Gefum frelsi til handfæraveiða

Inga Sæland

Strand­veiðivertíð árs­ins hefst nk. mánu­dag, 3. maí. Bú­ast má við að ríf­lega 700 bát­ar rói í sum­ar. Hver bát­ur má vera með fjór­ar hand­færar­úll­ur og stunda veiðar frá mánu­degi til og með fimmtu­degi í viku hverri, annaðhvort þar til veiðitíma­bil­inu lýk­ur í lok ág­úst eða fyrr ef svo fer að heild­arafla­heim­ilda­pott­ur strand­veiðiflot­ans veiðist upp. Í ár er lagt upp með að hann verði 10 þúsund tonn af þorski, þúsund tonn af ufsa og 100 tonn af gull­karfa; alls 11.100 tonn af óslægðum botn­fiski.

Öllum sem fylgj­ast með sjáv­ar­út­vegi og mann­lífi í sjáv­ar­byggðum lands­ins er löngu orðið ljóst að strand­veiðarn­ar eru mik­il lyfti­stöng. Þær skapa mik­il­væg­ar tekj­ur sem hríslast um hag­kerfi lands­byggðar­inn­ar. Mik­il um­svif eru kring­um þess­ar veiðar, ekki bara að því er varðar veiðar og vinnslu, held­ur einnig kring­um ýmsa þjón­ustu við bát­ana og þá sem róa. Trillu­flot­inn skil­ar fersku hrá­efni á land sem aflað er með kyrr­stæðu veiðarfæri á einn vist­væn­asta hátt sem hugs­ast get­ur. Það er al­veg sama hvernig á er litið, strand­veiðarn­ar eru afar já­kvæðar fyr­ir þjóðarbúið og mann­lífið í þessu landi.

Flokk­ur fólks­ins vill stór­efla strand­veiðar. Strax í sum­ar ætti að tryggja að flot­inn fái að veiða óáreitt­ur 12 daga í mánuði þessa fjóra mánuði sem ætlaðir eru til strand­veiða, óháð því hvort aflaþaki sé náð áður en dag­arn­ir hafi verið notaðir. Það skipt­ir ná­kvæm­lega engu máli fyr­ir vel­ferð þorsk­stofns­ins þó farið sé eitt­hvað yfir 10 þúsund tonna markið í þorski í strand­veiðum.

Flokk­ur fólks­ins mun berj­ast fyr­ir því að sjó­mönn­um sem það kjósa verði leyft að stunda hand­færa­veiðar að eig­in vild hér við land í at­vinnu­skyni. Þó samt með viss­um regl­um, svo sem að fjór­ar rúll­ur verði á hverj­um báti að há­marki og að sá sem rói bátn­um sé jafn­framt þing­lýst­ur eig­andi hans að fullu.

Hand­færa­veiðar munu aldrei setja þorsk­stofn­inn í neina hættu. Nátt­úr­an sjálf, það er veður, fisk­gengd og fleiri þætt­ir, dug­ar til að tak­marka þess­ar veiðar. Þó að þetta frelsi yrði inn­leitt þá fer því fjarri að menn myndu hóp­ast á hand­færa­veiðar í þúsunda­tali. Það kost­ar mikla fyr­ir­höfn og fjár­magn að eign­ast full­bú­inn bát og reka hann. Þeir sem stunda veiðarn­ar verða að hafa til­skil­in rétt­indi. Ávinn­ing­ur af þessu frelsi er hins veg­ar aug­ljós fyr­ir þjóðarbú sem glím­ir við mikið at­vinnu­leysi og þarf á næstu árum á öll­um sín­um mögu­leik­um að halda til að greiða ógrynni skulda sem hlaðist hafa upp í far­aldr­in­um. Bolt­inn er hjá stjórn­völd­um sem endra­nær. Sjó­sókn­ar­vilj­ann skort­ir sann­ar­lega ekki hjá trillukörl­un­um okk­ar. Nýt­um mannauðinn og tæki­fær­in okk­ur öll­um til hag­sæld­ar.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins

Deila