Oddviti Flokks fólksins gagnrýnir borgaryfirvöld fyrir að verja miklu fjármagni í verkefni á borð við skreytingar á torgum frekar en að skera á biðlista eftir skólasálfræðingum og talmeinafræðingum. Tæplega 2000 börn bíði eftir slíkri þjónustu. Flokkurinn heitir því að útrýma löngum biðlistum hjá borginni.
„Sjáðu bara sértækt húsnæði. Þar bíða 130 manns eftir að fá íbúð. Það er félagslegt húsnæði þar sem enn er mjög langur biðlisti. Það er bara biðlisti barna til talmeinafræðinga og skólasálfræðinga, þar eru um 1900 börn sem bíða núna og fyrir fjórum árum var þessi listi 400 börn,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins.
Flokkur fólksins hefur kynnt helstu stefnumál sín fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, undir yfirskriftinni Fólkið fyrst – svo allt hitt. Flokkurinn telur að borgin hafi bruðlað með fjármuni sem hefðu annars getað stórbætt þjónustu og velferð fólks.
Og biðlistar eru efst á lista flokksins yfir helstu stefnumál en flokkurinn ætlar að útrýma þeim öllum. Þá verði aðgengi barna að tómstundastarfi tryggt og skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar til þeirra sem á þurfi að halda.
Einnig verði foreldrum sem hafa börn sín heima á aldrinum eins til allt að tveggja ára geiddur mánaðarleguir styrkur sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir hvert barn í leikskóla. Kolbrún segir að þetta sé vel gerlegt, það þurfi einfaldlega að forgangsraða betur.
„Það vantar ekkert pening í borgina, útsvarið hér er í hæstu hæðum og í toppi, við viljum fá eitthvað af fjármagni sem hefur verið að fara í skreytingar á torgum og fjárfrek verkefni til þess hreinlega að gera aðstæður barna leikskolabarna, grunnskólabarna, eldri borgara sem vilja jafnvel búa sem lengst heima hjá sér – viljum gera aðstæður þessa fólks almennilega og ekki bara eitthvað lágmarks heldur bara fullnægjandi.“
Grunnkrafan sé, líkt og segir í slagorði flokksins: Fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.
„Við erum að tala um fólk sem á ekki mat á diskinn sem er að fara til félagasamtaka til þess að fá að borða, af hverju er það þannig? Afhverju er ekki borgin að sjá um sitt fólk í borg eins og reykjav ík sem hefur í rauninni nóg af öllu,“ segir Kolbrún.