Blekkingaleikurinn heldur áfram

Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, sem sit­ur í ráðherra­nefnd um efna­hags­mál, sagði ný­verið í Morg­un­blaðinu að til greina kæmi að „end­ur­vekja banka­skatt­inn“. Þessi yf­ir­lýs­ing Lilju kom full­trú­um Flokks fólks­ins veru­lega á óvart, þar sem stutt er síðan við lögðum fram til­lögu á þingi um ein­mitt þetta mál, að hækka banka­skatt­inn.

Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir, þingmaður Flokks fólks­ins, lagði slíka til­lögu fram rétt fyr­ir jól. Á þeim tíma var þegar orðið ljóst að bank­arn­ir myndu hagn­ast gríðarlega. Hagnaður þriggja stærstu bank­anna var 81,3 millj­arðar króna á starfs­ár­inu 2021. Lækk­un banka­skatts hef­ur ekki skilað þeim ár­angri sem rík­is­stjórn­in lofaði, þ.e. að vaxtamun­ur myndi lækka skarpt. Þetta hef­ur alls ekki gengið eft­ir. Flokk­ur fólks­ins lagði einnig fram breyt­ing­ar­til­lögu við frum­varp til fjár­laga fyr­ir árið 2022 um að gjald á banka­starf­semi myndi hækka. At­kvæði þing­manna um þessi mál féllu á sama veg í báðum til­vik­um. Stjórn­ar­flokk­arn­ir og Viðreisn sögðu nei, Miðflokk­ur, Pírat­ar og Sam­fylk­ing sátu hjá eða voru fjar­ver­andi, Flokk­ur fólks­ins sagði einn já. Lilja Al­freðsdótt­ir greiddi at­kvæði gegn báðum til­lög­un­um!

Haustið 2019 kynnti Bjarni Bene­dikts­son frum­varp um að lækka banka­skatt­inn og fylgdi því eft­ir með skrif­um um að rík­is­stjórn­in vildi al­gjör­lega eyða þess­um skatti. Aðgerðir sem rýra tekj­ur rík­is­sjóðs um marga millj­arða króna á ári. Með yf­ir­lýs­ingu Lilju Al­freðsdótt­ur velt­ir maður fyr­ir sér hvort hér sé um að ræða al­gjöra stefnu­breyt­ingu meiri­hlut­ans á Alþingi. Hef­ur rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur séð ljósið, eða er þetta enn ein inn­an­tóma blekk­ing­in?

Póli­tísk­ur leikþátt­ur

Þegar fjöl­miðlar spurðu for­sæt­is­ráðherr­ann um þessi mál, kom hún af fjöll­um. „Hún (Lilja Al­freðsdótt­ir) hef­ur aldrei nefnt það svo ég viti,“ sagði Katrín. Eng­inn ann­ar þingmaður rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur op­in­ber­lega tjáð sig um þessa hug­mynd Lilju. Þvert á móti hafa full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks verið al­farið á móti banka­skatti og vilja af­nema hann með öllu. Það ligg­ur í aug­um uppi að rík­is­stjórn­in styður ekki yf­ir­lýs­ing­ar Lilju. Hún lét þessi orð falla án al­vöru­vilja eða getu til þess að hrinda mál­inu í fram­kvæmd. Hér erum við vitni að skóla­bók­ar­dæmi um af hverju Alþingi hef­ur glatað trausti al­menn­ings. Inn­an­tóm orð, blekk­ing­ar, póli­tísk­ar spila­borg­ir og óheiðarleiki. Ég segi bara eins og ég hef áður sagt: „Hvurs lags eig­in­lega froðuflóð er það sem flæðir hér um all­ar koppa­grund­ir?“

Deila