Brýn úrlausnarefni hjá borginni á nýju ári

Um ára­mót er vert að líta um öxl en ekki síður að horfa fram á við til brýnna verk­efna. Flokkur fólks­ins berst fyrir bætum lífs­skil­yrðum hinna verst settu og þeirra sem standa höllum fæti. Mörgum börn­um, eldri borg­urum og öryrkjum líður alls ekki nógu vel. Eng­inn ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunn­þörfum í okkar gjöf­ula landi og góðu borg en sú er því miður raun­in.

Fátækt er stað­reynd

Ógn fátækt­ar­innar leggst mis­mun­andi á fjöl­skyldur en verst á börn ein­stæðra for­eldra, börn for­eldra sem eru á örorku­bót­um, börn með fötl­un, börn inn­flytj­enda og börn sem til­heyra fjöl­skyldum með erf­iðar félags­legar og efna­hags­legar aðstæð­ur.

Talið er að ein­stæðir for­eldr­ar, öryrkjar, atvinnu­lausir og annað lág­tekju­fólk þar sem fyr­ir­vinnan er ein, búi við fátækt eða hættu á að falla í fátækt­ar­gildr­una. Sam­kvæmt Hag­stofu Íslands eru börn ein­stæðra for­eldra í Reykja­vík 7.251. Þar af er talið að 2.465 börn ein­stæðra for­eldra búi við fátækt eða séu nærri fátækt­ar­mörkum

Í nýlegri skýrslu Barna­heilla um fátækt kemur fram að um 22% for­eldra segj­ast ekki geta greitt skóla­mat fyrir börnin sín og um 19% segj­ast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tóm­stundir barna sinna. Í skýrsl­unni er bent á að auka þurfi jöfnuð innan mennta­kerf­is­ins og tryggja börnum hús­næð­is­ör­yggi, svo að dæmi séu nefnd.

Hús­næð­is­að­stæður margra barna eru ótrygg­ar. Húsa­leiga er oft stærsti útgjalda­liður fjöl­skyld­unnar og nær jafn­vel allt að 70% af ráð­stöf­un­ar­tekj­um. Þetta leiðir til þess að fátækir for­eldrar leita mögu­lega skjóls í hús­næði sem er óvið­un­andi og jafn­vel hættu­legt. Og húsa­leiga fer því miður hækk­andi.

Þótt þessi mynd sé dregin fram hér vitum við að í borg­inni er líka fólk sem líður vel og hefur það gott Á mörgum sviðum sam­fé­lags­ins er verið að gera góða hluti.

Flokkur fólks­ins vill að gripið verði til sér­tækra og mark­vissra aðgerða í þágu barna bág­staddra. Efla þarf félags­legan stuðn­ing við börn og ung­linga sem eru jað­ar­sett og félags­lega útskúf­uð. Til þess þarf skýra stefnu í sam­ræmi við ákvæði Barna­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna. Þar er m.a. kveðið á um hvernig upp­ræta eigi víta­hring fátækt­ar, þannig að öll börn fái notið þjón­ustu til að rækta hæfi­leika sína. Þetta er verk­efni borg­ar­stjórnar og Alþing­is.

Langir biðlistar rót­gróið mein í Reykja­vík

Áhersla þessa borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluta og síð­asta hefur snú­ist um annað en grunn­þarfir fólks. Biðlistar eru rót­gróið mein og nú í sögu­legu hámarki. Áhrif og afleið­ingar COVID-19 bæt­ast þar ofan á. Ástandið hefur tekið toll af and­legri heilsu for­eldra og barna. Til­kynn­ingar um van­rækslu, ofbeldi og áhættu­hegðun hafa auk­ist um 20% til 23%. Þetta er hættu­leg þró­un.

