Barnið mitt fékk CO­VID-19

Mikið er lagt á börn um þessar mundir. Börn, sem komin eru með aldur og þroska til, hafa vissu­lega fylgst með heims­far­aldrinum. Börnin hafa fram til þessa mörg hver haft á­hyggjur af for­eldrum sínum og öfum og ömmum. Hvort sem það er með til­komu breska af brigðisins eða ekki, þá hefur veiran smokrað sér meira inn í barna­hópa svo nú bætast við á­hyggjur af eigin heilsu. Ætla má að enn meiri ugg hafi sett að börnum sam­fara því og þá ekki síst hjá þeim börnum sem hafa fengið CO­VID-19. Eitt er að heyra fréttir af vá­gestinum en annað að vera sjálfur í þeim sporum að hafa smitast.

Full­trúi Flokks fólksins lagði fram til­lögu í borgar­stjórn 4. maí um sál­fræði­að­stoð til starfs­fólks og for­eldra vegna CO­VID-19 smita í leik- og grunn­skólum þar sem upp hefur komið CO­VID-19 hóp­sýking. Einnig var lagt til að hugað verði sér­stak­lega að þeim börnum sem hafa smitast af CO­VID-19 og þeim veitt sál­fræði­að­stoð telji for­eldrar þörf á. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Land­læknis­em­bættinu 27. apríl hafa 426 börn á aldrinum 0-17 ára, með lög­heimili í Reykja­vík, greinst með CO­VID-19 hér á landi frá upp­hafi far­aldursins.

Þegar börnin eru annars vegar er öllum illa brugðið. For­eldrar barna sem smitast hafa af CO­VID-19 hafa án efa fundið fyrir miklum ótta. Sama má ætla að gerist hjá starfs­fólki. Það er brýnt að for­eldrum og starfs­fólki standi til boða sál­fræði­að­stoð til að vinna úr þessari erfiðu reynslu. Starfs­fólk leik- og grunn­skóla hafa verið undir miklu á­lagi frá upp­hafi far­aldursins. Full á­stæða er einnig til að huga að börnunum sem hafa fengið CO­VID-19. Mörg þeirra hafa hvorki aldur né þroska til að vinna úr á­föllum af þessu tagi. Í við­tali við fag­aðila gefst þeim tæki­færi til að tjá upp­lifun sína, líðan og hugsanir, hvernig það var að vera í ein­angrun og koma síðan aftur í skólann, eða annað sem hvílir á þeim.

Líðan barna hefur farið versnandi

Al­mennt hefur líðan grunn­skóla­barna hér á landi farið versnandi og á það jafnt við fyrir far­aldurinn og eftir að hann hófst. Þetta má sjá í niður­stöðum kannana sem birtar hafa verið hjá Land­læknis­em­bættinu, Vel­ferðar­vaktinni og Um­boðs­manni barna. Frá­sögnum barna hefur verið safnað m.a. af Um­boðs­manni barna og hafa þær gefið vís­bendingar um að á­hyggjur hafi aukist. Á­hyggjur í tengslum við veiruna eru lík­legar til að auka enn meira á van­líðan þeirra barna sem leið illa fyrir.

Vaxandi van­líðan barna í Reykja­vík og aukning á depurð, kvíða, sjálfs­skaða og sjálfs­vígs­hugsunum hefur verið á­hyggju­efni lengi. Þau börn sem eru í þessari stöðu hafa ekki öll fengið þá að­stoð sem þau þurfa til að vinna bug á van­líðan sinni. Þau sem hafa fengið ein­hverja að­stoð bíða jafn­vel enn eftir frekari að­stoð. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um 956 börn bíða á bið­lista eftir sál­fræði­að­stoð skóla­þjónustu og annarri hjálp hjá Skóla­þjónustu Reykja­víkur­borgar. Börn og ung­menni tala sjálf um skort á að­gengi að sál­fræðingum, þjónustu og ýmsum bjarg­ráðum þeim til að­stoðar og stuðnings.

Vegna heims­far­aldursins er ekki ó­senni­legt að ein­hver börn sofi verr, hafi minni matar­lyst og geti jafn­vel um fátt annað hugsað. Full­trúi Flokks fólksins hefur, á­samt mörgum öðrum, á­hyggjur af því að börn þrói með sér t.d. sýkla- og sjúk­dóma­hræðslu og hræðslu við dauðann um­fram það sem al­mennt gengur og gerist hjá börnum, því vissu­lega koma slík hræðslu­tíma­bil hjá hópi barna. Mörg börn eru orðin mjög með­vituð um sjálf sig og sína nánustu, passa sig að snerta helst ekki neitt og ef þau snerta eitt­hvað hafa þau á­hyggjur af smiti.

Full­trúi Flokks fólksins hyggst leggja til síðar við skóla- og vel­ferðar­yfir­völd borgarinnar að gefinn verði út leið­beininga­bæklingur til for­eldra, um hvernig best er að bregðast við þegar barn þeirra er gripið ótta sem rekja má til kórónu­veirufar­aldursins, á­hrifa hans og af leiðinga. Það er ekki sjálf­gefið að allir for­eldrar viti hvernig best er að bregðast við hræðslu barna sinna. Það er mikil­vægt að huga að öllum þáttum í þessu sam­bandi þegar börn eru annars vegar. Ef ekki tekst að hjálpa þeim börnum sem þurfa að létta á kvíða og á­hyggjum vegna CO­VID-19 er hætta á að hann grafi sig enn dýpra með al­var­legri af­leiðingum.

Kolbrún Bladursdóttir

Deila