Þá er ljóst að nú á að flytja veiruna sem veldur Covid-19-sjúkdómnum aftur til landsins. Það á að opna landamærin að öllu óbreyttu 15. júní nk. Allt á að gera til að laða til okkar ferðamenn. Sú góða frelsistilfinning sem við höfum fengið að njóta í skamman tíma er ekki eitthvað sem við getum tekið sem sjálfsagðan hlut.
Þetta gerist þótt slakað sé á varðandi samkomubann og fjöldatakmarkanir og við eigum sjálfval um tveggja metra fjarlægðarregluna. Þrátt fyrir að við höfum öll lagst á árarnar í aðdáunarverðri samstöðu í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar ætla sjórnvöld að taka áhættuna á því að við lendum aftur á byrjunarreit.
Rétti tíminn?
Það er ekkert óeðlilegt við að teiknaðar séu allar hugsanlegar sviðsmyndir af því hvenær mögulega sé rétti tíminn til að opna fyrir flæði ferðamanna á ný. Við erum augljóslega að fara í gegnum mikla og djúpa efnahagslægð. Óvissustigið er algert og erfitt að spá um nokkurn hlut. Eitt er þó hafið yfir allan vafa: Veiran finnst varla í landinu lengur. Við höfum náð þakkarverðum árangri í baráttunni gegn þessum óútreiknanlega banvæna djöfli sem er að setja alla heimsbyggðina á hliðina; – hefur sýkt hátt í sex milljónir manna og drepið um 360 þúsund.
Ef
Hvað ef við hefðum gripið til róttækra aðgerða tveimur til þremur vikum fyrr og tekið mark á þeim hörmungum sem aðrar þjóðir voru þegar að ganga í gegnum varðandi faraldurinn? Jú, það hefði botnfrosið í ferðamannaiðnaðinum og afleiddum störfum út frá honum. Annað hefði gengið sinn vanagang hér heima. Stjórnvöld hefðu gripið til efnahagsbjörgunaraðgerða. En þær hefðu kostað íslenska skattgreiðendur tugum milljarða minna. Við hefðum ekki þurft að loka neinu. Eldri borgarar á hjúkrunarheimilum og elliheimilum hefðu ekki þurft að vera einangraðir frá ástvinum sínum. Við værum ekki að greiða fúlgur fjár í óteljandi björgunaraðgerðir til að reyna að halda fyrirtækjum á floti sem ekki hefðu þurft að skerða þjónustu sína við okkur á nokkurn hátt.
Nú er nóg komið
Það á þó ekki einungis að opna landið fyrir ferðamönnum eftir rúman hálfan mánuð með allri þeirri áhættu sem því fylgir. Samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar eiga íslenskir skattgreiðendur líka að greiða fyrir skimun á Covid fyrir þá alla. Kostnaður er áætlaður allt að 50.000 krónur fyrir hverja sýnatöku.
Flokkur fólksins er skýr í sinni afstöðu. Ef landið skal opnað fyrir ferðamönnum þá skulu þeir greiða fyrir komu sína sjálfir hvort sem rætt er um sýnatöku, sóttkví eða annað uppihald. Gengi krónunnar er þeim mörgum verulega hagstætt nú. Íslenskir skattpíndir skattgreiðendur hafa fengið meira en nóg.