Flokkur fólksins er tilbúinn fyrir þingstörfin. Strax á fyrsta degi þingsins skráði flokkurinn 50 þingmannamál. Þetta er bara upphafið af því sem koma skal á kjörtímabilinu. Flokkur fólksins mun berjast af öllu afli fyrir þá sem eiga bágt í samfélaginu, hvort heldur það eru menn eða málleysingjar. Eitt af forgangsmálum okkar nú í upphafi þings er að berjast gegn dýraníðinu sem felst í blóðmerahaldi. Þetta er í annað sinn sem Flokkur fólksins leggur fram frumvarp sem felur í sér bann við þessum illræmda búskap.
Ýmsar umsagnir bárust um málið síðasta vor þar sem allir þeir sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta börðust hatrammlega gegn frumvarpinu og létu í veðri vaka að alþingismennirnir að baki því vissu ekkert um hvað þeir væru að tala. Enda ekkert sem benti til þess að blóðmerahald ógnaði velferð dýra. Ísteka, sem framleiðir vörur úr blóði fylfullra mera, sagði í umsögn sinni að ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja velferð þeirra við blóðtöku. Þeir væru með sérstaka dýraverndarsamninga við hvern og einn bónda og sérstakan dýravelferðar- og gæðafulltrúa. Sér er nú hver dýravelferðin og hvert gæðaeftirlitið. Græðgin ein ræður hér ríkjum. Ekki velferð dýra. Í heimildarmynd Svissnesku dýravelferðarsamtakanna AWS um blóðmerahald á íslandi kemur berlega í ljós sú óafsakanlega og illa meðferð sem hryssurnar mega þola við blóðtökuna.
Ísteka nægir ekki að blóðsjúga 5.300 fylfullar merar, og tæma þær af vaxtarhormóninu sem eru folöldunum nauðsynleg. Þær eiga nú að vera 15.000 samkvæmt beiðni um nýtt starsleyfi Ísteka, en samkvæmt því á að taka 600.000 lítra af blóði árlega úr fylfullum merum, 5 lítrar úr hverri meri vikulega 8 vikur í röð.
Íslandsstofa hefur síðastliðin sex ár staðið að sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska hestinn á erlendri grundu. Markmiðið með átakinu er að auka verðmætasköpun sem byggir á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland. Það felst í því, að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem reiðhesturinn með góða geðslagið, sá sem færir fólk nær náttúrunni. Góður árangur hefur náðst og síðastliðin þrjú ár hefur hvert íslandsmetið í útflutningi á íslenska hestinum verið slegið á fætur öðru.
Ísland eyðir á ári hverju miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grund. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímynd og hefur verið fordæmt um heim allan. Ef ekki verður gripið til aðgerða gegn blóðmerahaldi tafarlaust mun orðspor og ímynd Íslands verða fyrir óafturkræfu tjóni.
Ljóst er að gildandi réttur er langt frá því að vernda fylfullar merar gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. Löggjafinn verður að grípa til aðgerða strax og banna með öllu blóðmerahald á Íslandi.