjórnarkjör

Formaður kjörnefndar ÁJF kynnti niðurstöðu varastjórnarkjörs. Eftirtaldir varastjórnarmenn náðu kjöri og eru hér taldir upp eftir röð frá fjölda atkvæða sem hver og einn hlaut og er sá með flest atkvæði nefndur fyrstur:

Rúnar Sigurjónsson, Sigurður Steingrímsson og Ingvar Gíslason.

Varastjórnarmenn sem viðstaddir voru þökkuðu fyrir það traust sem þeim væri sýnt með þessu kjöri í stuttum ræðum.

Lok landsfundar

Formaður flokksins flutti hvatningarræðu og þakkaði fyrir góð fundarstörf.

HG sleit fundinum.

Fundergerð þessi var samþykkt af fundarstjórum, fundarriturum og stjórn Flokks fólksins.

Close Menu