Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, sagði nýverið í Morgunblaðinu að til greina kæmi að „endurvekja bankaskattinn“. Þessi yfirlýsing Lilju kom fulltrúum Flokks fólksins verulega á óvart, þar sem stutt er síðan við lögðum fram tillögu á þingi um einmitt þetta mál, að hækka bankaskattinn.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, lagði slíka tillögu fram rétt fyrir jól. Á þeim tíma var þegar orðið ljóst að bankarnir myndu hagnast gríðarlega. Hagnaður þriggja stærstu bankanna var 81,3 milljarðar króna á starfsárinu 2021. Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað þeim árangri sem ríkisstjórnin lofaði, þ.e. að vaxtamunur myndi lækka skarpt. Þetta hefur alls ekki gengið eftir. Flokkur fólksins lagði einnig fram breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022 um að gjald á bankastarfsemi myndi hækka. Atkvæði þingmanna um þessi mál féllu á sama veg í báðum tilvikum. Stjórnarflokkarnir og Viðreisn sögðu nei, Miðflokkur, Píratar og Samfylking sátu hjá eða voru fjarverandi, Flokkur fólksins sagði einn já. Lilja Alfreðsdóttir greiddi atkvæði gegn báðum tillögunum!
Haustið 2019 kynnti Bjarni Benediktsson frumvarp um að lækka bankaskattinn og fylgdi því eftir með skrifum um að ríkisstjórnin vildi algjörlega eyða þessum skatti. Aðgerðir sem rýra tekjur ríkissjóðs um marga milljarða króna á ári. Með yfirlýsingu Lilju Alfreðsdóttur veltir maður fyrir sér hvort hér sé um að ræða algjöra stefnubreytingu meirihlutans á Alþingi. Hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur séð ljósið, eða er þetta enn ein innantóma blekkingin?
Pólitískur leikþáttur
Þegar fjölmiðlar spurðu forsætisráðherrann um þessi mál, kom hún af fjöllum. „Hún (Lilja Alfreðsdóttir) hefur aldrei nefnt það svo ég viti,“ sagði Katrín. Enginn annar þingmaður ríkisstjórnarinnar hefur opinberlega tjáð sig um þessa hugmynd Lilju. Þvert á móti hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks verið alfarið á móti bankaskatti og vilja afnema hann með öllu. Það liggur í augum uppi að ríkisstjórnin styður ekki yfirlýsingar Lilju. Hún lét þessi orð falla án alvöruvilja eða getu til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Hér erum við vitni að skólabókardæmi um af hverju Alþingi hefur glatað trausti almennings. Innantóm orð, blekkingar, pólitískar spilaborgir og óheiðarleiki. Ég segi bara eins og ég hef áður sagt: „Hvurs lags eiginlega froðuflóð er það sem flæðir hér um allar koppagrundir?“