Að bregðast trausti þjóðarinnar

Flokkur fólksins er eini flokkurinn á Alþingi sem var á móti sölunni á Íslandsbanka. Óljóst er hver rök annarra stjórnmálaflokka eru fyrir sölunni í núverandi umhverfi á bankamarkaði, þar sem samkeppnisleysið er algjört.

Ofurhagnaður bankanna sýnir að um sjálftöku á hagnaði er að ræða. Samanlagður hagnaður þriggja stóru bankanna á sl. ári var 82 milljaðar króna, aukning um 52 milljarða á milli ára. Þetta er á tímum heimsfaraldurs. Ríkið hefur sem eigandi Landsbanka og Íslandsbanka enga eigendastefnu um að koma á samkeppni á bankamarkaði. Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í bankamálum er algjört.

Sala Íslandsbanka er sama marki brennd. Þar fer saman algjört stefnuleysi, vanhæfni og fúsk, að ekki sé talað um spillingu, þar sem stóra spurningin er hverjir fengu að kaupa. Birtingin á nöfnum kaupenda opinberar fyrir almenningi hverslags hneyksli útboðið var. Kröfurnar til kaupenda voru engar og gæði þeirra eftir því. Hugtakið „fagfjárfestar“ var notað til að blekkja þjóðina í útboðinu, þar sem gífurlegir fjármunir voru sviknir út úr þjóðinni.

Ríkið ætlaði að hámarka sölutekjur en seldi með afslætti í umframeftirspurn. Lífeyrissjóðir fengu ekki að kaupa líkt og þeir óskuðu eftir, heldur var selt til hrunverja, kvótakónga, skuldugra aðila, sem náðu í stubb. Margir seldu aftur strax og leystu út hagnað. Reynt var að halda nöfnum þeirra leyndum, en það er einmitt þannig sem spilling þrífst.

Stjórnendur Íslandsbanka sögðu það brjóta persónuverndarlög að birta nöfn minnstu fjárfestanna. Persónuverndarlög heimila vinnslu persónupplýsinga vegna almannahagsmuna og lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum kveða á um gagnsæi. Með þessum fyrirslætti var reynt að telja þjóðinni trú um að hún gæti ekki fengið réttmætar upplýsingar. Sé eitthvað að marka fyrirsláttinn ætti birting á nöfnum kaupenda kalla á kæru til Persónuverndar.

Stjórnendur bankans ættu að taka pokann sinn fyrir þátttöku sína þessari yfirhylmingu. Traustið er ekkert.

Meginreglur laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum voru hunsaðar. Meginreglurnar kveða um á um að áhersla skuli lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.

Lögum samkvæmt skal Bankasýslan annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra. Ábyrgðin er þeirra. Bankasýsla ríkisins undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Svo var ekki. Söluráðgjafar fengu 700 milljónir kr. fyrir að hringja í kaupendur og seldu sjálfum sér í leiðinni. Upplýsa á almenning um hvað liggur á bakvið þessar greiðslur, og hvaða kröfur voru gerðar til þeirra.

Alþingi ber að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka söluna á Íslandsbanka ef skapa á traust í samfélaginu.

Deila