Að skjóta niður skjólstæðinga sína

Hafi heim­il­in varið 100.000 krón­um á mánuði í mat, bens­ín og aðrar nauðsynj­ar veld­ur 10% verðbólga því að sú upp­hæð fer upp í 110.000 krón­ur, en 550.000 hafi þau varið 500.000 krón­um í þessa liði.

Flest heim­ili eru senni­lega ein­hvers staðar þarna á milli, þannig að verðbólg­an hef­ur valdið þeim 10-50.000 krón­um í auk­in út­gjöld á mánuði.

En til að „sinna skyld­um sín­um við heim­ili lands­ins“ hef­ur Seðlabank­inn farið í aðgerðir til að „bjarga heim­il­un­um“ frá þess­um kostnaðar­auka með því að auka hann marg­falt.

Seðlabanka­stjóri þarf að út­skýra hvernig það gagn­ast heim­il­un­um að tak­ast á við 130-200.000 króna vaxta­hækk­an­ir, frek­ar en 10-50.000 króna hækk­an­ir á vöru og þjón­ustu.

Fyr­ir mér lít­ur þetta út eins og að bjarga ein­hverj­um frá drukkn­un með því að hella yfir hann meira vatni.

Með þess­um aðgerðum er Seðlabank­inn, ekki verðbólg­an, að koma þúsund­um heim­ila á von­ar­völ. Það á greini­lega að sigr­ast á verðbólg­unni sama hvað það kost­ar.

Verðbólga er slæm, en það blas­ir við að hún er að stór­um hluta inn­flutt og af því leiðir að aukn­ar álög­ur á ís­lensk heim­ili munu ekki hafa nein áhrif á vísi­tölu neyslu­verðs.

Það blas­ir einnig við að inn­an fárra ára munu fjöl­skyld­ur sem nú neyðast til að skipta yfir í verðtryggð lán lenda í veru­leg­um vand­ræðum.

Á fundi efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar í gær sagði seðlabanka­stjóri að hon­um væri vel kunn­ugt um hvernig verðtryggð lán hegða sér, en taldi samt ekk­ert at­huga­vert við það að fólk væri að skuld­breyta yfir í þau, vegna aðgerða hans.

Ber­um sam­an óverðtryggt 40 millj­óna króna lán á 7,5% vöxt­um við verðtryggt lán til 25 ára. Þá blas­ir eft­ir­far­andi við: Heild­ar­greiðsla óverðtryggða láns­ins er 126 millj­ón­ir á 40 árum, meðal­greiðsla þess á ári 3,2 millj­ón­ir og meðal­greiðslan á mánuði 263.000.

Á meðan heild­ar­greiðsla verðtryggða láns­ins er 211 millj­ón­ir á 25 árum, meðal­greiðsla þess á ári er 8,4 millj­ón­ir og meðal­greiðslan á mánuði 703.000 krón­ur.

Hvernig fer hjá þessu fólki eft­ir t.d. 10 ár þegar lánið er komið upp í 68 millj­ón­ir og hver af­borg­un í 470.000 krón­ur? Af­borg­an­ir munu svo hækka í veld­is­vexti upp í 1.853.000 krón­ur fyr­ir lok láns­tím­ans.

Með stór­felld­um vaxta­hækk­un­um sín­um er Seðlabank­inn að færa bönk­un­um heim­il­in á silf­urfati og fórn­ar hags­mun­um þeirra þannig að mörg þeirra munu aldrei bíða þess bæt­ur.

Jafn­vel þótt óvin­ur­inn sé verðbólga er ekki sama hvernig við tök­umst á við hana og það skipt­ir máli að skjóta ekki niður þá sem þú seg­ist vera að verja.

Deila