Hafi heimilin varið 100.000 krónum á mánuði í mat, bensín og aðrar nauðsynjar veldur 10% verðbólga því að sú upphæð fer upp í 110.000 krónur, en 550.000 hafi þau varið 500.000 krónum í þessa liði.
Flest heimili eru sennilega einhvers staðar þarna á milli, þannig að verðbólgan hefur valdið þeim 10-50.000 krónum í aukin útgjöld á mánuði.
En til að „sinna skyldum sínum við heimili landsins“ hefur Seðlabankinn farið í aðgerðir til að „bjarga heimilunum“ frá þessum kostnaðarauka með því að auka hann margfalt.
Seðlabankastjóri þarf að útskýra hvernig það gagnast heimilunum að takast á við 130-200.000 króna vaxtahækkanir, frekar en 10-50.000 króna hækkanir á vöru og þjónustu.
Fyrir mér lítur þetta út eins og að bjarga einhverjum frá drukknun með því að hella yfir hann meira vatni.
Með þessum aðgerðum er Seðlabankinn, ekki verðbólgan, að koma þúsundum heimila á vonarvöl. Það á greinilega að sigrast á verðbólgunni sama hvað það kostar.
Verðbólga er slæm, en það blasir við að hún er að stórum hluta innflutt og af því leiðir að auknar álögur á íslensk heimili munu ekki hafa nein áhrif á vísitölu neysluverðs.
Það blasir einnig við að innan fárra ára munu fjölskyldur sem nú neyðast til að skipta yfir í verðtryggð lán lenda í verulegum vandræðum.
Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær sagði seðlabankastjóri að honum væri vel kunnugt um hvernig verðtryggð lán hegða sér, en taldi samt ekkert athugavert við það að fólk væri að skuldbreyta yfir í þau, vegna aðgerða hans.
Berum saman óverðtryggt 40 milljóna króna lán á 7,5% vöxtum við verðtryggt lán til 25 ára. Þá blasir eftirfarandi við: Heildargreiðsla óverðtryggða lánsins er 126 milljónir á 40 árum, meðalgreiðsla þess á ári 3,2 milljónir og meðalgreiðslan á mánuði 263.000.
Á meðan heildargreiðsla verðtryggða lánsins er 211 milljónir á 25 árum, meðalgreiðsla þess á ári er 8,4 milljónir og meðalgreiðslan á mánuði 703.000 krónur.
Hvernig fer hjá þessu fólki eftir t.d. 10 ár þegar lánið er komið upp í 68 milljónir og hver afborgun í 470.000 krónur? Afborganir munu svo hækka í veldisvexti upp í 1.853.000 krónur fyrir lok lánstímans.
Með stórfelldum vaxtahækkunum sínum er Seðlabankinn að færa bönkunum heimilin á silfurfati og fórnar hagsmunum þeirra þannig að mörg þeirra munu aldrei bíða þess bætur.
Jafnvel þótt óvinurinn sé verðbólga er ekki sama hvernig við tökumst á við hana og það skiptir máli að skjóta ekki niður þá sem þú segist vera að verja.