Landsfundur Flokks fólksins
22. febrúar 2025

Stjórnmálaályktun landsfundar Flokks fólksins

1. Baráttan gegn fátækt og fyrir hagsmunum þeirra sem minnst bera úr býtum hefur verið og verður alltaf kjarninn í stefnu Flokks fólksins og leiðarljós við allar stefnumarkandi ákvarðanir.

2. Nauðsynlegt er að ná stjórn á fjármálum ríkisins til að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi lækkun vaxta. Verðbólga og háir vextir hafa neikvæð áhrif á allt hagkerfið, setja fjárhag þúsunda heimila í uppnám og koma verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna. Flokkur fólksins beitir sér fyrir efnahagsstefnu sem tryggir hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta.  Flokkurinn beitir sér fyrir því að tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi sem tryggi óverðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum til lengri tíma, á viðráðanlegum kjörum, og samhliða því verði verðtryggð lán til neytenda bönnuð. Þannig tryggjum við stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir heimilin. Stefnt skal að því að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka.

3. Flokkur fólksins leggur höfuðáherslu á að allir hafi þak yfir höfuðið. Nauðsynlegt er að brjóta nýtt land og ráðast í aukna uppbyggingu á  húsnæði til að vinna gegn sífellt hækkandi húsnæðisverði. Ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar ætlar að ráðast í bráðaaðgerðir til að fjölga íbúðum hratt og koma á kerfisbreytingum sem stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði.

4. Kjör öryrkja munu framvegis fylgja launavísitölu. En betur má ef duga skal. Bæta þarf grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega til að tryggja sjálfstæði þeirra, afkomuöryggi og atvinnutækifæri.

5. Til að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld þarf að auka réttindi aldraðra, draga úr skerðingum, efla heimaþjónustu og heimahjúkrun, tryggja dagdvöl og fjölga hjúkrunarrýmum. Vinna verður að samþættingu mismunandi þjónustustiga og setja viðmið um búsetuúrræði til að tryggja að þjónustuíbúðum fylgi raunveruleg þjónusta.

6. Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra verði samþykktur á Alþingi. Flokkur fólksins mun beita sér fyrir því að ákvæði samningsins verði virt á öllum stjórnstigum um allt land. 

7. Flokkur fólksins beitir sér fyrir ábyrgri meðferð á auðlindum þjóðarinnar og að sanngjarn hluti af arðinum af auðlindunum renni til fólksins í landinu.

8. Stytta verður biðlista barna eftir greiningum og meðferð, auka aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Einnig skal horfa til þess að fjármagna fjölbreytt úrræði, þannig að fólk geti fengið stuðning sem hentar þeirra þörfum.

9. Efla verður heilbrigðisþjónustu, ráða bót á fráflæðis- og mönnunarvanda Landspítalans og alls heilbrigðiskerfisins. Til þess verður að byggja fleiri hjúkrunarheimili og mennta fleira fólk til heilbrigðisstarfa og leita leiða til að kalla fólk aftur til starfa sem hefur horfið á braut, eða flutt til annarra landa.

10. Stefnt skal að því að tryggja jöfn búsetuskilyrði milli landshluta með greiðum aðgangi að opinberri þjónustu, eins og heilbrigðisþjónustu, með bættum samgöngum, auknum strandveiðum og fjölbreyttara atvinnulífi. Stórefla þarf vegagerð um land allt og endurskoða verklag og aðferðir. Vinna þarf upp viðhaldsskuld í vegakerfinu og fjárfesta í jarðgöngum.

11. Aðlaga þarf íslenska löggjöf um alþjóðlega vernd að löggjöf hinna Norðurlandanna og efla landamæraeftirlit. Efla þarf íslenskukennslu  innflytjenda til mikilla muna til að koma í veg fyrir einangrun þeirra og auka möguleika þeirra til að aðlagast íslensku samfélagi. Lögfesta þarf skyldu til íslenskukennslu fyrir börn og fullorðna sem hingað flytja, til samræmis við það sem þekkist á Norðurlöndunum.

12. Efla þarf strandveiðikerfið, en þar er stefna ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga strandveiðar mikilvægt fyrsta skref. Jafnframt þarf að jafna leikreglurnar í fiskveiðikerfinu svo að stóru útgerðirnar hafi ekki óeðlilegt forskot, til að mynda með því að aðskilja veiðar og vinnslu, með því að endurskoða reglur um tengsl eigenda með það að markmiði að 12% kvótaþakið verði raunverulega virt og einnig reglur um vigtun sjávarafla. Skoða þarf skattspor sjávarútvegsins til að hægt sé að koma í veg fyrir skattasniðgöngu og undanskot. Setja þarf auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem tryggir að greiða þurfi fullt verð fyrir aðgang að auðlindum. Tryggja þarf að fyrirtæki sem fá leyfi til fiskeldis í fjörðum landsins fullvinni afurðina hér á landi. Auðlindagjöld eiga að standa undir innviðauppbyggingu.

13. Auka þarf aðstoð við nemendur með sérþarfir, og fjölga kennurum. Við viljum gera kennslu að eftirsóknarverðu starfi með því að bæta starfsskilyrði kennara. Tryggja þarf jafnt aðgengi allra barna að íþróttum, listum og frístundastarfi.

14. Efla verður lestrargetu barna og ungmenna á öllum skólastigum. Þetta kallar á endurskoðun á kennsluaðferðum. Flokkur fólksins leggur áherslu á þróun og innleiðingu verkefnisins Kveikjum Neistann í fleiri grunnskóla enda hefur verkefnið sýnt fram á miklar framfarir þar sem það hefur verið nýtt í Grunnskóla Vestmannaeyja.

15. Ráðast verður í aðgerðir til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtingu þannig að stutt verði við verðmætasköpun um allt land. Tryggja verður forgang heimila og smærri fyrirtækja á raforku á sanngjörnu verði og að raforkuverð til heimila ráðist aldrei á uppboðsmarkaði. Enda voru forsendur uppbyggingar raforkukerfisins að almenningur nyti hennar með sanngjörnu verði. Þá þarf að niðurgreiða raforku til garðyrkjubænda enda eflir það innlenda grænmetisrækt og lækkar verð á grænmeti til neytenda m.a. til þess að tryggja fæðuöryggi.

16. Flokkur fólksins er friðarins flokkur og hvar sem hann kemur fram, hvort heldur á alþjóðavettvangi eða hér heima þá munum við tala fyrir friði.

17. Flokkur fólksins styður eindregið aðild íslands að Nató og mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir því að við verðum ávallt þjóð á meðal þjóða.