Burt með strandveiðigjaldið

Greinargerð.

Vorið 2010, einu ári eftir að núverandi strandveiðikerfi tók gildi, var sett nýtt ákvæði um svokallað strandveiðigjald í lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000. Þar var kveðið á um að við útgáfu leyfis til strandveiða skyldi, auk almennrar greiðslu fyrir veiðileyfi, greiða 50.000 kr. í sérstakt strandveiðigjald á hvert strandveiðileyfi sem gefið væri út af stjórnvöldum. Fiskistofa skyldi innheimta gjaldið. 

Tekjum af strandveiðigjaldi skyldi svo ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn væri við strandveiðar, yrði landað. Allar götur síðan þetta var innleitt hefur hið svokallaða strandveiðigjald verið óbreytt en með 1. gr. laga um breytingu á lögum um Fiskistofu og ýmsum öðrum lögum (gjaldskrárheimild), nr. 67/2015 var ákvæðið fært undir 6. gr. laga um Fiskistofu. Inga Sæland lagði fram fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 149. löggjafarþingi um gjöld á strandveiðar (707. mál). Þar var m.a. spurt um upphæðir svokallaðs strandveiðigjalds frá upphafi vertíðar 2010 til loka vertíðar 2018, greint eftir vertíðum og höfnum og reiknað í öllum tilvikum til núvirðis. Í svarinu kemur fram að þetta gjald hafi samtals yfir allt landið á árabilinu numið um 342 millj. kr. reiknað til núvirðis í apríl/maí 2019. Á núvirði eru það að jafnaði 38 millj. kr. árlega. Á núvirði var það alls 28,6 millj. kr. fyrir strandveiðitímabilið 2018 og hefur farið lækkandi á síðustu árum þar sem strandveiðibátum hefur fækkað. 

Árið 2019 stundaði alls 621 bátur veiðar. Strandveiðigjald af þessum bátum hefur alls verið 31,05 millj. kr. Á nýliðinni strandveiðivertíð stunduðu 669 bátar strandveiðar samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu og má gera ráð fyrir að strandveiðigjald af þeim nemi um 33,4 millj. kr. Í framangreindu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland um gjöld á strandveiðar kemur fram að þessar veiðar hafa alls skilað 763 millj. kr. í veiðigjöld í ríkissjóð reiknað til núvirðis frá því veiðar hófust árið 2009. Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við annarri fyrirspurn á 149. löggjafarþingi frá Ingu Sæland um strandveiðar 2018 (þskj. 1491, 708. mál) má lesa að heildaraflaverðmæti strandveiðiaflans árið 2018 hafi numið 2,2 milljörðum kr. Þar af var þorskur 2,1 milljarður kr., en 9.075 tonnum var landað af honum. Veiðigjöld á strandveiðar voru aldrei hærri á einni vertíð en 2018, eða alls 170 millj. kr. Strandveiðivertíðin 2019 skilaði 9.162 tonnum af þorski. Fregnir í fjölmiðlum greina frá því að þorskverð hafi verið um þriðjungi hærra árið 2019 en strandveiðisumarið 2018. Þannig má áætla að strandveiðiaflaverðmæti þorsks 2019 hafi numið nálega 3 milljörðum kr. Í svari við fyrirspurninni kemur einnig á daginn að 90,4% alls strandveiðiaflans var landað með sölu á fiskmörkuðum hér á landi. Þetta stangast á við fullyrðingar sem hafa heyrst úr ranni andstæðinga strandveiða að einhverjum verulegum hluta aflans sé landað í gáma til sölu og vinnslu í Bretlandi. Nær allur strandveiðiafli fer til vinnslu hér á landi. Fjöldi landana á strandveiðisumrinu 2018 á landinu öllu var 14.984 en alls stunduðu 548 bátar veiðar. Sumarið 2019 var fjöldi landana 15.753 og 621 bátur við veiðar og á nýliðnu sumri var fjöldi landana 18.112 en 669 bátar voru við veiðar eins og fyrr var greint. Útgerðir strandveiðibáta eru lítil fyrirtæki og hafa einungis tekjur af strandveiðum fjóra mánuði á ári. Á því tímabili mega útgerðir einungis gera bátana út 12 daga í hverjum mánuði, eða alls í 48 daga. Strandveiðar við Ísland hafa þó fest sig í sessi og þær skila sínu til þjóðarbúsins eins og framangreindar tölur gefa til kynna. Bæði reynsla og allar tölur sýna að mannlíf í höfnum sjávarbyggða allt umhverfis landið væri vart svipur hjá sjón ef þessa útvegs nyti ekki við. Strandveiðigjaldið svokallaða er sértækur skattur sem lagður er á einn útgerðarflokk umfram aðra. 

Engin sambærileg gjöld eru lögð á skip sem stunda aðrar veiðar en strandveiðar. Þetta felur í sér ójafnræði í ljósi þess að eigendur strandveiðibáta greiða lögbundin hafnargjöld eins og aðrir. Því er með þessu frumvarpi lagt til að ákvæði um strandveiðigjaldið í lögum um Fiskistofu verði fellt brott.

Deila