Niðurstöður starfshóps um blóðmerahald eru þær sem vænta mátti. Erfiðri ákvarðanatöku var frestað um hálft ár og málið sett í starfshóp. Nú er ráðherra Vinstri-grænna búinn að gefa það út að hún muni leyfa blóðtöku fylfullra mera næstu þrjú árin hið minnsta. Þetta gerir Svandís í trássi við skýran vilja þjóðarinnar, vitandi vel að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hefur andstyggð á slíku dýraníði.
Ljóst lá fyrir, allt frá skipan starfshópsins, að ekki yrði lagt til að blóðmerahald yrði bannað. Það er gömul saga og ný að erfið pólitísk mál eru iðulega starfshópavædd og þannig geta stjórnmálamenn varpað ábyrgðinni annað.
Áhugavert er engu að síður að starfshópurinn telur frekari rannsókna þörf til að ganga úr skugga um hver áhrif blóðtökunnar eru á heilsu og líðan fylfullra mera og afkvæma þeirra. Þá er það einnig niðurstaða starfshópsins að bann við blóðmerahaldi með lögum stangist ekki á við stjórnarskrána.
Í Evrópulöggjöf er ekki fullyrt um bann við blóðmerarhaldi en þó segir að meginregluna hvað þetta varðar sé að finna í 4. og 5. gr. tilskipunar ESB um vernd dýra, sem notuð eru í vísindaskyni. Sú meginregla gildi að einungis megi gera tilraunir á dýrum ef engin önnur leið er í boði. Nú vill svo til að unnt er að framleiða frjósemislyf fyrir dýr án þess að nota til þess blóð fylfullra mera. Því er ljóst að það gengur gegn Evrópulöggjöf að leyfa blóðmerahald.
Að hugsa sér! Ekkert mál seinni ára hefur fengið annan eins fjölda umsagna og blóðmeramálið. 137 umsagnir bárust til atvinnuveganefndar sem sannanlega sýndi það í verki að aldrei stóð til annað en að svæfa málið í nefndinni og koma í veg fyrir það með öllum ráðum að lýðræðislegur vilji kjörinna fulltrúa á Alþingi næði fram að ganga. Þegar jafn stór hluti kjósenda er andvígur blóðmerahaldi og raun ber vitni, þá eiga kjósendur rétt á því að vita hverjir leggja blessun sína yfir þessa fordæmalausu meðferð á íslenskum fylfullum hryssum.
Víst er að andófi gegn þessari mannvonsku er hvergi nærri lokið, hvorki á Alþingi né meðal þjóðarinnar. Aldrei, á neinum tímapunkti, munum við í Flokki fólksins gefast upp í baráttunni gegn blóðmerahaldi. Við munum leggja fram frumvarp á hverju einasta löggjafarþingi þar til blóðmerahald verður bannað með öllu.