Um áramót er vert að líta um öxl en ekki síður að horfa fram á við til brýnna verkefna. Flokkur fólksins berst fyrir bætum lífsskilyrðum hinna verst settu og þeirra sem standa höllum fæti. Mörgum börnum, eldri borgurum og öryrkjum líður alls ekki nógu vel. Enginn ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunnþörfum í okkar gjöfula landi og góðu borg en sú er því miður raunin.
Fátækt er staðreynd
Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður.
Talið er að einstæðir foreldrar, öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk þar sem fyrirvinnan er ein, búi við fátækt eða hættu á að falla í fátæktargildruna. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251. Þar af er talið að 2.465 börn einstæðra foreldra búi við fátækt eða séu nærri fátæktarmörkum
Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt kemur fram að um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Í skýrslunni er bent á að auka þurfi jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi, svo að dæmi séu nefnd.
Húsnæðisaðstæður margra barna eru ótryggar. Húsaleiga er oft stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar og nær jafnvel allt að 70% af ráðstöfunartekjum. Þetta leiðir til þess að fátækir foreldrar leita mögulega skjóls í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel hættulegt. Og húsaleiga fer því miður hækkandi.
Þótt þessi mynd sé dregin fram hér vitum við að í borginni er líka fólk sem líður vel og hefur það gott Á mörgum sviðum samfélagsins er verið að gera góða hluti.
Flokkur fólksins vill að gripið verði til sértækra og markvissra aðgerða í þágu barna bágstaddra. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett og félagslega útskúfuð. Til þess þarf skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. kveðið á um hvernig uppræta eigi vítahring fátæktar, þannig að öll börn fái notið þjónustu til að rækta hæfileika sína. Þetta er verkefni borgarstjórnar og Alþingis.
Langir biðlistar rótgróið mein í Reykjavík
Áhersla þessa borgarstjórnarmeirihluta og síðasta hefur snúist um annað en grunnþarfir fólks. Biðlistar eru rótgróið mein og nú í sögulegu hámarki. Áhrif og afleiðingar COVID-19 bætast þar ofan á. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu foreldra og barna. Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa aukist um 20% til 23%. Þetta er hættuleg þróun.
Við þessu hefur ekki verið brugðist nægilega markvisst. Borgarkerfið hefur þanist út og ótrúlegur fjöldi nýráðninga er hjá borginni en því miður ekki á velferðarsviði eða skóla- og frístundasviði. Á sviðum sem sinna grunnþjónustu er mannekla í mörg störf, t.d. í leikskóla, frístundaheimili og í heimaþjónustu. Þetta eru álagsstörf og illa launuð. Meirihlutanum hefur ekki tekist að leysa þetta vandamál.
Langir biðlistar eru í alla þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar. Samkvæmt tölfræðivef borgarinnar biðu í desember 1.680 börn eftir þjónustu fagfólks í Skólaþjónustu Reykjavíkur, þar af um helmingur eftir fyrsta viðtali.
Velferðaryfirvöld segja að málum sé forgangsraðað eftir alvarleika. Það er ekki óeðlilegt en hafa verður í huga að mál getur snarversnað og orðið að bráðamáli í einni svipan, sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Það sárvantar fleiri fagaðila til starfa. Flokkur fólksins sættir sig ekki við neitt minna en að útrýma biðlistum. Bið barna eftir nauðsynlegri sálfræðiaðstoð getur kostað líf.
Samráð við borgarana
Fá hugtök hafa sennilega verið orðuð eins oft á þessu kjörtímabili og hugtakið samráð. Það hefur komið upp í málum eins og Laugavegslokunum, um Skerjafjörð, skólamál í norðanverðum Grafarvogi, svokallaðan Sjómannareit, aðgengi fatlaðra og margt fleira. Meirihlutinn segir að mikið samráð sé haft en fólkið segir að ekkert samráð sé haft og allt þar á milli. Ljóst er að sami skilningur er ekki lagður í hugtakið.
Nú er framtíð Bústaðavegar í umræðunni og allt það hverfi er undir. Þarna er stór hópur fólks sem kallar eftir samráði þannig að það fái að hafa eitthvað um það að segja þegar umbylta á hverfinu þess.AUGLÝSING
Samráð við fatlað fólk hefur aukist sem er gott. Þessum hópi er samt gleymt sbr. greiðslukerfið Klapp sem er nýtt rafrænt greiðslukerfi hjá Strætó bs. og krefst notkunar rafrænna skilríkja. Sumir fatlaðir geta bara alls ekki nýtt kerfið vegna fötlunar sinnar.
Ekkert samráð var haft við Vini Vatnsendahvarfs vegna 3. áfanga Arnarnesvegar og ósk um nýtt umhverfismat var hafnað. Setja á hraðbraut ofan í komandi Vetrargarð, leiksvæði barna. Meirihlutanum verður tíðrætt um „græna planið“. Hvað með lagningu Arnarnesvegar? Hversu græn er sú framkvæmd? Hraðbraut sem klýfur Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og raskar náttúru og lífríki.
