Bann við handfæraveiðum er mannréttindabrot

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, færði í gær í tal úr ræðustól Alþingis frjálsar handfæraveiðar. „Bann við frjálsum handfæraveiðum er mannréttindabrot, það sýnir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom fram árið 2007. Í dag byggist núverandi strandveiðikerfi á því og það er bara allsendis ófullnægjandi. Í dag er ekki skilið á milli stórtækra veiða togara og veiða smábáta, jafnvel þótt vitað sé að veiðihæfni handfæra sé afar lág, en samkvæmt tölum Hafrannsóknastofnunar sjálfrar er hún 0,6%, sem þýðir að aðeins sex fiskar nást af hverjum 1.000 fiskum sem komast í tæri við krókana. Mikilvægt er að endurreisa rétt sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af,“ sagði Eyjólfur.

Benti hann á að undan ströndum landsins væru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þessa auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því land byggðist. „Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Þar hefur byggð frá landnámi byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúa undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti sjávarbyggðanna. Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur – það er meðalhófið,“ sagði hann og benti jafnframt á að aflahámark sem takmarkar fiskveiðar ætti eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskistofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. „Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum,“ sagði þingmaðurinn.

Deila