Við þessu hefur ekki verið brugð­ist nægi­lega mark­visst. Borg­ar­kerfið hefur þan­ist út og ótrú­legur fjöldi nýráðn­inga er hjá borg­inni en því miður ekki á vel­ferð­ar­sviði eða skóla- og frí­stunda­sviði. Á sviðum sem sinna grunn­þjón­ustu er mann­ekla í mörg störf, t.d. í leik­skóla, frí­stunda­heim­ili og í heima­þjón­ustu. Þetta eru álags­störf og illa laun­uð. Meiri­hlut­anum hefur ekki tek­ist að leysa þetta vanda­mál.

Langir biðlistar eru í alla þjón­ustu á vegum Reykja­vík­ur­borg­ar. Sam­kvæmt töl­fræði­vef borg­ar­innar biðu í des­em­ber 1.680 börn eftir þjón­ustu fag­fólks í Skóla­þjón­ustu Reykja­vík­ur, þar af um helm­ingur eftir fyrsta við­tali.

Vel­ferð­ar­yf­ir­völd segja að málum sé for­gangs­raðað eftir alvar­leika. Það er ekki óeðli­legt en hafa verður í huga að mál getur snar­versnað og orðið að bráða­máli í einni svip­an, sér­stak­lega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Það sár­vantar fleiri fag­að­ila til starfa. Flokkur fólks­ins sættir sig ekki við neitt minna en að útrýma biðlist­um. Bið barna eftir nauð­syn­legri sál­fræði­að­stoð getur kostað líf.

Sam­ráð við borg­ar­ana

Fá hug­tök hafa senni­lega verið orðuð eins oft á þessu kjör­tíma­bili og hug­takið sam­ráð. Það hefur komið upp í málum eins og Lauga­vegslok­un­um, um Skerja­fjörð, skóla­mál í norð­an­verðum Graf­ar­vogi, svo­kall­aðan Sjó­mannareit, aðgengi fatl­aðra og margt fleira. Meiri­hlut­inn segir að mikið sam­ráð sé haft en fólkið segir að ekk­ert sam­ráð sé haft og allt þar á milli. Ljóst er að sami skiln­ingur er ekki lagður í hug­tak­ið.

Nú er fram­tíð Bústaða­vegar í umræð­unni og allt það hverfi er und­ir. Þarna er stór hópur fólks sem kallar eftir sam­ráði þannig að það fái að hafa eitt­hvað um það að segja þegar umbylta á hverf­inu þess.AUGLÝSING

Sam­ráð við fatlað fólk hefur auk­ist sem er gott. Þessum hópi er samt gleymt sbr. greiðslu­kerfið Klapp sem er nýtt raf­rænt greiðslu­kerfi hjá Strætó bs. og krefst notk­unar raf­rænna skil­ríkja. Sumir fatl­aðir geta bara alls ekki nýtt kerfið vegna fötl­unar sinn­ar.

Ekk­ert sam­ráð var haft við Vini Vatns­enda­hvarfs vegna 3. áfanga Arn­ar­nes­vegar og ósk um nýtt umhverf­is­mat var hafn­að. Setja á hrað­braut ofan í kom­andi Vetr­ar­garð, leik­svæði barna. Meiri­hlut­anum verður tíð­rætt um „græna plan­ið“. Hvað með lagn­ingu Arn­ar­nes­veg­ar? Hversu græn er sú fram­kvæmd? Hrað­braut sem klýfur Vatns­enda­hvarf að endi­löngu mun draga úr fram­tíð­ar­mögu­leikum Vetr­ar­garðs­ins og raskar nátt­úru og líf­ríki.

