Blóðbaðið hafið á ný

Haldinn var opinn fundur Atvinnuveganefndar Alþingis um málið þann 23. Júní sl.
Það sem mér þótti athyglisverðast á fundinum var hvað ráðherrann var skýr í afstöðu sinni með dýravelferð. Hún ítrekaði að dýrin héldu enga baráttufundi og að hún væri talsmaður þeirra. Hún margvísaði í lög um velferð dýra þar sem fram kemur m.a að það sé brot á lögum um dýravelferð ef dýrin eru haldin ótta og þjáningu.

Ég hef lengi barist gegn dýraníðinu blóðmerahaldi og því spurði ég Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á fundi Atvinnuveganefndar, í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir ákvað að banna hvalveiðar með engum fyrirvara, hvort hún ætlaði að taka utan um velferð allra dýra eða bara sumra? Svar ráðherrans var skýrt og engin leið að misskilja „Takk, mér er ljúft að svara því, velferð allra dýra er á mínu borði“ svaraði ráðherrann.

Ég hef ítrekað mælt fyrir frumvarpi um bann við blóðmerahaldi en ráðherrann hefur í engu skipt sér af málinu nema framlengja blóðbaðið um þrjú ár og heimila þreföldun á þeim fjölda hryssna sem má misþyrma. Það er dapurt að verða vitni að því að Svandísi Svavarsdóttur standi raunverulega á sama um það ofbeldi og allar þær þjáningar sem lagt er á fylfullar villtar hryssur. Enn eitt árið skal níðast á þeim á skelfilegan hátt þar sem engum blöðum er um það að fletta að lög um dýravelferð eru brotin. MAST segir að það sé svo sem ekkert tiltökumál þótt einhverjar hryssur drepist við aðfarirnar, finnist dauðar úti í haga og hafi blætt út, ja eða að sá sem tók úr þeim blóð hafi ekki alveg kunnað til verka þannig að hryssan hafi drepist vegna þess. Hvurs lags öfugmæli og hræsni er það að segjast vera málsvari dýra og hafa lög um dýravelferð að leiðarljósi á sama tíma og þessi iðja fær að viðgangast átölulaust?

Engin þjóð í Evrópu stundar þessa viðurstyggilegu iðju nema örfáir íslenskir bændur fyrir ÍSTEKA, fyrirtækið sem framleiðir hormón úr blóði fylfullra hryssna til frekara dýraníðs þar sem sérstaklega er verið að vinna að aukinni svínakjötsframleiðslu. Þrjú lönd í heiminum ganga svona viðurstyggilega fram gegn fylfullum hryssum.  Ísland, Argentína og Úrúgvæ. Ísland undir verndarvæng matvælaráðherrans Svandísar Svavarsdóttur (VG) sem segist málsvari allra dýra, ráðherrans sem segist byggja ákvarðanir sínar á lögum um dýravelferð.
Hvar ertu nú Svandís Svavarsdóttir þegar lög um dýravelferð eru mölbrotin? Víst er að hryssurnar halda ekki mótmælafundi og þurfa því á málsvara sínum að halda sem að eigin sögn ert þú!

Inga Sæland alþingismaður og formaður Flokks fólksins

Deila