“Hvað varðar velferð, tel ég sem hestafræðingur, að með réttri aðkomu við hrossin sé líf blóðmera einna besta lífið fyrir hross“. Þetta segir bóndi á Suðurlandi í umsögn við frumvarp mitt þar sem lagt er til að blóðmerahald verði bannað. Annar telur engin raunsönn dæmi eða gögn liggja fyrir um að hryssurnar verði óhjákvæmilega fyrir ofbeldi, illri meðferð, misþyrmingum og dýraníði við blóðtökuna.
Það er með hreinum ólíkindum að lesa slíkar yfirlýsingar. Þeir bændur sem telja sig til blóðmerabænda réttlæta þennan gjörning á fylfullum hryssum og sjá ekkert athugavert við hann. Hins vegar hafa vel á annað hundrað bændur haft samband við mig, þakkað mér fyrir að berjast gegn þessu dýraníði sem sé okkur til ævarandi minnkunar. Ég velti því fyrir mér hvort fólk átti sig á því sem raunverulega á sér stað við blóðtöku á fylfullri ótemju. Bóndi nokkur spurði mig t.d. hvort ég gerði mér grein fyrir því hvernig þyrfti að lemja, berja og misþyrma ótemju til að koma henni inn í þetta spítnarusl sem kallast blóðtökubás.
Allt þetta til að ná í vaxtarhormón sem hryssurnar framleiða á fyrstu stigum meðgöngunnar fyrir folaldið sitt svo það geti dafnað eðlilega, sem það gerir að sjálfsögðu ekki. Blóðið er sogið úr þeim fyrir líftæknifyrirtækið Ísteka sem býr til frjósemislyf fyrir gyltur. Sem sagt meira svínakjöt fyrir neytendur með öllu því dýraníði sem því fylgir, meira beikon.
Með réttu hefur blóðmerahald sætt mikilli gagnrýni eftir myndskeið þýskra dýraverndunarsamtaka sem birtist í lok nóvember. Í framhaldinu rifti líftæknifyrirtækið Ísteka samningi sínum við tvo blóðmerabændur en um 119 bændur hafa verið í samstarfi við fyrirtækið. Þetta er í það minnsta matreitt ofan í okkur á þennan hátt. Ég hef hins vegar heyrt að uppsögnin við þessa bændur sé einungis í orði en langt frá því að vera á borði. Einn umsvifamesti blóðmerabóndi Ísteka einungis skipt um kennitölu til að halda iðjunni hindrunarlaust áfram?
Í sex ár hefur Íslandsstofa staðið fyrir markaðsátaki íslenska hestsins. Árangurinn orðinn augljós og hvert Íslandsmetið á fætur öðru verið slegið í ræktun og útflutningi á íslenska hestinum. Hundruð hafa atvinnu vegna þessa. Talið er að hátt í 10% allra ferðamanna sem sækja okkur heim séu gagngert að koma til að heimsækja og fá að kynnast betur hestinum okkar sem er dáður og elskaður úti um alla Evrópu og þótt víða væri leitað.
Ég vil trúa því að sitjandi alþingismenn séu ekki einungis gegnumheilt dýravinir heldur vilji vernda þá hagsmuni sem við erum að stefna í voða ef við stöðvum ekki þessa iðju strax.