Bönnum þessa starfsemi Creditinfo

Aðgangur að lánsfjármagni hjálpar fólki úr klóm fátæktar. Að losna af leigumarkaði og komast í eigin fasteign gefur svigrúm til að safna höfuðstól. Í stað þess að greiða leigu greiðir fólk afborganir. Þær eru oft lægri en leigugreiðslur fyrir sambærilegt húsnæði.

Aðgangur að lánsfjármagni er þó ekki jafn greiður fyrir alla. Fólk þarf að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en bankar veita þeim lán. Iðulega fá einstaklingar ekki slíka fyrirgreiðslu vegna niðurstöðu lánshæfismats, þrátt fyrir góða greiðslugetu og með lán í skilum. Fólki er sagt að þriðji aðili hafi gefið þeim of lága einkunn og því geti bankinn ekki veitt þeim lán. Þetta getur gerst vegna þess að það hafi áður verið á vanskilaskrá.

Ótækt er að neytendur geti ekki fengið lán vegna þess að þeir hafi einhvern tímann lent á slíkri skrá. Margt getur legið þar að baki. Dæmi: Í hruninu hækkuðu skuldir heimilanna skyndilega nánast um helming. Eflaust lentu þá margir á vanskilaskrá án þess að reglulegar tekjur þeirra hefðu skerst. Annað eru hin hryllilegu smálán sem haldið er að þeim sem höllum fæti standa. Þar svífast lánaveitur einskis við að koma höggi á viðskiptavini sína sem lenda í greiðsluerfiðleikum og setja þá hiklaust á vanskilaskrá vegna lágra upphæða.

Vinnsla þriðja aðila á fjárhagsupplýsingum einstaklinga til að miðla upplýsingum til annarra fellur undir lög um persónuvernd. Þingmenn Flokks fólksins munu á næstu dögum leggja fram frumvarp á Alþingi um að slík vinnsla verði bönnuð. Creditinfo Lánstraust hf. er eina fyrirtækið sem hefur leyfi í dag til slíkrar starfsemi. Verði frumvarpið að lögum mun það þurfa að hætta þessu háttalagi. Fyrirtækið gæti ekki lengur miðlað upplýsingum úr vanskilaskrá eða eigin lánshæfismati. Þannig munu bankar einir uppfylla kröfur laga um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Neytendur geta þá treyst því að lánveitandi sjálfur leggi mat á lánshæfi þeirra í stað þess að byggt sé á persónunjósnagögnum óviðkomandi aðila sem byggja á Völvuspá um það hvort viðkomandi sé líklegur til að lenda í vanskilum í framtíðinni.

Við leggjum líka til að lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán verði breytt og tekin af öll tvímæli um það að við gerð lánshæfismats megi ekki líta til upplýsinga um vanskil ef búið er að afskrá meint vanskil úr vanskilaskrám.

Með þessum lagabreytingum mun þeim tilfellum fækka þar sem neytendum er vísað á dyr lánastofnana vegna niðurstöðu lánshæfismats sem byggir á spálíkani sem oftar en ekki gefur kolranga mynd af núverandi fjárhagsstöðu viðkomandi. Það er löngu orðið tímabært að löggjafinn stoppi þessa starfsemi af með öllu og setji ábyrgðina beint og milliliðalaust til lánveitandans sjálfs.

Deila