Barnasáttmálinn víða brotinn í Reykjavík

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013. Sáttmálinn hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík líkt og gert hefur verið í Kópavogi. Ég lagði fram tillögu á fundi borgarstjórnar 18. janúar, um að skipaður yrði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að unnt sé að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Þar með væri Reykjavík komin í hóp barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggist á alþjóðlegu verkefni.

Í borgarráði liggur erindi frá UNICEF. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs. Umsögn hefur ekki borist og þess vegna hefur ekkert bólað á ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að taka þátt í verkefninu.

Tillögu Flokks fólksins var vísað til borgarráðs. Það voru vonbrigði. Borgarráð er lægra stjórnvald og þar hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki atkvæðisrétt.

Það er undarlegt að Reykjavík skuli vera eftirbátur Kópavogs í þessu mikilvæga máli. Staðreyndin er sú að ákvæði Barnasáttmálans eru brotin víða í málefnum barna Reykjavík. Undirbúningur innleiðingar Barnasáttmálans í Reykjavík hefur legið í láginni hjá þessum meirihluta. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að erindi UNICEF verði svarað. Til þess þarf nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum. Farsælast hefði verið að meirihlutinn samþykkti framangreinda tillögu Flokks fólksins um skipun stýrihóps til að hægt sé að innleiða sáttmálann og svara í kjölfarið erindi UNICEF. Í þessu máli þarf meirihlutinn sannarlega að gyrða sig í brók.

Brýn mál bíða úrlausnar

Innleiðing Barnasáttmálans skiptir sköpum um málefni barna, sérstaklega nú þegar fátækt fer vaxandi og kannanir sýna aukna vanlíðan barna. Brýn mál bíða úrlausnar, ýmist varðandi aðstöðu barna eða aðgengi þeirra að nauðsynlegri þjónustu.

Ef litið er til síðustu missera er efst í huga mygluvandinn í Fossvogsskóla sem valdið hefur nemendum og foreldrum þeirra streitu og áhyggjum með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum. Í tilviki Fossvogsskóla reyndu foreldrar ítrekað að ná eyrum yfirvalda og Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur vegna mygluástandsins, en skellt var skollaeyrum við ákalli þeirra. Nú er hins vegar viðurkennt af borgaryfirvöldum að bregðast hefði átt við fyrr og hlusta betur.

Umboðsmaður barna hefur nú kallað eftir því að Reykjavíkurborg láti framkvæma óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum skóla- og borgaryfirvalda vegna ástands húsnæðis Fossvogsskóla.

Bið og meiri bið

Á heildarbiðlista eru nú 1.680 börn og bíða flest börn eftir sálfræðingi. Börn eiga rétt á sálfræðiþjónustu á vegum Skólaþjónustunnar en gengið hefur hægt að grynnka á biðlistanum. Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggist m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga.

Því er mikilvægt að hefja þá vinnu að komast að raun um hvað þarf að bæta. Í kjölfarið þarf svo að ganga í að bæta það til að unnt sé að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Daglega eru ákvæði hans brotin á fjölda sviða sem snúa að börnum. Því ófremdarástandi verður að linna.

– Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins í Reykjavík

Deila