Aðgerðir strax í málefnum barna

Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu farsældarfrumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

Í leik- og grunnskóla án aðgreininar eru fyrirheitin þau að öll börn skuli fá þörfum sínum fullnægt. Þetta er flókið í framkvæmd. Slíkt kallar á að ráðnir séu fagmenntaðir kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, sérkennarar, sálfræðingar, hegðunarfræðingar og talmeinafræðingar.

Í grunnskólum Reykjavíkur eru um 30% barna í sérkennslu. Sum börn eru í sérkennslu fáeina klukkutíma í viku en önnur eru marga tíma í viku, jafnvel alla grunnskólagönguna. Börnum fer fjölgandi í sérkennslu, sum vegna fjölþætts námsvanda, önnur vegna þess að þau þurfa stuðning í lestri eða stærðfræði.

PISA-könnunin 2018 leiddi í ljós að um 34% 14-15 ára drengja gætu ekki lesið sér til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 les aðeins 61% reykvískra barna sér til gagns eftir 2. bekk. Ástandið virðist fara versnandi og nemendum fjölgar í sérkennslu.

Sérkennarar undir miklu álagi

Ég hef lagt fram ýmsar fyrirspurnir um sérkennsluna þann tíma sem ég hef verið borgarfulltrúi. Af svörum að dæma er það staðfest að skortur er á heildarsýn og mælanlegum markmiðum.

Svo virðist sem heildstæða stefnu skorti. Það hefur ekki verið gerð úttekt eða könnun á sérkennslumálum í Reykjavík í a.m.k. tuttugu ár. Sérkennarar eru of fáir og starfa undir miklu álagi. Börnum með hegðunarvanda fjölgar, kannski einmitt vegna þess að þörfum þeirra er ekki svarað. Fái barn ekki náms- og félagslegum þörfum sínum sinnt upplifir það kvíða og aðra vanlíðan. Birtingarmynd sálrænnar vanlíðunar er stundum neikvæð hegðun og hegðunarvandi.

Fyrsta skrefið til umbóta er að öðlast betri yfirsýn um stöðu mála og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef lagt til í borgarstjórn að innri endurskoðun geri úttekt á þessum málaflokki. Í borgarstjórn var tillögu um úttekt af innri endurskoðanda felld en tillögunni hins vegar vísað í hóp á vegum borgarinnar sem skoðar þessi mál.

Öll þekkjum við hinn langa biðlista barna sem þarfnast aðstoðar fagfólks skóla, sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þau skipta hundruðum. Á annað hundrað barna bíða eftir að komast til talmeinafræðings. Fjöldi tilvísana til skólaþjónustu er um 2.164, hluti þeirra hefur fengið einhverja þjónustu en hinn helmingurinn enga.

Það er brýnt að stytta þennan biðlista. Það verður eingöngu gert með bættu skipulagi og ráðningu fleiri skólasálfræðinga. Skólasálfræðingar sinna fastmótuðu hlutverki, bæði á sviði forvarna og greiningarvinnu. Sú greining sem þeir annast, frumgreining á vitsmunaþroska og ADHD-skimun, er skilyrði þess að barn fái frekari þjónustu, t.d. á stofnunum ríkisins. Langur biðlisti í nauðsynlega greiningu og skimun í grunnskóla tefur fyrir að barn, sem þess þarf, fái ítarlegri greiningu á barna- og unglingageðdeild eða Greiningarstöð ríkisins.

Tillögur felldar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur lagt fram tillögur til úrbóta í þessum málum. Í borgarstjórn mun ég aftur við seinni umræðu um fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun, sem fram fer 15. desember, leggja til að bætt verði við þremur stöðugildum skólasálfræðinga. Hækka þarf fjárframlög til velferðarsviðs um 40,5 milljónir króna. Tillaga þessi var lögð fram fyrir ári og var þá felld.

Flokkur fólksins hefur á þessu ári lagt fram fleiri tillögur sem grynnka á biðlistum, s.s. um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert, m.a. til að stytta biðlista. Vísir er nú þegar að samstarfi sem þessu en ekkert er formlegt eða samræmt milli skóla. Einnig lagði ég til að skóla- og frístundasvið hæfi formlegt samstarf við heilsugæslu um að fá upplýsingar um niðurstöður úr fjögurra ára skimun barna. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda og hvort þörf er á sértækri aðstoð strax.

Á meðan borgin bíður með hendur í skauti neyðast foreldrar til að leita með börn sín sem eiga við vanda að etja til sjálfstætt starfandi fagfólks. Þetta þarf fólk að borga fyrir úr eigin vasa. Því hafa ekki allir efni á. Núverandi ástand er vítahringur sem bitnar verst á sjálfum börnunum. Búið er að samþykkja á Alþingi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ekki er vitað hvenær framkvæmd verður að veruleika. Heilsugæsla sinnir ekki greiningum og á heilsugæslu eru víða einnig biðlistar.

Aðgerðir strax

Brýnt er að gripið verði til aðgerða strax. Það sem ég tel að hægt sé að gera er að:

• Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum og komi með tillögur.

• Fjölga sálfræðingum og ráðast til atlögu að biðlistum.

• Formgera samstarf borgar við heilsugæslu og Þroska- og hegðunarstöð til að undirbúa markvissari snemmtæka íhlutun og einfalda aðgengi barns að barnalækni.

Nú hefur félagsmálaráðherra tilkynnt að lagt verður fram svokallað farsældarfrumvarp. Áform eru hjá ráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna. Það er vel en þetta kemur ekki í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi 2022. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Deila