Það er fagnaðarefni þegar baráttan fyrir réttlæti ber árangur eins og gerðist á síðasta þingfundi kjörtímabilsins þegar tvö baráttu- og réttlætismál Flokks fólksins voru samþykkt á síðustu mínútum þingsins.
Annars vegar var samþykkt að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra og hins vegar að blindum og sjónskertum stæðu til boða leiðsöguhundar sér að kostnaðarlausu.
Hagsmunafulltrúi aldraðra
Þeir sem komnir eru á eftirlaunaaldur eru fjölbreyttur hópur einstaklinga sem búa við mismunandi aðstæður, fjárhag og heilsu. Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum þeirra, leiðbeina þeim um réttindi sín og bregðast við telji hann á þeim brotið. Að auki skal hann hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara og jafnframt gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða þá, ásamt því að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni eldra fólks.
Flokkur fólksins fagnar Hagsmunafulltrúa aldraðra sem mun vinna ómetanlegt verk í þeirra þágu.
Leiðsöguhundar fyrir blinda
Þeir sem hafa fulla sjón eiga flestir erfitt með að setja sig í spor hins blinda og sjónskerta.
Hins vegar á ég það ekki og tala því út frá eigin reynslu þegar ég segi að sannarlega hefði ég sloppið við margar bylturnar og pústrana í gegnum lífið hefði mér auðnast sú gifta að eiga slíkan samferðarfélaga og hjálpartæki sem leiðsöguhundur er. Hann er einfaldlega augu þess blinda og sjónskerta. Að meðaltali hefur verið úthlutað einum leiðsöguhundi á ári. Fjármagnið fengið með sjálfsaflafé eða góðgerðarsöfnunum velviljaðra. Það eru 18 einstaklingar sem bíða nú eftir slíkri hjálp, þannig að ef frumvarp Flokks fólksins hefði ekki fengið farsælan endi þá myndi sá aftasti í röðinni fá hjálpina eftir 18 ár.
Með frumvarpi Flokks fólksins er samþykkt að ríkissjóður sjái um að tryggja árlega fjármagn til að þjálfa og flytja inn leiðsöguhunda til samræmis við eftirspurn hverju sinni án þess að notendur beri kostnað sem hlýst af öflun og þjálfun slíkra hunda eða vegna flutnings þeirra til og frá landinu hverju sinni.
Nú geta blindir og sjónskertir fagnað og Flokkur fólksins óskar þeim til hamingju og þakkar Alþingi fyrir að samþykkja þessa ómetanlegu hjálp fyrir alla þá sem á henni þurfa að halda.
Flokkur fólksins hefur barist fyrir réttlæti og aldrei kvikað frá sannfæringu sinni og stefnu sem kristallast í einkunarorðum okkar, „Fólkið fyrst og svo allt hitt“.
Við leggjum stolt verkin okkar í dóm kjósenda.
Inga Sæland