Verndum fágætar fjörur Reykja­víkur

Og meira um nátt­úru og líf­ríki. Það hefur verið þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig farið er með nátt­úru­legar fjör­ur. Nátt­úru­legar fjörur eru að verða fágætar í Reykja­vík. Land­fyll­ing í tengslum við upp­bygg­ingu íbúða­hverfis t.d. í Skerja­firði munu skerða nátt­úru­legar fjörur í Reykja­vík með óaft­ur­kræfum hætti. Nátt­úru­fræði­stofnun hefur mælst til að fjöru­lífi verði ekki raskað en það er hunsað

For­sendur fyrir þétt­ingu byggð­ar, og þeirri hag­kvæmni sem henni getur fylgt, eiga ekki að byggj­ast á því að raska líf­rík­ustu svæðum Reykja­vík­ur. Sumar fjörur ein­kenn­ast af leirum, aðrar af þara­gróðri. Þetta eru mik­il­væg svæði fyrir smá­dýr og fugla. Þétt­ing byggðar hefur líka leitt til skerð­ingar á dýr­mætu útsýni, t.d. útsýni til hafn­ar­innar frá mörgum stöðum í mið­bæn­um.

Ósjálf­bær skulda­söfnun

Borgin er skuld­sett sem aldrei fyrr. Það var sér­kenni­legt að heyra haft eftir for­manni borg­ar­ráðs í fréttum á dög­unum að borgin „sé sann­ar­lega skuld­sett­ari en í byrjun árs 2019, en miðað við aðstæður telur meiri­hlut­inn borg­ina vera á nokkuð góðum stað.“ „Við erum með gríð­ar­legar eignir í borg­inni og þær eru nátt­úru­lega alltaf á móti skuld­un­um.“

Vita­skuld standa eignir á móti skuldum í efna­hags­reikn­ingi en í raun­veru­leik­anum er það rekstr­ar­af­koman sem segir til um hvort rekst­ur­inn standi undir afborg­unum af skuld­um. Varla stendur til að gera eignir borg­ar­innar á borð við grunn­skóla, leik­skóla, félags­legt hús­næði, sund­laugar eða þjón­ustu­stofn­anir að sölu­vöru ef það verður ein­hvern tím­ann erf­ið­leikum háð að greiða afborg­anir lána? Það sem skiptir máli er hversu auð­velt rekstr­ar­að­il­inn, borg­ar­sjóð­ur, á með að greiða af skuld­un­um. En svona er reynt að fegra stöð­una. Stað­reyndin er sú að rekstur Reykja­vík­ur­borgar er ósjálf­bær og það þarf að taka lán upp á 1,8 millj­arða kr. til að greiða dag­legan rekst­ur.

Sorp­hirða og sóun verð­mæta

Borgin þarf að end­ur­skoða aðild sína að byggða­sam­lags fyr­ir­tækjum svo sem Sorpu. Að bygg­ingu Gaju var illa stað­ið. Stór­felld vanda­mál hafa komið í ljós. Gaja virkar alls ekki sem skyldi og skilar frá sér úrgangi en ekki moltu. Verð­mætt metan sem fellur til er ekki selt heldur brennt til einskis! Nú síð­ast kom í ljós að húsið sjálft, glæ­nýtt, er myglað. Ekk­ert lausafé er til hjá Sorpu. Gert er ráð fyrir tölu­verðri lán­töku hjá fyr­ir­tæk­inu eða upp á 230 millj­ón­ir. Á sama tíma á að fjár­festa fyrir 559 millj­ón­ir. Áhuga­vert er að sjá að sam­kvæmt áætl­un­inni munu tekjur aukast um ca. 50% milli áranna 2020 og 2022. Senni­lega er hér verið að tala um gjald­hækk­an­ir. Rekstr­ar­kostn­að­ur­inn eykst einnig um nálægt 50% á þessu tíma­bili.

