Ný umferðarlög hafa litið dagsins ljós. Samkvæmt þeim mega hreyfihamlaðir, með svokölluð P-kort, aka og leggja á göngugötum. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur nýlega tjáð sig um þetta ákvæði í fjölmiðlum og lýst undrun yfir að ekki var leitað eftir sjónarmiðum borgarinnar um frumvarpið. Afstaða Pawels og skýr andstaða hans við ákvæðið vekja upp áhyggjur hvort borgarmeirihlutinn ætli e.t.v. að hunsa það og þar með brjóta lög. Pawel gengur svo langt að segja að löggjafinn hafi verið á villigötum þegar ný umferðarlög voru samþykkt.
Það er nokkuð alvarlegt þegar Pawel Bartoszek, kjörinn fulltrúi, segir að löggjafinn „sé á villigötum“. Pawel hefur áhyggjur af ásýnd göngugatna en tjáir sig hins vegar ekkert um þarfir fatlaðs fólks í umferðinni og mikilvægi þess að auðvelda aðgengi þess að göngugötum. Ég spyr, finnst Pawel ásýndin mikilvægari en aðgengi hreyfihamlaðra í umferðinni?
Ekki er annað hægt en að vera fegin að meirihlutinn í borgarstjórn komst ekki með klærnar í frumvarpið á meðan það var í meðförum þingsins. Af orðum Pawels í fréttum má ráða að meirihlutinn í borgarstjórn hafi lagt allt kapp á að koma þessu ákvæði út til að heildarásýnd göngugatna geti nú verið falleg. Pawel Bartoszek virðist undrandi á að þetta skyldi samþykkt og segir að „í frumvarpinu sjálfu var aðeins talað um að ferðaþjónusta fatlaðs fólks fengi mögulega þessa heimild“.
Nú velta margir fyrir sér hvernig skipulagsyfirvöld í borginni ætla að snúa sig út úr þessu í ljósi andstöðu þeirra gegn akstri einkabílsins í miðbænum hvernig svo sem hann er knúinn eða hvort sem bílstjórinn er fatlaður eða ófatlaður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur því lagt fram fyrirspurn í borgarráði um hvort hafinn sé undirbúningur að því að heimila P-merktum bílum að aka um og leggja í göngugötur. Lögin taka gildi um næstu áramót.
- +354 831-6200
- flokkurfolksins@flokkurfolksins.is