Strandveiðivertíð ársins hefst nk. mánudag, 3. maí. Búast má við að ríflega 700 bátar rói í sumar. Hver bátur má vera með fjórar handfærarúllur og stunda veiðar frá mánudegi til og með fimmtudegi í viku hverri, annaðhvort þar til veiðitímabilinu lýkur í lok ágúst eða fyrr ef svo fer að heildaraflaheimildapottur strandveiðiflotans veiðist upp. Í ár er lagt upp með að hann verði 10 þúsund tonn af þorski, þúsund tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa; alls 11.100 tonn af óslægðum botnfiski.
Öllum sem fylgjast með sjávarútvegi og mannlífi í sjávarbyggðum landsins er löngu orðið ljóst að strandveiðarnar eru mikil lyftistöng. Þær skapa mikilvægar tekjur sem hríslast um hagkerfi landsbyggðarinnar. Mikil umsvif eru kringum þessar veiðar, ekki bara að því er varðar veiðar og vinnslu, heldur einnig kringum ýmsa þjónustu við bátana og þá sem róa. Trilluflotinn skilar fersku hráefni á land sem aflað er með kyrrstæðu veiðarfæri á einn vistvænasta hátt sem hugsast getur. Það er alveg sama hvernig á er litið, strandveiðarnar eru afar jákvæðar fyrir þjóðarbúið og mannlífið í þessu landi.
Flokkur fólksins vill stórefla strandveiðar. Strax í sumar ætti að tryggja að flotinn fái að veiða óáreittur 12 daga í mánuði þessa fjóra mánuði sem ætlaðir eru til strandveiða, óháð því hvort aflaþaki sé náð áður en dagarnir hafi verið notaðir. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir velferð þorskstofnsins þó farið sé eitthvað yfir 10 þúsund tonna markið í þorski í strandveiðum.
Flokkur fólksins mun berjast fyrir því að sjómönnum sem það kjósa verði leyft að stunda handfæraveiðar að eigin vild hér við land í atvinnuskyni. Þó samt með vissum reglum, svo sem að fjórar rúllur verði á hverjum báti að hámarki og að sá sem rói bátnum sé jafnframt þinglýstur eigandi hans að fullu.
Handfæraveiðar munu aldrei setja þorskstofninn í neina hættu. Náttúran sjálf, það er veður, fiskgengd og fleiri þættir, dugar til að takmarka þessar veiðar. Þó að þetta frelsi yrði innleitt þá fer því fjarri að menn myndu hópast á handfæraveiðar í þúsundatali. Það kostar mikla fyrirhöfn og fjármagn að eignast fullbúinn bát og reka hann. Þeir sem stunda veiðarnar verða að hafa tilskilin réttindi. Ávinningur af þessu frelsi er hins vegar augljós fyrir þjóðarbú sem glímir við mikið atvinnuleysi og þarf á næstu árum á öllum sínum möguleikum að halda til að greiða ógrynni skulda sem hlaðist hafa upp í faraldrinum. Boltinn er hjá stjórnvöldum sem endranær. Sjósóknarviljann skortir sannarlega ekki hjá trillukörlunum okkar. Nýtum mannauðinn og tækifærin okkur öllum til hagsældar.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins