Greinargerð.
Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga sem hafi það að markmiði að auka lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum.
Lagt er til að frumvarpið feli í sér skýr ákvæði sem tryggi sjóðfélögum aukið vald í málefnum lífeyrissjóðanna, að stjórnir þeirra séu með skýrt umboð sjóðfélaga, að ekki séu líkur á hagsmunaárekstrum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra við hagsmuni lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga og aukið eftirlit með hagsmunaskráningu til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra.
Eftir kjarasamningana vorið 1969 hafa stjórnir lífeyrissjóðanna almennt verið skipaðar til helminga af Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd launagreiðenda og af viðkomandi stéttarfélagi, en án aðkomu hins almenna sjóðfélaga sem er þó ásamt launagreiðanda skyldaður til að greiða í „lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps“. Launagreiðendur hafa ávallt tilnefnt fulltrúa til setu í stjórnum lífeyrissjóða og á það sér sögulegar skýringar og grundvallaðist í upphafi á húsbóndaábyrgðinni. Mikil breyting hefur orðið á húsbóndaábyrgðinni og framfærsluskyldu almennt. Framfærsluskyldan er að mestu komin yfir til opinberra aðila og hvílir meginþunginn á sveitarfélögunum en nokkur hluti er hjá ríkinu. Fáum dettur í hug að launagreiðandi hafi skyldu til að framfæra fyrrverandi starfsmenn, hvort sem þeir hafa hætt störfum sökum aldurs eða vegna örorku. Þannig hefur hin forna húsbóndaábyrgð flust yfir til Tryggingastofnunar ríkisins, skattkerfisins (barna- og vaxtabætur), lífeyrissjóða, húsaleigubóta og félagsþjónustu sveitarfélaga. Því er ekki lengur sama ástæða fyrir því að launagreiðendur eigi sæti í stjórn lífeyrissjóða. Þá hafa sjóðfélagar mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta og því þykir flutningsmönnum rétt og eðlilegt að sjóðfélagar fái að taka beinan þátt í starfsemi og stefnumótun lífeyrissjóða með þátttöku og kosningarétti á ársfundum sjóðanna. Það hefur sýnt sig í umræðu síðustu ára að almenningur er ekki ánægður með ríkjandi kerfi þar sem almenningi er jafnan ekki tryggð aðkoma að rekstri lífeyrissjóða sem hann er þó skuldbundinn samkvæmt lögum að greiða í. Mikilvægt er því að færa valdið aftur til sjóðfélaga og setja um það skýrar reglur. Er því lagt til að í frumvarpi því sem lagt verði fyrir Alþingi verði m.a. kveðið á um að stjórn lífeyrissjóða boði til félagsfunda í samræmi við samþykktir sjóðanna og atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðanna. Eðlilegt er þó að sjóðfélagi geti veitt öðrum skriflegt umboð til að fara með atkvæði sitt á félagsfundum. Þá telja flutningsmenn rétt að lögfesta ákvæði sem tryggi að kosning stjórnar sé tekin fyrir á hverju ári. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrari reglum um að stjórnarmenn megi ekki eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í eða stundar viðskipti við. Jafnframt þarf að tryggja að opinbert eftirlit sé með hagsmunum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða svo að grípa megi til aðgerða ef kemur til hagsmunaárekstra.
Því er lagt til að í frumvarpinu verði Fjármálaeftirlitinu falið að halda skrá um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og jafnframt að hafa eftirlit með því að þeir hagsmunir og þau trúnaðarstörf myndi ekki hagsmunaárekstra gagnvart hagsmunum lífeyrissjóðs og sjóðfélaga.