Engin orð fá lýst þeim harmleik sem átti sér stað þegar Bryndís Klara, ung stúlka sem átti framtíðina fyrir sér, lést á menningarnótt. Þetta er versta martröð allra foreldra. Foreldrar Bryndísar Klöru hafa þó sýnt ótrúlegan styrk og yfirvegun mitt í sorginni og jafnframt kallað eftir umræðu um það að við gerumst öll „riddarar kærleikans“, í þeirri von að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.
Um síðustu helgi svaraði amma gerandans þessu kalli og skrifaði átakanlega grein sem ég er viss um að snerti við fleirum en mér. Sú grein dregur fram hversu sársaukafullt er að vera aðstandandi drengsins sem framdi verknaðinn – á sama tíma og aðstandendur Bryndísar Klöru búa við missi sem engin orð ná að lýsa. Það er ljóst að ekkert okkar vill vera í sporum aðstandenda þessara barna.
Dagný Hængsdóttir Köhler gerir ekkert til að draga úr alvarleika þess sem ömmudrengurinn hennar gerði. Þegar hún lýsir lífssögu hans og uppeldi kemur skýrt fram að þessi drengur átti í raun aldrei möguleika. Það afsakar þó ekki gjörðir hans og sem betur fer fremja ekki öll börn sem búa við erfiðar aðstæður morð. En staðreyndin er engu að síður sú að börn sem verða fyrir miklum áföllum og annarri erfiðri lífsreynslu eru mun líklegri en önnur til að fremja afbrot, beita ofbeldi og lenda í neyslu.
Við sem samfélag verðum að gera betur. Við þurfum að sinna forvörnum um leið og vart verður við vandann, helst í samvinnu við fjölskyldur, sé það með nokkru móti mögulegt. Ömmudrengur Dagnýjar fékk í raun óumbeðna erfiðleika í vöggugjöf; hann átti að baki langa áfallasögu sem braut hann að lokum. Afleiðingarnar urðu skelfilegar og óafturkræfar.
Ég kynnti ríkisstjórninni stöðu barna með fjölþættan vanda í janúar síðastliðnum og mennta- og barnamálaráðuneytið hefur þegar kynnt nýja stefnu í samráðsgátt sem setur réttindi og farsæld barna í öndvegi. Börn hafa lengi verið látin sitja á hakanum, en þessi ríkisstjórn hefur einsett sér að breyta því og gera betur en forverar okkar.
Sem samfélag ber okkur að standa saman og verja velferð allra barna, sérstaklega þeirra sem búa við ótryggar aðstæður. Aðeins þannig getum við gefið þeim færi á betra lífi, okkur öllum til heilla.