Börnin fyrst, svo allt hitt!

Mahat­ma Ghandi taldi að meta ætti sam­fé­lagið út frá því hvernig vald­haf­arn­ir koma fram við þjóðfé­lagsþegna sína, sér­stak­lega þá sem þurfa mest á hjálp þeirra að halda. Þetta er það leiðar­stef sem fylgt hef­ur Flokki fólks­ins frá upp­hafi. Hug­sjón­in sem ligg­ur að baki því að ég stofnaði okk­ar fal­lega flokk.

Í fyrra­dag kom út skýrsla frá UNICEF um geðheil­brigði barna og ung­menna í heim­in­um. Í skýrsl­unni kem­ur fram að eitt af hverj­um sjö börn­um á aldr­in­um 10-19 ára sé með greinda geðrösk­un. Þá leiðir skýrsl­an í ljós það sem marga hafði grunað, að heims­far­ald­ur­inn Covid-19 og af­leiðing­ar hans hafa haft virki­lega slæm áhrif á geðheilsu barna. Þau hafa mátt þola mikla rösk­un á námi og öllu fé­lags­starfi. Allt bend­ir til þess að þetta hafi veru­lega slæm áhrif á and­lega líðan, þroska þeirra og heilsu til lengri tíma. Því ætti hinn mikli vöxt­ur á þörf­inni fyr­ir geðheibrigðisþjón­ustu nú og á kom­andi árum ekki að koma nein­um á óvart. Það er börn­un­um okk­ar lífs­nauðsyn­legt að stjórn­völd tryggi þeim öll­um taf­ar­laust aðgengi að allri þeirri þjón­ustu sem þau þarfn­ast og það strax. Framtíð þeirra er í húfi.

Al­var­leg þróun

Því miður er það svo að und­an­far­in ár hafa börn­in okk­ar þurft að bíða eft­ir viðeig­andi lækn­isaðstoð. Staðan var slæm fyr­ir komu far­ald­urs­ins og ekki hef­ur hún batnað síðan. Lang­ir biðlist­ar eru eft­ir grein­ingu og þjón­ustu hjá Þroska- og hegðun­ar­stöðinni varðandi bráðainn­lagn­ir á barna- og ung­linga­geðdeild­ina BUGL ásamt skamm­ar­leg­um biðlist­um eft­ir sál­fræðiþjón­ustu hjá heilsu­gæsl­unni. Fyr­ir ári biðu 1.078 börn eft­ir þjón­ustu á þess­um stofn­un­um. Í skýrslu heil­brigðisráðherra um áhrif Covid-19 á biðlista í heil­brigðis­kerf­inu, sem unn­in var í kjöl­far skýrslu­beiðni Flokks fólks­ins, kom fram að fjölgað hefði á biðlist­um BUGL um 30% á milli ára. Meðalbiðtími barna eft­ir þjón­ustu á göngu­deild BUGL var 24 vik­ur. Þá fjölgaði bráðakom­um og bráðainn­lögn­um um 34% milli ára. Yf­ir­lækn­ir á BUGL hef­ur lýst yfir áhyggj­um vegna ástands­ins og sagt að börn­in séu nú veik­ari en áður þegar þau koma til meðferðar. Það vita all­ir sem vita vilja að ástandið hjá börn­un­um er grafal­var­legt.

Tök­um hönd­um sam­an!

Geðheil­brigðisþjón­usta er lífs­nauðsyn­leg heil­brigðisþjón­usta sem fel­ur í sér jafn sjálf­sögð mann­rétt­indi og hver önn­ur lækn­isþjón­usta. Það er þjóðarskömm að börn séu lát­in bíða heilu miss­er­in eft­ir lækn­is­hjálp.

UNICEF á Íslandi skor­ar á stjórn­mála­flokka að setja mál­efni barna í for­gang. Flokk­ur fólks­ins mun hér eft­ir sem hingað til berj­ast fyr­ir betra og rétt­lát­ara sam­fé­lagi fyr­ir okk­ur öll.

Ég skora á alla stjórn­mála­flokka að leggja sitt af mörk­um til að bæta geðheil­brigði barn­anna okk­ar. Það er póli­tísk ákvörðun að eyða biðlist­um og bæta stöðuna. Þetta eru allt mann­anna verk.

Deila