Undangengið kjörtímabil hefur enginn flokkur á Alþingi barist af eins mikilli einurð og afli fyrir auknum réttindum öryrkja og eldra fólks og Flokkur fólksins. Við höfum lagt fram tugi þingmála sem miða að því að bjarga almannatryggingaþegum úr fátæktargildrunni sem stjórnvöld hafa búið þeim.
Hugmyndir okkar um að draga úr skerðingum og auka hvata til atvinnuþátttöku hafa mætt mikilli andstöðu, sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum. Þeir mæltu gegn baráttumálum okkar í ræðu og riti og greiddu einnig atkvæði gegn þeim í þingsal.
Nú korteri í kosningar hefur Sjálfstæðisflokkurinn snarlega skipt um skoðun. Nú þykir þeim skynsamlegt að draga úr skerðingum í almannatryggingarkerfinu og hvetja til atvinnuþátttöku! Ég vona að kjósendur falli ekki fyrir þessu gamla útþynnta kosningabragði. Hver man ekki eftir bréfinu „góða“ sem formaður Sjálfstæðisflokksins sendi til allra eldri borgara skömmu fyrir þingkosningar 2013? Loforð um að hætta að skerða ellilífeyri vegna atvinnutekna hvarf um leið og atkvæðatalningu lauk.
Þeim hefði verið í lófa lagið að styðja frumvarp Flokks fólksins um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna, eða frumvarp Flokks fólksins um að efla atvinnuþátttöku öryrkja. En þeir gerðu það ekki. Þvert á móti fundu þeir því allt til foráttu.
Í Bítinu í gærmorgun heyrði ég í Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þar rómaði hann „nýjar“ hugmyndir flokks síns um nýtt lífeyriskerfi. Í hinu nýja kerfi myndi fólk sem hefði 100.000 kr. í lífeyristekjur fá lífeyristrygginu sem tryggði þeim t.d. 250.000 kr. á mánuði. Staðreyndin er þó sú að fólk með 100.000 kr. í lífeyristekjur fær í dag mun meira en 250.000 kr. á mánuði úr tryggingakerfinu. Svona vel þekkja sjálfstæðismenn velferðarkerfið sem þeir hafa að eigin sögn „staðið vörð um“. Nú skal sem sagt rammgera fátæktargildruna enn frekar með því að bjóða fátækasta fólkinu að lifa á 250.000 kr. á mánuði.
Í stjórnarmyndun má áfram gera ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji fría sig allri ábyrgð á félagsmálaráðuneytinu sem augljóslega er eitur í þeirra beinum. Úlfar í sauðargæru eru komnir á atkvæðaveiðar. Við vitum öll að raunveruleg stefna þeirra er að viðhalda kúgun og fátækt þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það hafa þeir alltaf gert.
Fleiri flokkar eru að reyna að herma eftir baráttumálum Flokks fólksins og vilja gera þau að sínum. Nú skal dregið úr skerðingum og fátæku fólki tryggð mannsæmandi lífskjör. Þessir flokkar eiga það flestir sameiginlegt að hafa setið í ríkisstjórn en ekkert gert þegar þeir höfðu getu til.
Flokkur fólksins mun ekki snúa baki við kjósendum sínum að kosningum loknum. Við lögðum fram fleiri þingmál um hagsmuni aldraðra og öryrkja en nokkur annar flokkur á síðasta kjörtímabili. Kæri kjósandi, ef þú vilt hjálpa okkur að brjóta múra og bæta kjörin þá seturðu x við F.
Inga Sæland