„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki að koma til móts við þau bágstöddustu í samfélaginu. Þau gleymast eina ferðina enn. Ég segi gleymast því ekki ætla ég ríkisstjórninni að hafa lagt í björgunarleiðangur þar sem viðkvæmustu þjóðfélagsþegnarnir eru viljandi skildir eftir á flæðiskeri. Stjórnarliðar segja þetta fyrsta skrefið og gera þurfi meira en minna. Þrátt fyrir það lætur ríkisstjórnin fátækt fólk enn bíða eftir réttlætinu,“
segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í grein í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir björgunarpakka ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 ekki ná til þeirra sem mest þurfa á honum að halda:
„Er furða þótt ég sé undrandi á aðgerðarpakkanum sem augljóslega er ætlað að slá skjaldborg um fyrirtækin og fjármagnsöflin á kostnað almennings og heimilanna í landinu? Eru aðgerðirnar sniðnar að öryrkjum og öldruðum sem enga framfærslu hafa umfram strípaða framfærslu almannatrygginga? Hvað með heimilislaus sem lifa nú við ömurlegri aðstæður en nokkru sinni fyrr? Telja má víst að þörfin fyrir starfsemi SÁÁ verði af augljósum ástæðum aldrei meiri en í kjölfar þess áfalls sem við verðum fyrir nú. Samtökin missa nú mestallt sjálfsaflafé. Erum við að verja þau þessu áfalli? Svörin eru nei.“
Bankarnir geta beðið
Inga segir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hamra á því að Ísland standi vel að vígi efnahagslega og eigi að geta varið heimili og fyrirtæki gegn áhrifum Covid-19. Hún skorar hinsvegar á lánastofnanir að fresta öllum greiðsluseðlum og segir bankana geta beðið:
„Ég lýsi undrun á að greiðslubyrði húsnæðislána heimilanna bera enn sömu vexti og samið var um fyrir daga vaxtalækkana Seðlabankans, um leið og nú á að lækka bankaskattinn strax um 11 milljarða króna. Er það rétt forgangsröðun á almannafé að hjálpa bönkunum sem settu okkur á hausinn 2008? Það sem verra er, að í stað þessa að tryggja að þessar aðgerðir nýtist viðskiptavinum þeirra, þá sendir ríkisstjórnin þeim vinsamleg tilmæli um að þeir lækki nú vexti sína. Þar við situr.
Í kjölfar hrunsins sótti margt fólk vinnu og tekjur til annarra landa, s.s. Noregs. Þannig tókst mörgum að standa í skilum. Nú er þessi möguleiki lokaður. Ég skora því á allar lánastofnanir landsins að setja heimilin í skuldaskjól; senda ekki einn einasta greiðsluseðil út fyrr en við sjáum til lands í þeirri miklu óvissu sem nú ríkir. Ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir þessu. Bankarnir geta beðið. Við eigum það inni hjá þeim.“
Fréttin birtist á Dv.is