Flokkur fólksins hefur á þessu kjörtímabili barist fyrir því að Reykjavíkurborg setji hagsmuni aldraðra í forgang og hafi frumkvæði að gagngerum umbótum á lífsskilyrðum þeirra og aðstæðum í Reykjavík. Eitt af kosningaloforðum Flokks fólksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var að stofnað yrði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Meginhlutverk hans yrði að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann myndi kortleggja stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgjast með framkvæmd heimaþjónustu. Tillagan var lögð fram í tvígang en hafnað.
Flokkur fólksins elur enn þá von í brjósti að í Reykjavík verði komið á embætti hagsmunafulltrúa aldraðra sem geti lagt sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart öldruðum og fylgist með því hvort einkaaðilar uppfylli kröfur laga um aðgengi og bann við mismunun varðandi réttindi eldri borgara. Auk þess myndi hagsmunafulltrúi geta haft frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara, t.d. til að koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.
Eldumst heima
Flestir vilja búa sem lengst heima hjá sér og ganga hugmyndir nútímans út á að veita þeim sem vilja það og geta þann möguleika. Ýmist vill fólk halda áfram að búa á sínu gamla heimili eða flytjast í sjálfstæða búsetu sem er hannað með þjónustuþarfir þessa aldurshóps að leiðarljósi sem geta verið ólíkar.
Nauðsynlegt er að fjölga þjónustuþáttum til þeirra sem búa á sínu eigin heimili og dýpka aðra þjónustuþætti sem fyrir eru til að hægt sé að auka líkur á heimaveru sem lengst. Einnig er mikilvægt að bjóða þeim sem búa heima á sínum efri árum upp á sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika og samhliða virkja fjölþættar heilsueflandi aðgerðir. Aðstæður fólks eru mismunandi eins og gengur. Sumir hafa misst maka sinn og ekki eru allir sem eiga fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga eða stytt stundir.
Flokkur fólksins leggur til að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks, svipað og í byggðinni við Borgarspítalann sem er afar vinsæl og vel heppnuð. Svæðin verði skilgreind sem „plús 60 ára“ og jafnvel „plús 75 ára“ og eingöngu hugsuð út frá þeirra þörfum og með miðlægum þjónustukjarna. Einblínt verði á t.d. útisvæði með fjölbreyttri afþreyingu. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu þaulhugsaðar með upphituðum skýlum og gæta þyrfti öryggis í hvívetna.
Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu í búsetumálum. Fleiri tegundir úrræða þurfa að vera fyrir hendi í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.
Fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða forgangsmál
Mikill skortur er á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sem þarf fulla þjónustu og mikla umönnun. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Flokkur fólksins vill róttækar aðgerðir í þessum málum strax. Efri árin eiga að vera gæðaár, ár sem ekki eiga að einkennast eða litast af kvíða og óvissu. Þeir eru ófáir sem hafa þurft að dvelja á Landspítala vikum eða mánuðum saman löngu eftir að meðferð er lokið vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Einnig er löng bið eftir hvíldarinnlögn.
Berjumst gegn aldursfordómum
Flokkur fólksins telur löngu tímabært að skera upp herör gegn aldursfordómum og aldurssmánun hjá Reykjavíkurborg, ekki síst þegar fullfrísku eldra fólki er beinlínis hent út af vinnumarkaði við 67-70 ára aldur hjá borginni þó að það hafi bæði góða starfsgetu og löngun til að vinna lengur. Hér er verið að sóa samfélagslegum verðmætum. Reykjavíkurborg á að hafa frumkvæði að gagngerri viðhorfsbreytingu þar sem eldra fólk er metið að verðleikum. Með hækkandi aldri eykst viska og yfirvegun.
Samráð og samvinna
Flokkur fólksins hefur barist fyrir því að haft sé fullt samráð og samvinna við fólkið í borginni þegar verið er að taka ákvarðanir um það sjálft og umhverfi þess. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum þeirra. Hlusta þarf á þjónustuþegana og aðstandendur þeirra. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að skipuleggja þjónustu fyrir borgarana. Án borgarbúa er engin borg.