Kaldlynd stjórnmál dýrra eiða og dapra efnda

Ég sit hér við lyklaborðið umvafin anda jólanna. Falleg jólaljósin brosandi allt um kring. Ég velti því fyrir mér hvort ég geti mögulega sleppt því að skrifa um stjórnmál.  Ég veit þó fyrirfram að það gengur ekki upp. Skrifa af fingrum fram og fer með ykkur þangað sem hugurinn ber mig.

Ég horfi um öxl til anda liðinna jóla. Hugsa um alla þá sem ekki geta tekið þátt í jólunum eins og þau hafa þróast undanfarna áratugi. Öll litlu börnin sem geta ekki skilið af hverju þau fá ekki notið þess sama og aðrir sem eiga og geta. Foreldrana sem gráta það að geta ekki veitt börnunum sínum það sem almennt er viðurkennt svo sjálfsagt hjá öllum þeim sem eiga nóg fyrir sig og sína. Jú, líklega verð ég á stjórnmálalegum nótum. Ég bara get ekki annað þegar kemur að því að horfast í augu við staðreyndir fátæktarinnar. Þegar kemur að því að þurfa að viðurkenna af hverju hún er við líði hér í okkar gjöfula ríka landi.

Fátæktin er mannanna verk. Hún er í boði stjórnvalda hverju sinni. Þeirra sem hafa með fjárreiður ríkisins að gera og forgangsraða þeim fjármunum í allt annað en fólkið fyrst.

Að hugsa sér að á nýliðnum aðfangadagi jóla voru hátt í 300 einstaklingar sem borðuðu jólamatinn hjá Hjálpræðishernum, þar af voru um 40 börn. Þúsundir Íslendinga þáðu aðstoð af ýmsum toga vegna fátæktar. Hundruð stóðu tímunum saman í biðröð eftir matargjöfum hjálparstofnana.

Svona er Ísland í dag. Þannig hafa valdhafar undangenginna ára með vitund og vilja breikkað bilið enn á milli þeirra fátæku og ríku. Þannig vinnur núverandi ríkisstjórn einnig eins og allir vita sem búa víð fátækt í hennar umboði. Græðgisvæðing og auðsöfnun á fárra hendur þar sem þeir ríku eiga aldrei nóg af peningum, telja sig aldrei nógu ríka. Tilvera þeirra snýst um að græða og græða meira.

Ég stóð líka í röð

Ég þekki það af eigin raun. Eitt sinn var það ég sem stóð í röð Mæðrastyrksnefndar og þáði matargjafir fyrir fjölskylduna mína. Maðurinn minn hafði handleggsbrotnað og vegna síendurtekinna læknamistaka var hann handleggsbrotinn í sex ár. Já, þið lesið rétt. Hann var óvinnufær og handleggsbrotinn í sex ár. Einhvern veginn er þessi lífsreynsla í minningunni eitthvað það erfiðasta sem ég gekk í gegnum fyrir utan að missa bróður, mág og tengdason. Á þeim tímapunkti fann ég fyrir algjörum vanmætti.

Ég á fjögur yndisleg börn. Ef væri nóg að segja; „fyrirgefið elsku börnin mín, hvað við vorum fátæk af veraldlegum auð”, þá myndi ég biðja þau fyrirgefningar hvern einasta dag. En þannig virkar það víst ekki í raunveruleikanum.

Mér finnst þetta hafa verið allt öðruvísi þegar ég var að alast upp í litla fallega firðinum heima, Ólafsfirði. Kröfurnar voru minni og ein mandarína í skóinn var mikill gleðigjafi. Við vorum sex í 60 fermetra íbúð. Enginn glamúr eða veraldleg gæði, samt í minningunni ekkert nema ást, kærleikur og yndisleg jól.

Við erum á valdi kaldlyndis stjórnmálanna

Ég stóð með forystumönnum stjórnmálaflokkanna í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu kvöldið fyrir kjördag 29. október 2017. Hlustaði á „visku þeirra“ og loforðaflauminn sem gusaðist út úr þeim eins og beljandi foss.  Jú, það þótti sanngjarnt og réttlátt að hækka lágmarksframfærslu í 300 þúsund krónur á mánuði, minna mátti það nú ekki vera.

Ég fann hvernig tárin þrengdu sér fram, hvernig kökkurinn varð óyfirstíganlegur og skynjaði að ég var að brotna niður í beinni útsendingu. Ég vissi sem var, að þau voru öll að segja það sem kjósendur vildu heyra, þeim var nákvæmlega sama hvort þau gætu staðið við það eða ekki. Að sjálfsögðu var ég óreynd á þessum vettvangi og spurði mig jafnvel hvað ég hefði verið að hugsa þegar ég ákvað að stofna Flokk fólksins til að útrýma fátækt á Íslandi?

En tárin lentu í áramótaskaupinu með flottu lagi og frábærri frammistöðu Ólavíu Hrannar sem lék mig snilldarvel, hefði líklega ekki geta leikið mig betur sjálf. Fræðingar telja að ég hafi grátið okkur á þing á meðan aðrir gerðu að mér grín og vildu gera úr mér grenjuskjóðu með meiru.

