Mahatma Ghandi taldi að meta ætti samfélagið út frá því hvernig valdhafarnir koma fram við þjóðfélagsþegna sína, sérstaklega þá sem þurfa mest á hjálp þeirra að halda. Þetta er það leiðarstef sem fylgt hefur Flokki fólksins frá upphafi. Hugsjónin sem liggur að baki því að ég stofnaði okkar fallega flokk.
Í fyrradag kom út skýrsla frá UNICEF um geðheilbrigði barna og ungmenna í heiminum. Í skýrslunni kemur fram að eitt af hverjum sjö börnum á aldrinum 10-19 ára sé með greinda geðröskun. Þá leiðir skýrslan í ljós það sem marga hafði grunað, að heimsfaraldurinn Covid-19 og afleiðingar hans hafa haft virkilega slæm áhrif á geðheilsu barna. Þau hafa mátt þola mikla röskun á námi og öllu félagsstarfi. Allt bendir til þess að þetta hafi verulega slæm áhrif á andlega líðan, þroska þeirra og heilsu til lengri tíma. Því ætti hinn mikli vöxtur á þörfinni fyrir geðheibrigðisþjónustu nú og á komandi árum ekki að koma neinum á óvart. Það er börnunum okkar lífsnauðsynlegt að stjórnvöld tryggi þeim öllum tafarlaust aðgengi að allri þeirri þjónustu sem þau þarfnast og það strax. Framtíð þeirra er í húfi.
Alvarleg þróun
Því miður er það svo að undanfarin ár hafa börnin okkar þurft að bíða eftir viðeigandi læknisaðstoð. Staðan var slæm fyrir komu faraldursins og ekki hefur hún batnað síðan. Langir biðlistar eru eftir greiningu og þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöðinni varðandi bráðainnlagnir á barna- og unglingageðdeildina BUGL ásamt skammarlegum biðlistum eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslunni. Fyrir ári biðu 1.078 börn eftir þjónustu á þessum stofnunum. Í skýrslu heilbrigðisráðherra um áhrif Covid-19 á biðlista í heilbrigðiskerfinu, sem unnin var í kjölfar skýrslubeiðni Flokks fólksins, kom fram að fjölgað hefði á biðlistum BUGL um 30% á milli ára. Meðalbiðtími barna eftir þjónustu á göngudeild BUGL var 24 vikur. Þá fjölgaði bráðakomum og bráðainnlögnum um 34% milli ára. Yfirlæknir á BUGL hefur lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins og sagt að börnin séu nú veikari en áður þegar þau koma til meðferðar. Það vita allir sem vita vilja að ástandið hjá börnunum er grafalvarlegt.
Tökum höndum saman!
Geðheilbrigðisþjónusta er lífsnauðsynleg heilbrigðisþjónusta sem felur í sér jafn sjálfsögð mannréttindi og hver önnur læknisþjónusta. Það er þjóðarskömm að börn séu látin bíða heilu misserin eftir læknishjálp.
UNICEF á Íslandi skorar á stjórnmálaflokka að setja málefni barna í forgang. Flokkur fólksins mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir betra og réttlátara samfélagi fyrir okkur öll.
Ég skora á alla stjórnmálaflokka að leggja sitt af mörkum til að bæta geðheilbrigði barnanna okkar. Það er pólitísk ákvörðun að eyða biðlistum og bæta stöðuna. Þetta eru allt mannanna verk.