Hún mælti einnig fyrir frumvarpinu á síðasta þingi. Það hlaut ekki afgreiðslu og er lagt fram aftur óbreytt.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið þess sé að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og hvetja til sparnaðar lífeyrisþega með því að draga úr skerðingum.
Verði frítekjumark lífeyristekna hækkað í 100 þúsund krónur myndi það kosta ríkissjóð 16,075 milljarða króna í aukin útgjöld árlega, segir í greinargerðinni og vísað í upplýsingar frá félags- og barnamálaráðherra.
Árið 2016 hafi öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna verið afnumin með breytingum á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum. Þess í stað var lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25 þúsund krónum á mánuði og gildir um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra, segir í greinargerðinni. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna hafi síðan verið lögfest árið 2017.
Heildarskerðingar til ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna nema 37,556 milljörðum króna árlega, samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra. Eldri borgarar hafi sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðshlutdeild sinni. Lífeyristekjur séu því ekki launagreiðslur sem komi frá vinnuveitendum að starfsaldri loknum. Þarna sé því óbein skerðing á þeim hagsmunum sem eldri borgarar hafi unnið sér inn með vinnu sinni í gegnum tíðina.
Frumvarpið gengur nú til annarrar umræðu og til velferðarnefndar.