Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hyggst beina athygli meirihlutans að Félagsbústöðum á fundi borgarstjórnar í dag. Tilefnið er lækkun húsnæðisstuðnings til þeirra öryrkja sem fengu leiðréttingu bóta með lögum síðastliðið sumar, sem leiðir til hærri húsleigu en ella.
„Við þessu hefur borgarmeirihlutinn og velferðarráð ekki brugðist. Það hefur því gerst að Félagsbústaðir hafa lækkað sérstakan húsnæðisstuðning hjá öryrkjum sem fengu þessa leiðréttingu bóta og er því fólk að borga mun hærri leigu núna. Ríkið setur í einn vasann og borgin tekur úr hinum,”
segir Kolbrún og nefnir að 65% af tekjum örorkuþega hafi nú áhrif á útreikninga í stað 100 prósenta. Breytingar giltu frá áramótum og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst. Hinsvegar hafi þetta ekki tilætluð áhrif vegna lækkunar Félagsbústaða, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar.
Angist og grátur
„Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur tekið við mörgum símtölum frá grátandi fólki, reiðu fólki, fólki sem með þessari hækkun er varpað fyrir björg fjárhagslega. Fólk sem ræður ekki við þessa hækkun,”
segir Kolbrún og nefnir dæmi úr raunveruleikanum sem hún þurfi að hlusta á:
- „Ræð ekki við þessa hækkun og jólin að nálgast“
- „Er í áfalli, rosalegt STRESS, ofboðslega óþægileg tilfinning“
- „Vinsamlega láta lagfæra þetta“
- „EF það væru einhverjar SMÁ breytingar, þá þarf að UPPLÝSA um þær og svo gefur auga leiða að aðili eins og Reykjavíkurborg (Félagsbústaðir) geta ekki valið að HÆKKA upp úr þurru húsaleigu á ÖRYRKJA og fátækasta fólkið um yfir 75% er í rosalegu áfalli „
- „Viltu fá Félagsbústaði til að „lagfæra þessa villu“-hlýtur að vera VILLA, allt annað væri „glæpamennska í hæstu hæðum“
- „Ég er miður mín, er að leigja íbúð hjá félagsbústöðum. Leigan var 95.000 en er núna 117.000 þar sem að leiðrétting sem ég fékk í ágúst frá Tryggingarstofnun hefur þessi áhrif. Er þetta í lagi? Getur ekki verið !!!“
Kolbrún segir þetta aðeins brot af þeim tölvupóstum og skilaboðum sem hún hafi fengið vegna málsins.
„Er það von að sé spurt, er þetta í lagi?? Hér verður að bregðast við og hækka viðmiðin, tekju og eignaviðmið þannig að eitt kerfi gefi ekki og annað hrifsi það svo til sín. Hvar er samstarf borgar og ríkis hér, hafa þessi tvö kerfi rætt saman, samræmt viðmið sín, húsnæðisstuðningur vs. húsnæðisbætur,“
segir Kolbrún og bætir við að ekki sé hægt að semja um skuldir líkt og áður var hægt:
„Þeir sem ekki geta borgað lenda í höndum lögfræðinga, með smáar jafnt sem stórar skuldir með tilheyrandi vöxtum og dráttarvöxtum sem gerir fólki enn erfiðara fyrir að borgar skuld sína. Áður var hægt að semja um skuldir á skrifstofu Félagsbústaða en nú hefur verið lokað fyrir það.“
Frétt þessi birtist á Dv.is