Ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa byggt upp bútasaumað skrímsli sem er almanntryggingakerfi sem aldrað fólk og öryrkjar verða að reyna að lifa við. Fáránlega uppbyggt kerfi sem fjórflokkurinn hefur byggt upp og haft viljandi svo flókið að enginn skilur það lengur.
Kerfi þar sem sett er inn króna en teknar til baka tvær krónur í mörgum tilfellum. Þetta hefur þeim tekist með því að búa til ekki bara skerðingar í kerfinu heldur keðjuverkandi skerðingar. Þær eru ekki bara innan almannatryggingakerfisins heldur ná út fyrir það, inn í félagsleg kerfi sveitarfélaganna. Hver einasta hækkun í kerfinu veldur keðjuverkandi skerðingum úti um allt. Öryrkjar og eldra fólk sem verst hafa það tapar jafnvel á því að fá hækkun á lífeyrislaunin.
Húsaleigubætur, barnabætur og annað er skert. Afleiðingarnar? Þeir sem langmest þurfa á hækkun að halda verða fyrir mestu skerðingunum og þurfa að herða sultarólina en frekar og allt of stór hópur fólks á ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum.
Annað í þessu hefur gleymst. Ákveðin samstaða virðist um að auka stórlega skattheimtu á þá einstaklinga sem eru í almannatryggingakerfinu og líka þá sem eru á lægstu launum.
Nýjasta útspilið var að núverandi ríkisstjórnarflokkar ætluðu að lækka skattprósentuna tvisvar og lækkuðu einnig persónuafsláttinn. Mun nær og skilvirkara hefði verið að skerða persónuafsláttinn þannig að hann yrði horfinn við t.d. 900.000 krónur. Þeir sem eru með eina milljón króna í tekjur eða meira hafa ekkert með persónuafslátt að gera. Þá þarf að hækka hann samkvæmt launaþróun eða vísitölu neysluverðs frá 2008 til dagsins í dag. Það myndi gilda fyrir þá sem eru á lægstu launum og bótum almannatrygginga.
Við í Flokki fólksins höfum allt þetta kjörtímabil hamrað linnulaust á því að allt almannatryggingakerfið er meingallað. Því meir sem við erum að reyna að hækka bætur og reyna að bæta kerfið, því illvígara skrímsli verður það.
Við köllum eftir því og ættum frekar að einbeita okkur að því að endurskoða kerfið í heild sinni. Einfalda það eins og hægt er, en það verður ekki gert með þá við völd sem hafa komið þessum ófögnuði á.
Ég ítreka svo að við styðjum að allar þær kauphækkanir sem eru í lífskjarasamningunum fari til almannatryggingaþega líka. Með þeim skilyrðum þó að ef við ætlum að hækka almannatryggingar samkvæmt þessum lífskjarasamningum skili það sér nákvæmlega til þeirra sem eiga að njóta þeirra. Við megum ekki nota þessar brellur sem hafa verið búnar til til þess að skerða annars staðar í kerfinu eða skerða það keðjuverkandi út fyrir kerfið. Slíkt er ömurlegt háttarlag og okkur öllum til háborinnar skammar. Þessu verður að linna.
Flokkur fólksins segir fólkið fyrst og svo allt hitt.
Guðmunur Ingi Kristinsson