20 atriði sem hafa verið að gerast í mennta- og barnamálaráðuneytinu

Áramót eru tími lista. Förum yfir 20 atriði sem hafa verið að gerast í mennta- og barnamálaráðuneytinu að undanförnu:

  1. Nýtt meðferðarheimili út á landi fyrir drengi opnar núna í janúar og annað nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu er á dagskrá og hefur nú þegar verið fjármagnað. Virkilega mikilvægt.
  2. Löngu tímabærar endurbætur og uppbygging á Stuðlum eru tryggð í næstu fjárlögum. Auknar öryggisráðstafanir hafa nýverið verið innleiddar á Stuðlum og dögum í neyðarvistun fjölgað. Ekki síður stór skref.
  3. Ráðherrann leggur fram mestu breytingar á barnaverndarlögum í 20 ár.
  4. Ráðherrann lagði fram fyrsta frumvarpið um símafrí í skólum og hefur kallað eftir hækkun aldursmarka barna að samfélagsmiðlum.
  5. Fyrsti menntamálaráðherra sem heimsækir alla opinberu framhaldsskólana í 15 ár, þar sem umfangsmestu stuðningsaðgerðir gagnvart skólunum í langan tíma voru kynntar.
  6. Ráðuneytið hóf vinnu við fyrstu aðgerðaráætlun Íslands gegn fátækt barna en 10% þeirra búa við fátækt í okkar ríka samfélagi.
  7. 500 milljónir settar í aðgerðir gegn ofbeldi gegn börnum.
  8. Í fyrsta sinn fær afreksíþróttafólk laun fyrir vinnu sína sem íþróttafólk.
  9. 500 milljónir settar í stuðning við börn af erlendum uppruna en til stóð að það dytti niður.
  10. Framlög til Bergsins voru hækkuð.
  11. Fyrsti langtímasamningur við Lýðskólann á Flateyri var gerður og fyrsta hækkun til skólans í 8 ár var tryggð.
  12. Um 3 milljarðar settir í sérhæfða þjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda.
  13. Ráðuneytið réðst nýverið í fyrsta ytra mat á framhaldsskóla í tvö ár!
  14. Frumvarp lagt fram um miðlægan gagnagrunn um nemendur sem gerir snemmtæk inngrip raunhæfari sem síðan dregur úr vanda síðar á skólagöngunni.
  15. Ráðuneytið hóf vinnu við fyrstu ungmennastefnu Íslands.
  16. Opnaður nýr vefur með verkfærum handa kennurum sem sinna börnum með erlendan bakgrunn.
  17. Gerð forgangsaðgerða í samþykktri menntastefnu. Næsta ár verður „ár læsis“ en lestur er lykillinn að samfélaginu. Kveikja þarf neista víða.
  18. Tryggt hefur verið eitt metnaðarfyllsta gervigreindarverkefni í heimi þar sem íslenskir kennarar fá einstakt aðgengi til að þróa þessa tækni í þágu kennslu.
  19. Nýju „samræmdu“ prófin hefjast eftir 2 mánuði í öllum grunnskólum landsins. Margir foreldrar hafa beðið lengi eftir þessu.
  20. Boðað er frumvarp um gjaldfrjáls námsgögn.

Vissulega er margt ógert í svona viðkvæmum málaflokkum en þó hefur margt verið gert, á ekki lengri tíma. Eitt er víst að málin verða vart mikilvægari.

___
Ágúst Ólafur Ágústsson
aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra.

Deila