Blóðugar blekkingar

“Hvað varðar vel­ferð, tel ég sem hesta­fræðing­ur, að með réttri aðkomu við hross­in sé líf blóðmera einna besta lífið fyr­ir hross“. Þetta seg­ir bóndi á Suður­landi í um­sögn við frum­varp mitt þar sem lagt er til að blóðmera­hald verði bannað. Ann­ar tel­ur eng­in raun­sönn dæmi eða gögn liggja fyr­ir um að hryss­urn­ar verði óhjá­kvæmi­lega fyr­ir of­beldi, illri meðferð, misþyrm­ing­um og dýr­aníði við blóðtök­una.

Það er með hrein­um ólík­ind­um að lesa slík­ar yf­ir­lýs­ing­ar. Þeir bænd­ur sem telja sig til blóðmera­bænda rétt­læta þenn­an gjörn­ing á fylfull­um hryss­um og sjá ekk­ert at­huga­vert við hann. Hins veg­ar hafa vel á annað hundrað bænd­ur haft sam­band við mig, þakkað mér fyr­ir að berj­ast gegn þessu dýr­aníði sem sé okk­ur til ævar­andi minnk­un­ar. Ég velti því fyr­ir mér hvort fólk átti sig á því sem raun­veru­lega á sér stað við blóðtöku á fylfullri ótemju. Bóndi nokk­ur spurði mig t.d. hvort ég gerði mér grein fyr­ir því hvernig þyrfti að lemja, berja og misþyrma ótemju til að koma henni inn í þetta spít­narusl sem kall­ast blóðtöku­bás.

Allt þetta til að ná í vaxt­ar­horm­ón sem hryss­urn­ar fram­leiða á fyrstu stig­um meðgöng­unn­ar fyr­ir fol­aldið sitt svo það geti dafnað eðli­lega, sem það ger­ir að sjálf­sögðu ekki. Blóðið er sogið úr þeim fyr­ir líf­tæknifyr­ir­tækið Ísteka sem býr til frjó­sem­is­lyf fyr­ir gylt­ur. Sem sagt meira svína­kjöt fyr­ir neyt­end­ur með öllu því dýr­aníði sem því fylg­ir, meira bei­kon.

Með réttu hef­ur blóðmera­hald sætt mik­illi gagn­rýni eft­ir mynd­skeið þýskra dýra­vernd­un­ar­sam­taka sem birt­ist í lok nóv­em­ber. Í fram­hald­inu rifti líf­tæknifyr­ir­tækið Ísteka samn­ingi sín­um við tvo blóðmera­bænd­ur en um 119 bænd­ur hafa verið í sam­starfi við fyr­ir­tækið. Þetta er í það minnsta mat­reitt ofan í okk­ur á þenn­an hátt. Ég hef hins veg­ar heyrt að upp­sögn­in við þessa bænd­ur sé ein­ung­is í orði en langt frá því að vera á borði. Einn um­svifa­mesti blóðmera­bóndi Ísteka ein­ung­is skipt um kenni­tölu til að halda iðjunni hindr­un­ar­laust áfram?

Í sex ár hef­ur Íslands­stofa staðið fyr­ir markaðsátaki ís­lenska hests­ins. Árang­ur­inn orðinn aug­ljós og hvert Íslands­metið á fæt­ur öðru verið slegið í rækt­un og út­flutn­ingi á ís­lenska hest­in­um. Hundruð hafa at­vinnu vegna þessa. Talið er að hátt í 10% allra ferðamanna sem sækja okk­ur heim séu gagn­gert að koma til að heim­sækja og fá að kynn­ast bet­ur hest­in­um okk­ar sem er dáður og elskaður úti um alla Evr­ópu og þótt víða væri leitað.

Ég vil trúa því að sitj­andi alþing­is­menn séu ekki ein­ung­is gegn­um­heilt dýra­vin­ir held­ur vilji vernda þá hags­muni sem við erum að stefna í voða ef við stöðvum ekki þessa iðju strax.

Deila