Frá því ég var kjörin á þing árið 2017 hefur Flokkur fólksins lagt fram fjölda þingmála í baráttunni um bættan hag eldra fólks. Ég vil nefna þingmál um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, hækkun frítekjumarks vegna lífeyristekna úr 25.000 kr. í 100.000 kr. sem ég mun mæla fyrir í dag í sjötta sinn. Í gær mælti ég fyrir frumvarpi í fimmta sinn um að endurskoðun almannatrygginga skuli ávallt fylgja launaþróun eins og hún kemur fram í launavísitölu en sé ekki látin fylgja vísitölu neysluverðs nema þegar sá útreikningur er almannatryggingaþegum hagstæðari. Því miður hefur það verið regla frekar en undantekning að löggjöfin hefur verið þverbrotin.
Fleiri eru réttlætismálin eins og að hjálpartæki verði undanþegin virðisaukaskatti, afnám vasapeningafyrirkomulagsins, aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum, stofnun embættis hagsmunafulltrúa aldraðra og afnám skerðinga vegna launatekna. Allt eru þetta sanngirnis- og réttlætismál sem ætlað er að gera efri árin að gæðaárum en ekki hlaðin kvíða, einmanaleika, örbirgð og depurð. Þrátt fyrir óbilandi baráttu Flokks fólksins hefur ríkisstjórnin fleygt nánast öllum okkar sanngirnis- og réttlætismálum beint í ruslið. Áhugaleysi þeirra er algjört. Staðreyndin er sú eins og allir þekkja að ríkisstjórnin hefur snúið blinda auganu að örbirgð og vanlíðan tugþúsunda. Almannahagur er fyrir borð borinn.
Staðan eftir eitt og hálft kjörtímabil undir stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks liggur ljós fyrir. Óafsakanlegur skortur hjúkrunarrýma sem hefur gert það að verkum að eldra fólk liggur fast á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þrátt fyrir að vera tilbúið til útskriftar. Engar lausnir, engin úrræði, s.s ekkert sem tekur utan um fullorðna fólkið okkar sem hefur orðið svo ólánsamt að þurfa að leggjast inn á spítala. Þetta eins og allt annað er á ábyrgð fríkisstjórnarinnar, þetta er mannanna verk.
Vaxandi kjaragliðnun hjá þeim eldri borgurum sem haldið er í sárri fátækt. Þúsundir þurfa að velja á milli hvort þau kaupa sér mat eða lífsnauðsynleg lyf. Skerðingarkerfinu er viðhaldið og það varið með kjafti og klóm. Ísland leggur minnst allra OECD-ríkja í stuðning við málefni aldraðra. Til að bíta höfuðið af skömminni rænir síðan ríkisvaldið áunnum lífeyrissjóðsréttindum þeirra. Ellefu þúsund eldri borgarar eru í neðstu þremur tekjutíundunum, þar af sex þúsund sem látnir eru hokra í þeim neðstu tveim.
Þann 13. júní 2021 samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu Flokks fólksins um að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hefur staðið í vegi fyrir því að farið verði að skýrum vilja þingsins.
Flokkur fólksins vill gera efri árin að gæðaárum fyrir alla, ekki bara suma.