Staða Strætó er líka alvar­leg og fram undan eru lán­tökur upp á 700 millj­ón­ir. Afkoma Strætó er slæm sem er áhyggju­efni. Minna má á að A-hlut­inn er fjár­hags­legur bak­hjarl fyr­ir­tækja borg­ar­innar ef í harð­bakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borg­ar­ráð sam­þykki veð í útsvars­tekjum Reykja­vík­ur­borgar til trygg­ingar á ábyrgð bs. fyr­ir­tækja

For­gangs­röðun í þágu borg­ar­búa

Flokkur fólks­ins vill að fjár­munum sé for­gangs­raðað í þágu grunn­þjón­ustu við borg­ar­búa. Fjár­magn er til, en því þarf að deila út með öðrum hætti en gert hefur ver­ið. Allt of mikið fjár­magn fer ýmist í óþarfa fram­kvæmdir eða eitt­hvað sem mætti bíða. Skóla- og frí­stunda­svið rær líf­róður og sama gildir um vel­ferð­ar­svið. Bregð­ast þarf við hinni miklu fjölgun á þjón­ustu­beiðn­um. Flokkur fólks­ins hefur lagt fram tugi til­lagna um hvar megi finna fjár­magn og færa til fjár­magn til þess að auka, efla og laga van­kanta í þjón­ustu þess­ara tveggja sviða. Alltaf má hag­ræða, velta við hverjum steini, end­ur­skipu­leggja og stokka upp á nýtt með betri nýt­ingu í huga.

Reykja­vík­ur­borg á hvorki að vera í sam­keppn­is­rekstri né koma að stofnun hug­bún­að­ar­fyr­ir­tækis svo að fátt sé nefnt. Skoða má að selja fyr­ir­tæki, rekstur sem borgin sem sveit­ar­fé­lag á ekki að eiga og þá fæst fjár­magn til að eyða biðlistum og útrýma fátækt.

Úrbóta­til­lögur Flokks fólks­ins allar felldar

Við síð­ari umræðu Fjár­hags­á­ætl­unar 2022 og fimm ára áætl­unar lagði full­trúi Flokks fólks­ins til að börn for­eldra með tekjur undir kr. 5.307.888 á ári fái fríar skóla­mál­tíð­ir. Um 2500 börn er að ræða. Heild­ar­kostn­aður við til­lög­una nemur 27,5 m.kr. Til að fjár­magna til­lög­una var lagt til að fjár­heim­ildir Þjón­ustu- og nýsköp­un­ar­sviðs, hér eftir skamm­stafað ÞON, til ýmiss konar áskrift­ar­gjalda og útgjalda vegna erlendrar ráð­gjafar verði lækk­aðar um sömu upp­hæð.

Til­laga Flokks fólks­ins um fjölgun fag­að­ila til að eyða biðlista barna eftir fag­að­ilum skóla var einnig felld. Áætl­aður heild­ar­kostn­aður til­lög­unnar er 200 m. kr. og var einnig lagt til að hækk­unin til vel­ferð­ar­sviðs verði fjár­mögnuð með lækkun á fjár­heim­ildum til fjár­fest­inga tækja- og hug­bún­aðar hjá ÞON.

Eins og til­lög­urnar bera með sér vill full­trúi Flokks fólks­ins að sótt verði fjár­magn til ÞON m.a. með því að lækka kostnað vegna ýmis konar áskrifta og aðkeyptrar inn­lendr­ar- og erlendrar ráð­gjafar.

Full­trúa Flokks fólks­ins hefur þótt ÞON nota það gríð­ar­mikla fjár­magn sem sviðið hefur fengið til staf­rænna verk­efna illa og af laus­ung. Staf­ræn umbreyt­ing­ar­verk­efni eru nauð­syn­leg en skort hefur á eðli­lega for­gangs­röð­un, skýr mark­mið og rök­studdar tíma­setn­ingum verk­efna hjá ÞON. Er nema von að spurt sé: Í hvað fóru eig­in­lega 10 millj­arðar sem ÞON hefur sogað til sín und­an­farin 3 ár?

