Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir börn áfengis- og vímuefnaneytenda eiga oft um sárt að binda, þetta þekkir hún sjálf sem barn alkóhólista. Hún segir mikilvægt að SÁÁ geti haldið áfram að bjóða börnum í slíkum aðstæðum upp á ráðgjöf og meðferð.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að til þess að SÁÁ geti sinnt vaxandi hlutverki sínu og unnið á sífellt lengri biðlistum þarf 165–200 milljónir króna aukalega. Minnihluti fjárlaganefndar hefur lagt það til að framlög til SÁÁ verði aukin um 150 milljónir. Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt til að Reykjavíkurborg auki fjárveitingar til SÁÁ um 140 milljónir króna.
Kolbrún segir í grein í Morgunblaðinu í dag að staða barna alkóhólista hafi verið enn verri þegar hún ólst upp á 7. og 8. áratugnum. „Fersk er í minni skömmin sem því fylgdi að eiga foreldri sem drakk ótæpilega. Enginn í nágrenninu eða í skólanum mátti frétta hver staðan var enda var þá vís stríðni, útskúfun og einelti. Börnin sem ólust upp í þögninni og skömminni í skugga alkóhólisma foreldris glíma mörg við vanmáttarkennd, sektarkennd og kvíða sem fylgir jafnvel ævilangt.“
Meðvirkni er sjúkdómur sem herjar á aðstandendur alkóhólista, Kolbrún, sem er sálfræðingur, segir að það einkenni meðvirki sé þörfin að láta allt líta vel út á yfirborðinu og þegja yfir hinum raunverulega vanda. „Að alast upp í aðstæðum sem einkennast af meðvirkni hefur skaðleg áhrif á manneskjuna. Hún missir hæfileikann til að greina og meta aðstæður og getur ekki brugðist við áreiti samkvæmt innstu sannfæringu. Fjölmörg börn áfengis- og vímuefnaneytenda koma út í lífið með erfiðar byrðar meðvirkni, sárra tilfinninga, brostinna vona og verst af öllu brotna sjálfsmynd.“
SÁÁ býður upp á þjónustu fyrir börn áfengis- og vímuefnaneytenda án tillits til þess hvort foreldrið hafi sjálft farið í meðferð. Kolbrún segir að slíkar forvarnir geti gert þeim kleift að lifa án kvíða, meðvirki og bjargað þeim frá hættunni að feta í sömu spor og foreldrið, slíkt geti jafnvel bjargað lífum. Þegar hún var í þessum aðstæðum hefði hún viljað getað talað við einhvern: „Ég var barn í þessum sporum og hef ég oft hugsað um hvað það hefði hjálpað mikið að hafa einhvern að tala við um þessi mál. Að tala um veika foreldrið, fræðast um sjúkdóminn, tala um meðvirknina allt um kring og um eigin líðan og vanlíðan. En í þá daga var eðli málsins samkvæmt engin slík aðstoð fyrir börn alkóhólista.“
Frétt þessi birtist á dv.is