Sjáðu fyrsta frumvarp Tómasar Tómassonar.

Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, einnig kallaður Tommi á Búllunni, hefur lagt fram sitt fyrsta frumvarp sem þingmaður. Tommi var kjörinn á þing í kosningunum í september síðastliðnum og gaf strax til kynna að áherslumál hans yrðu á unga fólkið, eldri borgara og öryrkja.

Frumvarp hans snýr einmitt að unga fólkinu og snýr að breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna. Vill þingmaðurinn, auk annarra þingmanna Flokks fólksins sem eru flutningsmenn frumvarpsins, að framfærslulán skerðist ekki vegna tekna námsmanna.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk úthlutunarreglna skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta geti verið íþyngjandi sérstaklega í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði.

„Einhleypur nemandi sem býr á stúdentagörðum getur fengið framfærslulán að fjárhæð 196.040 kr. á mánuði en þarf að greiða 99.999 kr. í leigu. Miðað við neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins má áætla að dæmigerð útgjöld námsmanns séu 244.492 kr. á mánuði. Því munar 48.452. kr. á framfærslu námsmanns og útgjöldum. Þá er frítekjumarkið aðeins 1.410.000 kr. á ári. Ef námsmaður er í fullri vinnu í þrjá mánuði á hverju sumri með 351.000 kr. í mánaðarlaun þá er svigrúmið til frekari tekjuöflunar yfir námsveturinn lítið sem ekkert, tæpar 40.000 kr. á mánuði uns tekjur byrja að hafa áhrif á framfærslu frá Menntasjóði,“ segir í greinargerðinni.

Hægt er að kynna sér frumvarpið nánar hér.

Deila