Blóðugt dýraníð áfram í boði Svandísar

Niður­stöður starfs­hóps um blóðmera­hald eru þær sem vænta mátti. Erfiðri ákv­arðana­töku var frestað um hálft ár og málið sett í starfs­hóp. Nú er ráðherra Vinstri-grænna bú­inn að gefa það út að hún muni leyfa blóðtöku fylfullra mera næstu þrjú árin hið minnsta. Þetta ger­ir Svandís í trássi við skýr­an vilja þjóðar­inn­ar, vit­andi vel að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti lands­manna hef­ur and­styggð á slíku dýr­aníði.

Ljóst lá fyr­ir, allt frá skip­an starfs­hóps­ins, að ekki yrði lagt til að blóðmera­hald yrði bannað. Það er göm­ul saga og ný að erfið póli­tísk mál eru iðulega starfs­hópa­vædd og þannig geta stjórn­mála­menn varpað ábyrgðinni annað.

Áhuga­vert er engu að síður að starfs­hóp­ur­inn tel­ur frek­ari rann­sókna þörf til að ganga úr skugga um hver áhrif blóðtök­unn­ar eru á heilsu og líðan fylfullra mera og af­kvæma þeirra. Þá er það einnig niðurstaða starfs­hóps­ins að bann við blóðmera­haldi með lög­um stang­ist ekki á við stjórn­ar­skrána.

Í Evr­ópu­lög­gjöf er ekki full­yrt um bann við blóðmer­ar­haldi en þó seg­ir að meg­in­regl­una hvað þetta varðar sé að finna í 4. og 5. gr. til­skip­un­ar ESB um vernd dýra, sem notuð eru í vís­inda­skyni. Sú meg­in­regla gildi að ein­ung­is megi gera til­raun­ir á dýr­um ef eng­in önn­ur leið er í boði. Nú vill svo til að unnt er að fram­leiða frjó­sem­is­lyf fyr­ir dýr án þess að nota til þess blóð fylfullra mera. Því er ljóst að það geng­ur gegn Evr­ópu­lög­gjöf að leyfa blóðmera­hald.

Að hugsa sér! Ekk­ert mál seinni ára hef­ur fengið ann­an eins fjölda um­sagna og blóðmera­málið. 137 um­sagn­ir bár­ust til at­vinnu­vega­nefnd­ar sem sann­an­lega sýndi það í verki að aldrei stóð til annað en að svæfa málið í nefnd­inni og koma í veg fyr­ir það með öll­um ráðum að lýðræðis­leg­ur vilji kjör­inna full­trúa á Alþingi næði fram að ganga. Þegar jafn stór hluti kjós­enda er and­víg­ur blóðmera­haldi og raun ber vitni, þá eiga kjós­end­ur rétt á því að vita hverj­ir leggja bless­un sína yfir þessa for­dæma­lausu meðferð á ís­lensk­um fylfull­um hryss­um.

Víst er að and­ófi gegn þess­ari mann­vonsku er hvergi nærri lokið, hvorki á Alþingi né meðal þjóðar­inn­ar. Aldrei, á nein­um tíma­punkti, mun­um við í Flokki fólks­ins gef­ast upp í bar­átt­unni gegn blóðmera­haldi. Við mun­um leggja fram frum­varp á hverju ein­asta lög­gjaf­arþingi þar til blóðmera­hald verður bannað með öllu.

Deila