Miklu hefur verið eytt í til­raunir á hug­bún­að­ar­lausnum sem eru þegar til og hafa verið virkar í langan tíma! Í stað þess að hefja sam­vinnu, fyrir þremur árum, við þá sem lengra voru komnir með sam­bæri­legar snjall­lausnir fór ÞON í alls konar til­rauna­starf­semi á alls konar snjall­lausn­um. Benda má í þessu sam­bandi á Ísland.is og Staf­rænt Ísland sem hafa einmitt það hlut­verk að styðja við staf­ræna veg­ferð stofn­ana og sveit­ar­fé­laga til að tryggja að ekki sé unnið að sam­bæri­legum lausnum á mörgum stöðum á sama tíma.AUGLÝSING

ÞON hefur þan­ist út, ráðið tugi sér­fræð­inga og hagað sér eins og hug­bún­að­ar­fyr­ir­tæki á einka­mark­aði. ÞON telur sig nú sam­keppn­is­hæft á alþjóða­mark­aði! Fjöl­mörg verk­efni sem gerðar hafa verið til­raunir með eru þess utan ekki brýn og mættu bíða betri tíma. Á meðan orku, tíma og fjár­magni hefur verið sóað í til­raunir á ýmsum gælu-­snjall­lausnum, hefur verið beðið eftir öðrum nauð­syn­legum staf­rænum lausn­um. Leggja hefði átti áherslu á að full­klára Mínar síð­ur, Hlöð­una sem er upp­lýs­inga­stjórn­un­ar­kerfi og inn­leið­ingu hennar og Gagn­sjána sem er upp­lýs­inga­miðl­un­ar­kerfi en beðið hefur verið eftir þessum lausnum í þrjú ár.

Hluta fjár­heim­ildar til ÞON er því betur varið að mati Flokks fólks­ins til að vinna á biðlistum og standa undir skóla­mál­tíðum fyrir börn sem búa við erf­iðar félags­legar aðstæð­ur.

Það er einu sinni svo að sveit­ar­fé­lagið Reykja­vík er á engan hátt frá­brugðið öðrum sveit­ar­fé­lögum á Íslandi fyrir utan stærð. Það eru að stærstum hluta sömu verk­efni og sama þjón­usta sem sveit­ar­fé­lag þarf að veita sínum not­end­um. Full­trúi Flokks fólks­ins vonar að með gagn­rýnni sinni hafi drop­inn holað stein­inn og betur sé gætt að því að kaupa það sem hægt er að kaupa „úti í búð“.

Áherslur Flokks fólks­ins

Flokkur fólks­ins vill að öllu fólki líði vel í borg­inni. Fólk þarf að geta fundið til örygg­is, fundið að stjórn­völd láti það sig varða og að ekki þurfi að kvíða morg­un­deg­in­um. Að það hafi fæði, klæði og hús­næði, og kom­ist milli staða án vand­ræða til að sinna störfum sínum og öðrum skyld­um.

Reykja­vík­ur­borg á að ein­beita sér að grunn­þjón­ustu og efla hana eins og hægt er. Efla skóla, félags­þjón­ustu, vinna gegn fátækt og vinna í ýmsum félags­legum úrbót­um. Ef þessir þættir eru ekki í lagi skiptir litlu hvernig umhverfið er, hvort glitti í bragga, pálma eða Lauga­veg­inn í breyttri göngu­götu­mynd.

Það er á ábyrgð kjör­inna full­trúa, end­ur­skoð­enda og innri end­ur­skoð­unar að gera við­vart. Ef reka á sveit­ar­fé­lag sam­kvæmt lögum þarf eft­ir­far­andi:

  1. Verk­efnum sé for­gangs­raðað með brýnar þarfir íbúa að leið­ar­ljósi.
  2. Verk­efni séu skil­greind af fag­mennsku og með skýrri mark­miðs­setn­ingu.
  3. Lausa­tök séu ekki liðin í fjár­mála­stjórn.
  4. Hag­kvæmni sé ávallt höfð að leið­ar­ljósi.

Flokkur fólks­ins hefur áhyggjur af því að þessi laga­skil­yrði hafi ekki verið virt í verki hjá Reykja­vík­ur­borg. Á það verður látið reyna á nýju ári.

  • Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins í Reykjavík

Deila