Á fundi borgarráðs lagði ég til fyrir hönd Flokks fólksins að reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar yrðu rýmkaðar. Taka ætti mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn, sem sækja skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra segir til um, ættu einnig rétt á strætókorti.
Einnig lagði ég til aukin réttindi fyrir þau börn, sem sækja skóla í hverfi utan lögheimilis þeirra af annars konar ástæðum. Hér er m.a. átt við börn sem hafa þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla fjarri heimili sínu af þeim sökum eða börn sem hafa flust í nýtt hverfi en vilja halda tengslum við vini í gamla skólanum þar til haldið er í menntaskóla. Fráleitt er að neita þeim um strætókort ef fjarlægðarviðmiði milli heimili og skóla er náð sem er 1,5 km göngufjarlægð frá hverfisskóla sínum fyrir nemendur í 1.-5. bekk og 2 km fyrir nemendur í 6.-10. bekk.
Tökum mið af breyttum lífsháttum
Reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar kveða á um að miða skuli við lögheimili barns og fjarlægð þess frá skóla þegar ákveðið er hvort barnið eigi rétt á strætókorti eða skólaakstri. Nú er það svo að sum börn eiga tvö heimili þótt einungis annað þeirra sé lögheimili . Sífellt verður algengara að barn dveljist viku í senn hjá hvoru foreldri og ekki búa allir foreldrar í sama hverfi. Flokkur fólksins leggur til að reglum sé breytt þannig að tekið sé tillit til fjarlægðar skóla frá báðum heimilum barns til að auðvelda foreldrum að ala börn sín upp í sameiningu. Þessi tillaga er í samræmi við nýsamþykktar breytingar á barnalögum sem taka gildi næstu áramót og opna á það að foreldrar skrái bæði lögheimili og búsetuheimili barns, og taki sameiginlegar ákvarðanir um hagsmuni barnsins í slíkum tilvikum.
Réttlátari tilhögun ætti ekki að auka kostnað borgarinnar nema lítillega en getur skipt hlutaðeigandi börn og foreldra miklu.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.