Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var harðorður í dag á þingi þegar hann fjallaði um biðlista eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvanda á dag á þingi.
Hann kallaði eftir svörum frá heilbrigðisráðherra um hvernig eigi að skera niður biðlista og tryggja börnum rétta þjónustu.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði á þingi í dag að það væri ein af hennar megináherslum sem ráðherra að stuðla að jafnri geðheilbrigðisþjónustu um allt land og að efla Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.
Málshefjandi var Guðmundur Ingi og kom fram í máli hans kom fram að alls eru 1.193 börn á biðlista um allt land eftir annað hvort greiningu eða meðferð við geðrænum vanda. Flest þeirra bíða greiningar á Þroska- og hegðunarstöð, eða 584. Alls bíða 107 börn eftir greiningu á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), og níu eftir innlögn á deildina.
„Við erum að láta börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman,“ sagði Guðmundur Ingi.
Stærstur hluti innlagna bráðainnlagnir
Hann gagnrýndi langa biðlista og þann litla stuðning sem er í boði fyrir börn sem alast upp hjá foreldrum með geðrænan vanda, eða fíkni-, áfengis-, eða fjárhagsvanda.
„Álag á börn og fjöldi þeirra er oft og tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega og líkamlega og fjárhagslega og með því að útrýma biðlistum barna og unglinga er ríkið að framleiða öryrkja á færibandi núna og í náinni framtíð,“ sagði Guðmundur.
Hann sagði að í svari ráðherra til hans frá því í september hafi komið fram að stærstur hluti innlagna á BUGL væri bráðainnlagnir og spurði hvaða úrræði væru í boði fyrir þá foreldra og börn sem bíða þess að komast í úrræði á deildinni, oft í marga mánuði.
Tölur um bíðtíma gefi ekki góða mynd
Heilbrigðisráðherra svaraði Guðmundi og benti á að geðheilbrigðisvandi barna sé mismunandi og að ólíkar stéttir sjái um að veita þeim þjónustu. Hún sagði tölur um biðtíma gefi ekki heildarmynd af biðtíma barna, sum fari beint í forgang og önnur bíði lengur. Það fari eftir eðli mála. Hún sagði mikilvægt að halda því til haga að flest barnanna sem eru á biðlista eftir sérhæfðri greiningu séu þegar komin í einhvers konar úrræði á vegum skóla, heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi aðila og fá þannig aðstoð á meðan þau bíða.
Hún sagði þó æskilegt að bið eftir greiningu yrði stytt og að í ráðuneytinu væri nú unnið að því að finna leiðir til þess og þá sérstaklega hvernig megi stytta bið eftir ADHD-greiningu og meðferð.
Þá sagði hún að þegar mikið álag væri á bráðaþjónustu BUGL þá lengist biðtími þeirra sem eru á almennum biðlista. Biðtími sé allt frá einni viku til nokkurra mánaða en að öll þau börn sem eru á biðlista eftir innlögn séu í virkri þjónustu göngudeildarinnar. Þá sé BUGL einnig virkur þátttakandi í samráðsteymum heilsugæslunnar þar sem börnin hafa aðgang að margþættri þjónustu í nærumhverfi. Það séu alls nítján virk samráðsteymi, flest á höfuðborgarsvæði, en að einnig séu nokkur á landsbyggðinni.
Svandís sagði að það væri unnið að því í ráðuneyti hennar í samvinnu við ADHD-samtökin, Landspítalann og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að skoða nýtt og skilvirkara fyrirkomulag sérstaklega og greiningum og meðferð við ADHD. Hún sagði ekkert því til fyrirstöðu, nái það tilætluðum árangri, að nota það einnig við tilvísanir í aðrar greiningar og meðferð á öðrum geðröskunum barna.
Svandís sagði að lokum að hún væri algerlega sammála Guðmundi að það beri að forgangsraða í þágu geðheilsu og í þágu barna.
Geðheilbrigðiskerfið þurfi að vera undirbúið eftir COVID-19
Talsverð umræða fór síðan fram um málið og var meðal annars fjallað um þann mikla vanda sem gæti til dæmis safnast hjá fólki í COVID-19 og að geðheilbrigðiskerfið verði að vera undirbúið fyrir þann mikla fjölda sem gæti þurft að leita þangað að loknum heimsfaraldri, en undanfarnar vikur hefur verið tíðrætt um þann langtímavanda sem geti fylgt svokallaðri farsóttarþreytu.
Svandís sagði í lokaorðum sínum í umræðunni að það hefði alltaf verið stefna hennar að efla sálfræðiþjónustu um landið allt. Hún sagði sammála því að það væri mikilvægt að tryggja snemmtæka íhlutun og að það verði að tryggja að það sé ekki óhófleg bið á þriðja stigi þjónustunnar. Hún sagði frá því að það væru 540 milljónir í fjárlagafrumvarpi til að tryggja aðgengi fólks óháð búsetu.
Hún tók undir þær umræður sem komu fram hjá öðrum þingmönnum um að kerfin tali öll betur saman og að það þurfi að fara í úttekt á geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.