Verndum fágætar fjörur Reykjavíkur
Og meira um náttúru og lífríki. Það hefur verið þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig farið er með náttúrulegar fjörur. Náttúrulegar fjörur eru að verða fágætar í Reykjavík. Landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis t.d. í Skerjafirði munu skerða náttúrulegar fjörur í Reykjavík með óafturkræfum hætti. Náttúrufræðistofnun hefur mælst til að fjörulífi verði ekki raskað en það er hunsað
Forsendur fyrir þéttingu byggðar, og þeirri hagkvæmni sem henni getur fylgt, eiga ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur. Sumar fjörur einkennast af leirum, aðrar af þaragróðri. Þetta eru mikilvæg svæði fyrir smádýr og fugla. Þétting byggðar hefur líka leitt til skerðingar á dýrmætu útsýni, t.d. útsýni til hafnarinnar frá mörgum stöðum í miðbænum.
Ósjálfbær skuldasöfnun
Borgin er skuldsett sem aldrei fyrr. Það var sérkennilegt að heyra haft eftir formanni borgarráðs í fréttum á dögunum að borgin „sé sannarlega skuldsettari en í byrjun árs 2019, en miðað við aðstæður telur meirihlutinn borgina vera á nokkuð góðum stað.“ „Við erum með gríðarlegar eignir í borginni og þær eru náttúrulega alltaf á móti skuldunum.“
Vitaskuld standa eignir á móti skuldum í efnahagsreikningi en í raunveruleikanum er það rekstrarafkoman sem segir til um hvort reksturinn standi undir afborgunum af skuldum. Varla stendur til að gera eignir borgarinnar á borð við grunnskóla, leikskóla, félagslegt húsnæði, sundlaugar eða þjónustustofnanir að söluvöru ef það verður einhvern tímann erfiðleikum háð að greiða afborganir lána? Það sem skiptir máli er hversu auðvelt rekstraraðilinn, borgarsjóður, á með að greiða af skuldunum. En svona er reynt að fegra stöðuna. Staðreyndin er sú að rekstur Reykjavíkurborgar er ósjálfbær og það þarf að taka lán upp á 1,8 milljarða kr. til að greiða daglegan rekstur.
Sorphirða og sóun verðmæta
Borgin þarf að endurskoða aðild sína að byggðasamlags fyrirtækjum svo sem Sorpu. Að byggingu Gaju var illa staðið. Stórfelld vandamál hafa komið í ljós. Gaja virkar alls ekki sem skyldi og skilar frá sér úrgangi en ekki moltu. Verðmætt metan sem fellur til er ekki selt heldur brennt til einskis! Nú síðast kom í ljós að húsið sjálft, glænýtt, er myglað. Ekkert lausafé er til hjá Sorpu. Gert er ráð fyrir töluverðri lántöku hjá fyrirtækinu eða upp á 230 milljónir. Á sama tíma á að fjárfesta fyrir 559 milljónir. Áhugavert er að sjá að samkvæmt áætluninni munu tekjur aukast um ca. 50% milli áranna 2020 og 2022. Sennilega er hér verið að tala um gjaldhækkanir. Rekstrarkostnaðurinn eykst einnig um nálægt 50% á þessu tímabili.
Staða Strætó er líka alvarleg og fram undan eru lántökur upp á 700 milljónir. Afkoma Strætó er slæm sem er áhyggjuefni. Minna má á að A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð bs. fyrirtækja
Forgangsröðun í þágu borgarbúa
Flokkur fólksins vill að fjármunum sé forgangsraðað í þágu grunnþjónustu við borgarbúa. Fjármagn er til, en því þarf að deila út með öðrum hætti en gert hefur verið. Allt of mikið fjármagn fer ýmist í óþarfa framkvæmdir eða eitthvað sem mætti bíða. Skóla- og frístundasvið rær lífróður og sama gildir um velferðarsvið. Bregðast þarf við hinni miklu fjölgun á þjónustubeiðnum. Flokkur fólksins hefur lagt fram tugi tillagna um hvar megi finna fjármagn og færa til fjármagn til þess að auka, efla og laga vankanta í þjónustu þessara tveggja sviða. Alltaf má hagræða, velta við hverjum steini, endurskipuleggja og stokka upp á nýtt með betri nýtingu í huga.
Reykjavíkurborg á hvorki að vera í samkeppnisrekstri né koma að stofnun hugbúnaðarfyrirtækis svo að fátt sé nefnt. Skoða má að selja fyrirtæki, rekstur sem borgin sem sveitarfélag á ekki að eiga og þá fæst fjármagn til að eyða biðlistum og útrýma fátækt.
Úrbótatillögur Flokks fólksins allar felldar
Við síðari umræðu Fjárhagsáætlunar 2022 og fimm ára áætlunar lagði fulltrúi Flokks fólksins til að börn foreldra með tekjur undir kr. 5.307.888 á ári fái fríar skólamáltíðir. Um 2500 börn er að ræða. Heildarkostnaður við tillöguna nemur 27,5 m.kr. Til að fjármagna tillöguna var lagt til að fjárheimildir Þjónustu- og nýsköpunarsviðs, hér eftir skammstafað ÞON, til ýmiss konar áskriftargjalda og útgjalda vegna erlendrar ráðgjafar verði lækkaðar um sömu upphæð.
Tillaga Flokks fólksins um fjölgun fagaðila til að eyða biðlista barna eftir fagaðilum skóla var einnig felld. Áætlaður heildarkostnaður tillögunnar er 200 m. kr. og var einnig lagt til að hækkunin til velferðarsviðs verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum til fjárfestinga tækja- og hugbúnaðar hjá ÞON.
Eins og tillögurnar bera með sér vill fulltrúi Flokks fólksins að sótt verði fjármagn til ÞON m.a. með því að lækka kostnað vegna ýmis konar áskrifta og aðkeyptrar innlendrar- og erlendrar ráðgjafar.
Fulltrúa Flokks fólksins hefur þótt ÞON nota það gríðarmikla fjármagn sem sviðið hefur fengið til stafrænna verkefna illa og af lausung. Stafræn umbreytingarverkefni eru nauðsynleg en skort hefur á eðlilega forgangsröðun, skýr markmið og rökstuddar tímasetningum verkefna hjá ÞON. Er nema von að spurt sé: Í hvað fóru eiginlega 10 milljarðar sem ÞON hefur sogað til sín undanfarin 3 ár?
Miklu hefur verið eytt í tilraunir á hugbúnaðarlausnum sem eru þegar til og hafa verið virkar í langan tíma! Í stað þess að hefja samvinnu, fyrir þremur árum, við þá sem lengra voru komnir með sambærilegar snjalllausnir fór ÞON í alls konar tilraunastarfsemi á alls konar snjalllausnum. Benda má í þessu sambandi á Ísland.is og Stafrænt Ísland sem hafa einmitt það hlutverk að styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum á sama tíma.AUGLÝSING
ÞON hefur þanist út, ráðið tugi sérfræðinga og hagað sér eins og hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði. ÞON telur sig nú samkeppnishæft á alþjóðamarkaði! Fjölmörg verkefni sem gerðar hafa verið tilraunir með eru þess utan ekki brýn og mættu bíða betri tíma. Á meðan orku, tíma og fjármagni hefur verið sóað í tilraunir á ýmsum gælu-snjalllausnum, hefur verið beðið eftir öðrum nauðsynlegum stafrænum lausnum. Leggja hefði átti áherslu á að fullklára Mínar síður, Hlöðuna sem er upplýsingastjórnunarkerfi og innleiðingu hennar og Gagnsjána sem er upplýsingamiðlunarkerfi en beðið hefur verið eftir þessum lausnum í þrjú ár.
Hluta fjárheimildar til ÞON er því betur varið að mati Flokks fólksins til að vinna á biðlistum og standa undir skólamáltíðum fyrir börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður.
Það er einu sinni svo að sveitarfélagið Reykjavík er á engan hátt frábrugðið öðrum sveitarfélögum á Íslandi fyrir utan stærð. Það eru að stærstum hluta sömu verkefni og sama þjónusta sem sveitarfélag þarf að veita sínum notendum. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að með gagnrýnni sinni hafi dropinn holað steininn og betur sé gætt að því að kaupa það sem hægt er að kaupa „úti í búð“.
Áherslur Flokks fólksins
Flokkur fólksins vill að öllu fólki líði vel í borginni. Fólk þarf að geta fundið til öryggis, fundið að stjórnvöld láti það sig varða og að ekki þurfi að kvíða morgundeginum. Að það hafi fæði, klæði og húsnæði, og komist milli staða án vandræða til að sinna störfum sínum og öðrum skyldum.
Reykjavíkurborg á að einbeita sér að grunnþjónustu og efla hana eins og hægt er. Efla skóla, félagsþjónustu, vinna gegn fátækt og vinna í ýmsum félagslegum úrbótum. Ef þessir þættir eru ekki í lagi skiptir litlu hvernig umhverfið er, hvort glitti í bragga, pálma eða Laugaveginn í breyttri göngugötumynd.
Það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa, endurskoðenda og innri endurskoðunar að gera viðvart. Ef reka á sveitarfélag samkvæmt lögum þarf eftirfarandi:
- Verkefnum sé forgangsraðað með brýnar þarfir íbúa að leiðarljósi.
- Verkefni séu skilgreind af fagmennsku og með skýrri markmiðssetningu.
- Lausatök séu ekki liðin í fjármálastjórn.
- Hagkvæmni sé ávallt höfð að leiðarljósi.
Flokkur fólksins hefur áhyggjur af því að þessi lagaskilyrði hafi ekki verið virt í verki hjá Reykjavíkurborg. Á það verður látið reyna á nýju ári.
- Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins í Reykjavík