Já, ég er farin að átta mig á því að sjórnmálamaður má hvorki sýna tilfinningar né hafa skopskyn. Það eru alltaf einhverjir illa innrættir tilbúnir að grípa það upp til þess eins að ata mann auri. Eitt er víst að ég hef öðlast mikla og skjóta reynslu af óheiðarleika, valdagræðgi og illgirni. Skrápurinn hefur þykknað svo um munar og litlar líkur á að kappræður í beinni eigi aftur eftir að græta mig. En enginn veit sína ævina eins og þar stendur.

Réttlæti skortir í okkar samfélagi

Talandi hreint út um stjórnmál um þessi áramót, þá skulum við byrja á hinni margrómuðu skattalækkun ríkisstjórnarinnar; þriðja skattþrepinu. Þessu viðbótar flækjustigi í skattkerfinu sem á ekki að sjást þar sem lægstu tekjurnar eiga að sjálfsögðu að vera skattfrjálsar með öllu.

Fjármálaráðherra „geislar hreinlega“ af góðmennsku þegar hann státar af þessari stórkostlegu kjarabót þeirra tekjulægstu. Kjarabótinni sem var af sömu góðmennsku flýtt um eitt ár þannig að hún kemur nú að fullu  til framkvæmda korteri í næstu kosningar. Það má jú til með að sýna í verki hvað ríkisstjórnin stendur sig vel og er frábær við fólkið;  „Það skiptir jú minna máli hvernig þessi kjarabót raunverulega nýtist þeim tekjulægstu, bara ef þið kjósið okkur aftur, annað skiptir ekki máli. “

Skattalækkunin kostar 23 milljarða á ári og gefur þeim lægstlaunuðu örfáa þúsundkalla þegar hún er að fullu komin til framkvæmda 2021. Mig svimar hreinlega af þessu rugli.

Mig svimar hreinlega af þessu rugli. Að sjálfsögðu munar um hverja krónu, en hvað ef persónuafslátturinn yrði þurrkaður burt af öllum þeim sem eru komnir í hátekjuskatt? Myndi það ríða þeim að fullu að færa þessar tæpu 60 þúsund krónur á mánuði sem þeir fá, til þeirra sem virkilega þurfa á þeim að halda?

Ég segi NEI. Okkur ber skylda til að gera allt til að bæta kjör þess þjóðfélagshóps sem skilinn hefur verið eftir allt frá hruni. Mér er hreinlega flökurt þegar ég hugsa um allt þetta ógeðslega óréttlæti sem ríkisstjónrnin fylgir eftir kinnroðalaust um leið og hún hælir sér af skattalækkun bankaskatts og gífurlegri lækkun á veiðigjöldum.

Lágmarksframfærslu hafnað þrisvar

Flokkur fólksins hefur þrisvar mælt fyrir þingsályktunartillögu um 300 þúsund króna. lágmarksframfærslu almannatrygginga skatta og skerðingalaust. Málið kom til atkvæðagreiðslu nú rétt fyrir jólin.  Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnarflokkarnir þrír kæra sig alls ekki um þessa kjarabót til fátækusta þjóðfélgshópsins, ekki frekar en Viðreisn og Miðflokkur. Þessir flokkar veittu tillögu okkar ekki brautargengi en felldu hana ískalt og kinnroðalaust. Hver voru rök þeirra fyrir því? Allt frá því að tala um brot á jafnræði til þess að þingsályktunin væri ókostnaðargreind.

Ég gantaðist við fjármálaráðherrra og sagði kostnaðinn vera 36 milljarða. Hamingjan góða, hann hljóp með það í ræðustólinn og þóttist þar himinn höndum hafa tekið þegar hann benti á hvað tillagan  væri galin og dýr. Það fannst Pírötum og Samfylgingu ekki og studdu tillöguna heilshugar.

Hið rétta er að kostnaðurinn tillögunnar er um 12 milljarðar á ári sem með forgangsröðun fjármuna er akkúrat ekkert mál að framkvæma og það strax. En nei, frekar skal lækka bankaskattinn um 7,3 milljarða og veiðigjöldin um milljarða á ári.   Sem verða nú um 8 milljörðum lægri en 2014. Fátækt fólk skal halda áfram að bíða eftir réttlætinu.

Hvað brot á jafnræði varðar, þá var þingsályktunin fyrst og fremst að kalla eftir því að jafnræðisreglan væri virt, og sú tæplega 30 prósenta  kjaragliðnun sem almannatryggingaþegar hafa mátt sæta frá hruni yrði leiðrétt ekki seinna en strax. Svona er þeirra réttlæti, vei okkur að horfast í augu við þeirra ranglæti.

Dýr eiður, daprar efndir

Og hér í lokin vil ég minna á að Alþingismenn sverja eið að stjórnarskráinni og heita þar með eiðsvarðir að greiða ávallt atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu og samvisku. Í því samhengi vil ég vitna í ummæli Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra þann 13. sept. 2017: „Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti“.

Það eru aðeins rétt rúm tvö ár síðan þessi orð voru mælt af blaði í beinni sjónvarpsútsendingu frammi fyrir alþjóð.

Nú um áramótin spyrjum við í Flokki fólksins: Hve margir þurfa á matargjöfum að halda í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á komandi ári? Hve margir munu enn bíða eftir réttlætinu? Við ætlum hvergi að láta deigan síga og köllum eftir hjálp almennings í baráttunni geng ranglæti á nýju ári.

Kæru vinir takk fyrir allan stuðninginn og hvatninguna á árinu sem er að líða. Guð gefi ykkur gæfuríkt komandi ár

Inga Sæland alþingismaður og formaður Flokks fólksins

Deila