Brotin börn sem „kerfið“ bregst

Eng­in orð fá lýst þeim harm­leik sem átti sér stað þegar Bryn­dís Klara, ung stúlka sem átti framtíðina fyr­ir sér, lést á menn­ing­arnótt. Þetta er versta mar­tröð allra for­eldra. For­eldr­ar Bryn­dís­ar Klöru hafa þó sýnt ótrú­leg­an styrk og yf­ir­veg­un mitt í sorg­inni og jafn­framt kallað eft­ir umræðu um það að við ger­umst öll „ridd­ar­ar kær­leik­ans“, í þeirri von að koma í veg fyr­ir að slíkt ger­ist aft­ur.

Um síðustu helgi svaraði amma ger­and­ans þessu kalli og skrifaði átak­an­lega grein sem ég er viss um að snerti við fleir­um en mér. Sú grein dreg­ur fram hversu sárs­auka­fullt er að vera aðstand­andi drengs­ins sem framdi verknaðinn – á sama tíma og aðstand­end­ur Bryn­dís­ar Klöru búa við missi sem eng­in orð ná að lýsa. Það er ljóst að ekk­ert okk­ar vill vera í spor­um aðstand­enda þess­ara barna.

Dagný Hængs­dótt­ir Köhler ger­ir ekk­ert til að draga úr al­var­leika þess sem ömmu­dreng­ur­inn henn­ar gerði. Þegar hún lýs­ir lífs­sögu hans og upp­eldi kem­ur skýrt fram að þessi dreng­ur átti í raun aldrei mögu­leika. Það af­sak­ar þó ekki gjörðir hans og sem bet­ur fer fremja ekki öll börn sem búa við erfiðar aðstæður morð. En staðreynd­in er engu að síður sú að börn sem verða fyr­ir mikl­um áföll­um og ann­arri erfiðri lífs­reynslu eru mun lík­legri en önn­ur til að fremja af­brot, beita of­beldi og lenda í neyslu.

Við sem sam­fé­lag verðum að gera bet­ur. Við þurf­um að sinna for­vörn­um um leið og vart verður við vand­ann, helst í sam­vinnu við fjöl­skyld­ur, sé það með nokkru móti mögu­legt. Ömmu­dreng­ur Dag­nýj­ar fékk í raun óum­beðna erfiðleika í vöggu­gjöf; hann átti að baki langa áfalla­sögu sem braut hann að lok­um. Af­leiðing­arn­ar urðu skelfi­leg­ar og óaft­ur­kræf­ar.

Ég kynnti rík­is­stjórn­inni stöðu barna með fjölþætt­an vanda í janú­ar síðastliðnum og mennta- og barna­málaráðuneytið hef­ur þegar kynnt nýja stefnu í sam­ráðsgátt sem set­ur rétt­indi og far­sæld barna í önd­vegi. Börn hafa lengi verið lát­in sitja á hak­an­um, en þessi rík­is­stjórn hef­ur ein­sett sér að breyta því og gera bet­ur en for­ver­ar okk­ar.

Sem sam­fé­lag ber okk­ur að standa sam­an og verja vel­ferð allra barna, sér­stak­lega þeirra sem búa við ótrygg­ar aðstæður. Aðeins þannig get­um við gefið þeim færi á betra lífi, okk­ur öll­um til heilla.

Deila