Biskup skemmtir skrattanum

Það er dapurt að sjá hvernig æðstu embættismenn þjóðkirkjunnar, með biskupinn sjálfan í broddi fylkingar ala á upplausn og sundrungu trúbræðra sinna og systra. Seint hefði ég trúað því að ég ætti eftir að sjá frelsarann Jesú Krist með varalit, kinnalit og brjóst. Sjálf þjóðkirkjan sem hefur blásið til auglýsingaherferðar þar sem sú mynd sem dregin er upp af frelsaranum særir og hryggir marga þá sem trúa í einlægni á hann.

            Jesú breiddi út faðminn og elskaði alla jafnt.  Samtímaheimildir eru til um hann. Þess vegna er undarlegt að því skuli jafnvel fleygt fram að Jesú sé hugarburður og hafi aldrei verið til.  Það var hann, alveg eins og heimspekingarnir Platon og Sókrates, sem þó voru upp mörgum öldum fyrir Krists burð, og speki þeirra enn í dag kennd við alla virtustu háskóla heims.

Að staða kirkjunnar sé orðin svo veikburða að biskupinn sjálfur samþykki að ráðast í auglýsingarherferð fyrir kirkjuna sem byggir á skopmynd af Jesú, er ólýsanlegt með öllu.  Við sem trúum á Guð, vitum að Jesú er sonur hans. Mér var kennt að virða kristna trú, virða kirkjur og trúartákn, virða presta og annað starfsfólk kirkjunnar og að ég ætti að hegða mér í samræmi við kærleiksboðskap kristinnar trúar.

Mér finnst eins og Þjóðkirkjan sé að reyna að þvinga upp á mig þeirri sýn að Jesú Kristur hafi verið „allskonar“. Fallist ég ekki á slíkt þá hljóti ég að vera vond manneskja sem skilji ekki inntak kærleikans. Það sem hér er á ferð er innræting sem hefur ekkert með kristna trú að gera. 

            Ég horfi á þessa nýjustu áróðursteikningu Þjóðkirkjunnar og velti fyrir mér hvílíkt dómgreindarleysi hljóti að ráða för hjá biskupi Íslands og starfsfólki Biskupsstofu. Boðun kirkjunnar á að vera almenn, ekki sértæk. Til hvers þarf að ráðast að trúarvitund fólks með þessum hætti og um leið brjóta niður þá ímynd sem Jesú Kristur hefur haft í hugum flestra þeirra sem telja sig kristinnar trúar? Hvaða markmið og tilgangur er hér að baki? Hvernig á það að þjóna kristni að efna til ófriðar og illdeilna sem hér er gert? Hér er biskup einungis að færa óvinum kirkjunnar vopn í hendur. Hún er að skemmta skrattanum.

            Mér finnst þetta rangt og lái mér hver sem vill.  

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila