Í gær, á sjálfan sjómannadaginn, áttum við í Flokki fólksins yndislegan dag í glæsilegum höfuðstöðvum okkar á neðri hæðum Grafarvogskirkju. Hinn eini sanni Tómas Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni og nú sem verðandi þingmaður Flokks fólksins, grillaði gómsæta hamborgara handa gestum okkar.
Það er ekki hægt að lýsa því hvað það er gaman að hitta og sjá gamla vini og félaga ásamt öllum þeim nýju og frábæru sem stöðugt bætast í hópinn. Hamborgararnir kláruðust að sjálfsögðu og þurfti í skyndingu að senda eftir fleirum.
Ég segi frá þessu hér því ég finn að nú er loks að birta til í Covid-faraldrinum. Við erum farin að geta hist á mannamótum á ný. Ég vona heitt og innilega að nú fari þessu ömurlega ástandi með ferða- og samkomutakmörkunum að linna. Að við getum farið um frjálst höfuð að strjúka.
Ég nefndi hér sjómannadaginn. Ég er dóttir sjómanns, fædd og uppalin í sjávarplássinu Ólafsfirði norður við ysta haf. Þessi dagur vekur alltaf hjá mér hlýjar og góðar minningar. Ég man eftir iðandi mannlífi í fallega bænum okkar. Höfnin full af bátum og blómstrandi sjávarútvegi. Pabbi gerði út trillu með félögum sínum eða var í skiprúmi á stærri bátum. Í litlu verkamannaíbúðinni okkar var eitt herbergið notað til að geyma veiðarfæri og dytta að þeim, fella net, stokka línu og þess háttar.
Nú er faðir minn orðinn ríflega níræður, löngu sestur í helgan stein og býr heima hjá mér í Reykjavík. Mesta sína starfsævi stritaði hann á sjónum eins og þúsundir annarra Íslendinga. Þegar um fór að hægjast vann hann á netaverkstæði þar til hann hætti störfum vegna aldurs. Pabbi upplifði svo sannarlega hættur hafsins þótt hann hafi sjaldnast talað um það. Nú ræður hann krossgátur eða fer með kvæði uppáhaldsskáldsins síns Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi sem hann kann mörg utan að, heilu ljóðabálkana, enn í dag.
Þessi fallegi gamli maður tók þátt í því að byggja upp samfélag okkar. Hann og starfsbræður hans gerðu það með blóði, svita og tárum. Þeir horfðu á eftir félögum sínum og ástvinum í hafið en báru harm sinn í hljóði og héldu áfram að sækja sjóinn. Þannig tók hafið elsku Helga bróður minn. Pabbi fékk aldrei neinn kvóta. Afkomendum hans, sem í dag eru margir, er meinað að nýta sjávarauðlindina þótt þeir fegnir vildu nema þá með því að greiða fúlgur fjár í vasa þeirra sem þykjast eiga óveiddann fiskinn í sjónum.
Ég fyrirlít þetta óréttlæti í hvert sinn sem ég hugsa til þess. Lái mér hver sem vill.