Frumvarp um endurskoðun almannatryggingalaga er varðar öryrkja var til umræðu á Alþingi nýlega. Í hinu nýja endurskoðaða almannatryggingakerfi fær einn hópur einstaklinga hækkun upp á heilar 803 krónur á mánuði. Já, vá, heilar og óskertar 803 kr. á mánuði, eða 26 kr. dag hvern í mánuðinum.
Er þetta ekki þvílík ofrausn og frábært? Hreinlega geggjuð hækkun og viðkomandi hljóta að vera í skýjunum og bara alveg að hoppa um af kæti? Hlaupa strax út í búð og kaupa sér bara lúxusfæði og vita ekki hvað þau eiga að gera við afganginn.
Hvað fá þeir sem koma 18 ára inn í örorkukerfið við þessa endurskoðun á því? Hvað fá þeir til að reyna að tóra á? Jú, aðeins betra, eða heilar 4.020 kr. í hækkun á mánuði, eða 134 kr. á dag í hækkun. Já, vá, þvílík hækkun sem þeim er boðið upp á í boði ríkisstjórnarinnar. Ef viðkomandi ná 67 ára aldri lækka þau í boði ríkisstjórnarinnar um og yfir 30.000 kr. á mánuði.
Þá spurði ég félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort þau sem eru að reyna að tóra í almannatryggingakerfinu fengju strax 23.000 kr. hækkun frá 1. febrúar eins og aðrir launamenn fengu við nýgerðan samning. Nei, auðvitað svaraði hann því ekki og hvers vegna ekki?
Vegna þess að það á ekki að hækka þá sem eru á lífeyrislaunum frá TR fyrr en um næstu áramót eins og lög gera ráð fyrir. Þá mun hefjast gamalkunn útþynning og prósentufölsun þannig að þau verst settu mega þakka fyrir að fá helminginn af því sem þau ættu með réttu að fá.
Öryrki 45 ára sem býr einn og hefur engan lífeyrissjóð fær 363.808 krónur frá TR í dag. Af þeirri upphæð þarf viðkomandi að borga 320.000 kr. í leigu. Leigan hækkaði nýlega úr 260.000 kr. í 320.000 kr. og hann á eitthvað um 40.000 kr. eftir plús leigubætur.
Þegar búið er að borga rafmagn og hita og annað þarf viðkomandi að reyna að tóra á 2.000 kr. á dag og er það ekki frábært? Hver vill ekki hafa heilar 2.000 kr. á dag fyrir öllum nauðsynjum?
En ríkisstjórnin er búin að leysa þennan vanda viðkomandi öryrkja og það í nýju örorkukerfi og þá með hækkun upp á heilar 803 krónur, eða 26 krónur á dag.
„Gera þarf lífeyriskerfið gagnsærra og halda áfram að minnka vægi skerðinga innan þess. Kerfið á að styðja við virkni og atvinnuþátttöku fólks og má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru.“ Svo hljóðar ályktun um málefni fatlaðs fólks og öryrkja frá Vinstri grænum frá 28. ágúst 2021.
Það má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru segir þar, en þarna fer ekki saman hljóð og mynd því þessi ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna er að fjölga fátæktargildrum, en ekki fækka þeim.
Þingflokkur Flokks fólksins er með þingsályktun um 400.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust sem gott fyrsta skref.