Auðvitað á að vera hægt að nota frístundakortið í öll sumarnámskeið

Það styttist í sumarið og bráðum standa börnum til boða ýmiss konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á vegum skóla- og frístundaráðs. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinnipartinn af faraldri bíða mörg börn þess með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum.

Í undirbúningi hjá Flokki fólksins er að leggja aftur fyrir tillögu um að rýmka reglur frístundakortsins þannig að hægt sé að nota það á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar sem og önnur viðurkennd námskeið án tillits til lengdar námskeiðanna. Núgildandi reglur um frístundakort kveða á um að frístundastyrkinn, 50.000 kr., sé aðeins hægt að nýta í námskeið sem eru að lágmarki 10 vikna löng. Nú býður Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn börnum upp á 5 daga námskeið sem kosta 18.500 og 4 daga námskeið sem kosta 15.100. Skóla- og frístundaráð býður börnum einnig upp á námskeið sem kosta um 10.000 á viku.

Í borgarráði 2. maí 2019 lagði ég til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Ég hyggst gera aðra atrennu að regluverkinu von bráðar því það er öllum börnum afar mikilvægt að komast á námskeið í sumar eftir þennan óvenjulega vetur.

Að skilyrða notkun frístundakortsins við tíuvikna löng námskeið lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en tíu vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Það er ekki lengd námskeiðs sem skiptir máli heldur gæði þess og hvernig námskeiðið hentar barninu.

Fjárhagur foreldra er misjafn. Sumir hafa misst vinnu eða laun þeirra verið skert vegna COVID-19. Ekki hafa foreldrar ráð á að leyfa börnum sínum að taka þátt í sumar- eða vetrarnámskeiðum. Það lítur sérkennilega út að sjá öll þau fjölbreyttu sumarnámskeið auglýst á vefsíðu ÍTR og skóla- og frístundaráðs og sjá á sama stað vísað í upplýsingar um frístundakort, sem þó er ekki hægt að nota vegna þess að ekkert námskeiðanna nær 10 vikum.

Gengisfelling frístundakortsins í gegnum árin

Auk þess að leggja fram tillögur um rýmkun á reglum frístundakortsins hef ég einnig lagt fram tillögur sem lúta að því að frístundakortið fái aftur upphaflegan tilgang. Til upprifjunar var frístundakortið hugsað sem tæki til jöfnuðar, til að gefa öllum börnum tækifæri til að stunda íþrótta- eða tómstundastarf án tillits til efnahags foreldra þeirra.

Árið 2009 var byrjað að afbaka reglur frístundakortsins, sem varð til þess að frístundakortið var ekki lengur það jöfnunartæki sem það átti að vera. Gengisfelling á frístundakortinu hófst þegar ákveðið var að hægt yrði að nýta rétt frístundakortsins til að greiða gjald frístundaheimilis. Sé kortið notað til að greiða frístundaheimili getur barnið ekki notað það til að fara á íþrótta- eða tómstundanámskeið. Hér hefði átt að finna aðrar leiðir til að styrkja foreldra sem ekki gátu greitt frístundaheimili fyrir barn sitt í stað þess að taka frístundakortið af barninu. Næst var tekið upp á að blanda rétti til nýtingar frístundakortsins saman við umsókn um fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við barn. Sú ákvörðun dró enn frekar úr líkum þess að barn gæti notað það til að velja sér tómstund eða íþrótt.

Barátta mín og Flokks fólksins fyrir rétti barnsins að nýta frístundakortið í samræmi við tilgang þess er hvergi nærri lokið en hefur þó skilað nokkrum árangri. Til stendur að gera þær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð að fellt verði úr gildi að skilyrða umsækjanda að nýta sér rétt sinn samkvæmt frístundakorti til að geta sótt um aðstoð vegna barns. Þetta er sannarlega fagnaðarefni. Drög af breytingum á reglunum eru nú í umsagnarferli.

Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar, enda eru þær almennt allt of stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera 10 vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þar sem styrkurinn er aðeins 50.000 geta efnaminni og fátækir foreldrar oft ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Í hverfi 111, þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest, nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

Í gangi er stefnumótunarvinna um frístundakortið. Vonandi er sá hópur að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til. Ég mun áfram halda á lofti tillögum um breytingar sem miða að því að koma frístundakortinu aftur til uppruna síns sem stuðningstæki sem stuðlar að því að öll börn 6-18 ára í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortið er ætlað til jöfnunar og fjarlægja þarf annmarka við reglur kortsins til að börn í öllum hverfum geti nýtt kortið eins og tilgangur þess segir til um.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila