350.000 kr. skatta og skerðingalaust!

Inga Sæland

Óhætt er að segja að stórir þjóðfélagshópar á Íslandi búi við mikla fátækt. Í þeim hópi er gamalt fólk sem þarf að velja á milli þess hvort það kaupir sér mat eða lífsnauðsynleg lyf, börn sem hafa ekki fjárhagslegan stuðning til þess að stunda íþróttir né önnur áhugamál, einstæðir foreldrar sem þurfa að velta því fyrir sér hvort þau hafi efni á því að greiða rafmagnsreikninginn og veikt fólk sem missir alla von í kviksyndi fátæktarinnar sem íslenska kerfið er.

Lægstu mánaðarlegu greiðslur til lífeyrisþega, sem engar aðrar tekjur hafa, eru aðeins 256.500 kr. eða 221.000 kr. eftir skatt. Þeim sem búa við svo kröpp kjör er haldið í vonlausri fátæktargildru. Á meðan framfærslukostnaður heldur áfram að stóraukast hafa greiðslur almannatryggingakerfisins ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Síðasta áratug hefur sú upphæð sem öryrkjar hafa til framfærslu skerst um 29% miðað við launaþróun. Á árinu 2018 voru tæplega 6.000 eldri borgarar með undir 293.000 kr. á mánuði í tekjur, fyrir skatt!

Hættum að skattleggja fátækt!

Í skýrslu um dreifingu skattbyrðar, sem unnin var fyrir Eflingu árið 2019. kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa á meðan skattbyrði lægstu tekjuhópa jókst. Áður fyrr voru skattleysismörk hærri en óskertur lífeyrir almannatrygginga. Nú eru skattleysismörk við 161.500 kr. í mánaðartekjur en grunnlífeyrir fyrir skatt er 256.500 kr. á mánuði. Skattleysismörk eru því töluvert lægri en grunnlífeyrir. Afleiðingarnar eru stóraukin skattbyrði þeirra lægst launuðu. Þessu verður að breyta til hins betra.

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu ár um hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa. Meðal annars hafa verið lagðar fram tillögur um aukna þrepaskiptingu, eignarskatta og lækkun skatthlutfalls. Flokkur fólksins telur að hagkvæmasta og sanngjarnasta leiðin sé að hækka skattleysismörkin í 350.000 kr. á mánuði og miða við fallandi persónuafslátt. Fallandi persónuafsláttur felur í sér að eftir að 350.000 kr. skattleysismörkum er náð lækkar persónuafsláttur í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur niður við ákveðin efri mörk. Þ.e.a.s. þá myndi persónuafsláttur ná núverandi fjárhæð við ákveðinn vendipunkt, sem dæmi 575.000 kr. á mánuði. Allir sem hafa tekjur undir 575.000 kr. á mánuði fá auknar ráðstöfunartekjur en persónuafsláttur þeirra sem hafa hærri mánaðartekjur verður lægri en hann er nú. Þannig má auka verulega ráðstöfunartekjur láglaunafólks en einnig koma í veg fyrir tekjumissi ríkissjóðs með því að lækka persónuafslátt hátekjufólks.

Með tveimur aðgerðum; að hækka skattleysismörk og hækka lágmarksviðmið almannatrygginga til að halda grundvallarmannréttindum, þ.e. fæði, klæði og húsnæði, væri hægt að útrýma þeirri fátækt sem er okkur til skammar, strax á næsta kjörtímabili!  

Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins

Deila