Landsfundur Flokks fólksins
8. -9. september 2018

Almenn stjórnmálaályktun

Flokkur fólksins er frjálslynt og víðsýnt stjórnmálaafl sem starfar á miðju íslenskra stjórnmála. Flokkur fólksins leggur áherslu á ábyrga og styrka stjórn landsmála með farsæld almennings fyrir augum. Flokkurinn er reiðubúinn að vinna með öllum þeim sem eru tilbúnir til að vinna að hagsæld og velferð allra landsmanna.

Öryrkjar og eldri borgarar

Öryrkjum og eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn. Stjórnarskrárvarin réttindi þessara þjóðfélagshópa verði virt í hvívetna. Flokkur fólksins fagnar löggildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, NPA. Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og fella brott frítekjumark vegna atvinnutekna. Flokkurinn vill að fullt samráð verði haft við hagsmunasamtök öryrkja um nýtt starfsgetumat m.a. með því að koma á miðstöð starfsgetu og endurhæfingar.

Láglaunafólk

Flokkur fólksins vill að tekjur undir 300 þúsund krónum á mánuði verði skattlausar. Flokkurinn vill snúa við þeirri öfugþróun að persónuafsláttur rýrni ár frá ári í verðgildi og hækki þannig skattbyrði mest hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar eins og gögn staðfesta að reyndin hafi orðið á umliðnum árum hér á landi.

Jöfn lífeyriskjör fyrir alla landsmenn

Flokkur fólksins vil jafna lífeyriskjör landsmanna. Þessu má ná fram með því að stofna einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn en þannig að hver og einn njóti áunninna réttinda í starfandi lífeyrissjóðum frá stofnun slíks sjóðs. Flokkur fólksins vill að sjóðfélagar séu ráðandi um stjórn sjóðanna og að gagnsæi ríki um fjárfestingar þeirra og rekstrarkostnað sem flokkurinn telur að hafi farið úr hófi fram. Flokkur fólksins vill að opinberir aðilar sem hafa með höndum eftirlit með starfsemi sjóðanna auki gagnsæi í störfum sínum og birti fullnægjandi upplýsingar um ávöxtun sjóðanna, rekstur og aðra þætti í starfi þeirra.

Börnin

Flokkur fólksins krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Virt verði sú vernd sem stjórnarskrá veitir börnum um að þeim skuli í lögum tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Öllum börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum. Skólastarf sé þróttmikið með áherslu á sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika. Flokkur fólksins vill að ráðist verði í sérstakar aðgerðir til að bæta líðan barna í skólakerfinu, ekki síst drengja sem koma verr læsir úr grunnskóla en stúlkur og pilta sem hverfa frekar frá námi í framhaldsskólum en skólasystur þeirra.

Unga fólkið og húsnæðismálin

Flokkur fólksins vill að komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi sem tryggi að ungu fólki sé gert kleift að eignast eigið heimili. Um 30 þúsund Íslendingar eru búsettir erlendis eftir að hafa yfirgefið landið í leit að betri lífsgæðum. Flokkur fólksins vill  greiða götu þessara Íslendinga heim m.a með hagræðingu og lækkun húsnæðis- og leigukostnaðar.

Heilbrigðis- og velferðarmál

Flokkur fólksins telur nauðsynlegt að framlög til heilbrigðisþjónustu verði aukin. Flokkur fólksins vill umbætur í velferðarkerfinu sem miði að því að draga úr skerðingum bóta og að fólk geti bætt hag sinn með aukinni vinnu ef svo ber undir. Grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.

Samgöngur

Gert verði átak til að efla samgöngur og umferðaröryggi í landinu. Flugvöllur verði áfram staðsettur í Vatnsmýri.

Löggæsla

Efla skal löggæslu landsins m.a. með því að fjölga starfandi löggæslumönnum á öllum sviðum og tryggja lögreglumönnum fullnægjandi starfsumhverfi.

Umhverfismál

Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenska náttúru, fara með gát í virkjanamálum og láta náttúruna ætíð njóta vafans. Hrein og ósnortin náttúra er auðlind sem skila ber óspilltri til komandi kynslóða.

Landbúnaður

Flokkur fólkins leggur áherslu á fjölbreyttan og öflugan landbúnað á Íslandi. Landbúnaður er mikilvægur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og viðhalda byggð í landinu. Stuðla verður að fjölbreyttari markaðssetningu afurða beint frá bændum til neytenda, t.d. með að ná fram löggiltri heimaslátrun.

Sjávarútvegur

Flokkur fólksins vill að sjávarútvegur hafi skilyrði til að eflast og dafna í samræmi við árangur sem náðst hefur við að efla framleiðni í greinarinni. Flokkur fólksins vill tryggja að nýtingarréttur á fiskimiðunum glatist ekki frá sjávarbyggðum umfram það sem orðið er. Aukið verði frelsi til handfæraveiða smábáta. Þjóðin öll á að njóta afraksturs af fiskimiðum hennar.

Ferðaþjónusta

Flokkur fólksins telur ríka nauðsyn bera til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu sem komin er í hóp mikilvægustu atvinnugreina landsmanna. Slíkar rannsóknir hafa verið lagðar til grundvallar í öðrum atvinnugreinum sem hornsteinn stefnumótunar. Í ferðaþjónustu ber að leggja áherslu á sjálfbærni og þolmörk ferðamannastaða, að greinin verði sem arðsömust en þannig að sem fæst fótspor verði skilin eftir í auðlindinni. Flokkur fólksins telur að komugjöld í ferðaþjónustu þurfi meðal annars að byggjast á nauðsyn þess að byggja upp innviði vegna umferðar á ferðamannastöðum.

Utanríkismál

Flokkurinn styður aðild Íslands að NATO, er fylgjandi EES-samningnum en vill að kostir hans og gallar verði skoðaðir. Flokkur fólksins hafnar aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flokkur fólksins styður endurskoðun á Schengensamkomulaginu líkt og aðrar eyþjóðir hafa gert með því að herða á landamæraeftirliti landsins með auknu vegabréfaeftirliti. Endurskoða skal þátttöku Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi.

Málefni innflytjenda

Flokkurinn telur brýnt að innflytjendur sem setjast að hér á landi taki þátt á vinnumarkaði og geti séð sér farborða og hafi tækifæri til að afla sér menntunar. Mikilvægt er að veita aðstoð við að læra íslensku og leggja áherslu á aðlögun að íslensku samfélagi.

Sjálfstæði landsins og stjórnarskráin

Flokkur fólksins vill standa vörð um sjálfstæði Íslands. Flokkur fólksins mun standa gegn öllum tillögum sem skert geta fullveldisrétt Íslendinga yfir auðlindum sínum.

Flokkur fólksins vill stuðla að ábyrgum breytingum á stjórnarskránni með víðtækri samstöðu og hafnar öllum kollsteypum með grundvallarlög þjóðarinnar. Flokkur fólksins leggur áherslu á að auðlindaákvæði verði bætt inn í stjórnarskrána og að fólk fái aukin áhrif á ákvarðanir í landsmálum með beinu lýðræði. Réttur almennings til upplýsinga um málefni stjórnsýslunnar verði tryggður í samræmi við gagnsæiskröfu samtímans.

Close Menu