Borgin skipar fátækum í þrautargöngur

„Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur?  Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna,“ spyr Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Kolbrún hefur áhyggjur af því fólki sem á erfitt með að greiða allan þann kostnað sem fylgir að senda börn í skóla, ekki síst að greiða fyrir frístund barna sinna. Bogin styðst við reglur frá árinu 2013.

„Þar er gert ráð fyrir að „fram fari mat á aðstæðum hverju sinni í stað þess að tekjurnar einar og sér ráði gjaldi foreldra“.  Flokkur fólksins vill benda á að tengsl eru á milli tekna og aðstæðna. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Skóla- og frístundasvið á að hafa heildarmynd af hverri fjölskyldu til að afgreiðsla geti verið skilvirkari.“

Næst vekur Kolbrún athygli á þrautagöngunni, sem hún nefnir svo:

„Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri oft að bíða lengi eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metinn hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt sem gerir foreldri enn erfiðara fyrir að greiða skuldina. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpill frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða  áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur?  Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur.“

„Verklag skóla- og frístundasviðs í þessu tilliti er því til mikillar fyrirmyndar,“ segir meirihlutinn í borgarstjórninni. Þau segja: „Gjaldskrár í Reykjavík eru með því lægsta á öllu landinu hvort sem litið er til leikskóla eða frístundaheimila, þá eru systkinaafslættir ríflegir. Ef foreldrar eiga erfitt með að greiða fyrir þá þjónustu er leitast við að leysa þau mál með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Verklag skóla- og frístundasviðs í þessu tilliti er því til mikillar fyrirmyndar.“

Kolbrún var nú nóg boðið: „Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill árétta hér að enginn var að tala um gjaldskrá í þessu sambandi þ.e. að hún væri of há eða verið væri að bera gjaldskrá borgarinnar saman við önnur sveitarfélög. Ef fólk á erfitt með að greiða skuld sína fyrir þjónustu svo sem frístund bíður þeirra langur og tyrfinn vegur sbr. verklagsreglur um þriggja mánaða skuldaskjól. Ef meirihlutinn efast um þetta ætti hann bara að ræða við þennan hóp foreldra og heyra það beint frá þeim hver þeirra reynsla er.“

Frétt þessi birtist á Miðjunni: Tengill.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila