Það hefur ekki farið fram hjá neinum að enn á ný hefur veiran lekið inn í samfélag okkar gegnum landamærin. Enn er ekki vitað hve margir hafa sýkst í nýjustu „hópsýkingunni“. Vonandi náum við utan um smitin sem þegar eru greind án þess að fjórða bylgja faraldursins brjótist út.
Ég mæli fyrir munn mjög margra þegar ég alhæfi og segi: Við erum búin að fá nóg. Hann er með hreinum ólíkindum þessi eilífi hringlandaháttur við að taka afgerandi og fyrirbyggjandi ákvarðanir hvað varðar landamærin sem allir vita að eru veikasti hlekkurinn í okkar sóttvörnum. Stigin hafa verið hænuskref í rétta átt en alls ekki nógu stór.
Spyrja má í hvaða þágu landamærunum er haldið lekum í stað tryggum? Reynslan hefur kennt okkur hversu smitandi þessi veira er. Ég hef frá upphafi viljað beita öllum varnaðaraðgerðum gegn veirunni á landamærunum, í því skyni að freista þess að halda samfélaginu okkar opnu innan þeirra. Forsenda þess er að „loka“ landamærunum. Þessa aðferð notuðu Nýsjálendingar. Reynslan þar er búin að sýna að þar tóku stjórnvöld hárréttar ákvarðanir. Engan sérfræðing þarf til að sjá raunverulegan ábata fyrir allt samfélagið af því að við fáum að lifa frjáls innanlands.
Á meðan efnahagsbati er hafinn á Nýja-Sjálandi þar sem hagvöxtur í landinu mældist 14% á tímabilinu frá júlí fram í september 2020 (tökum eftir; í miðjum heimsfaraldri), þá hrynur allt í kringum okkur. Atvinnuleysi hér er þannig að um 27.000 manns eru án vinnu. Hér er áætlað að bæta verði við tugum milljarða inn í atvinnuleysistryggingarsjóð á árinu, til viðbótar við þá ríflega 70 milljarða sem þegar eru greiddir til atvinnulausra.
Verðbólgan mælist nú 4,3% með tilheyrandi skuldavexti heimilanna. Skuldir þeirra hafa vaxið um tugi milljarða króna á stuttum tíma. Fjármálaráðherra og seðlabankastjóri vildu telja okkur trú um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af verðtryggðum lánum heimilanna, engin teikn væru á lofti um að verðbólgan færi af stað. En staðreyndirnar tala sínu máli.
Heigulsháttur stjórnvalda og fálmkenndar opnanir/lokanir hafa kostað okkur óafsakanlegan, óafturkræfan skaða sem aldrei hefði þurft að verða af þeirri stærðargráðu sem raun ber vitni. Stjórnvöld sem sveiflast eins og pendúll, og vita ekki hvort þau eru að koma eða fara, eru vanhæf stjórnvöld. Við viljum ekki sjá fjórðu bylgju þessa andstyggðarfaraldurs. Það er ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að vernda okkur gegn henni og það strax. Við viljum njóta þeirra forréttinda sem fylgja því að búa örugg á fallegu eyjunni okkar.
Inga Sæland