Afnemum ósanngjarnar skerðingar strax!

Í lok desember 2018 samþykktu allir flokkar Alþingis þingmál Flokks fólksins um breytingar á lögum um tekjuskatt sem fellir niður skerðingar á styrkjum sem öryrkjar og lífeyrisþegar fá til að standa straum af kostnaði við útgjöld sem þeir hafa vegna veikinda.

Þetta var fyrsta þingmál Flokks fólksins sem fékk fulla þinglega meðferð og með þessu tryggðum við að hætt yrði að telja styrki til tækjakaupa, lyfjakaupa og bensínskostnaðar til tekna með tilheyrandi sköttum og skerðingum. Þessi breyting sparar 6.000 öryrkjum og eldri borgurum að meðaltali um 120.000 kr. á ári.

Í júlí 2019 vann Flokkur fólksins mál fyrir hönd ellilífeyrisþega, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í þessu máli varð til þess að ríkið greiddi 29.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna.

Í lok síðasta löggjafarþings féllust allir flokkar á þingsályktunartillögu Flokks fólksins sem fól félags- og barnamálaráðherra að sannreyna áður framkomna kostnaðargreiningu FEB (Félag eldri borgara) um að samfélagið í heild sinni myndi hagnast á því að afnema skerðingar vegna launatekna aldraðra. Ráðherra hefur nú skipað óháðan starfshóp til að skera úr um málið.

Flokkur fólksins hefur nú tvisvar lagt fram frumvarp sem felur í sér hækkun á frítekjumarki lífeyristekna úr núverandi 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki sýnt þessu máli áhuga þá munu þeir finna fyrir auknum þrýstingi. Kjaranefnd Landssambands eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík hafa ályktað um málið og Grái herinn hyggst höfða mál gegn íslenska ríkinu vegna skerðinga á greiðslum lífeyris. Fólk er þvingað til að greiða í lífeyrissjóði hvort sem því líkar betur eða verr. Því er talin trú um að þessir peningar séu sparifé þess. Síðan kemur ríkið með krumluna og hrifsar bróðurpartinn til sín í formi skerðinga og skattheimtu. Baráttan gegn óréttlátum skerðingum og skattheimtu er hafin og með ykkar stuðningi munum við sigra.

Deila